Það þarf að breyta viðhorfum og kúltúr

 

 
– segir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra
 
Eins og fram kom í síðasta tölublaði Samiðnarblaðsins lagði þáverandi um-hverfisráðherra fram nýtt frumvarp til mannvirkjalaga síðastliðið vor. Lítil sem engin umræða var um frumvarpið á þinginu, ráðherra mælti fyrir því og því var vísað til umfjöllunar í nefnd og lengra fór málið ekki. Skýringanna er ekki endi-lega að leita í málefnalegum ágreiningi, málið kom seint fram og var einfaldlega ekki forgangsmál þáverandi ríkisstjórnar.
 
Frá því frumvarpið var lagt fram hafa farið fram kosningar og ný ríkisstjórn verið mynduð. Það er því ástæða til að komast að því hvaða skoðun nýr umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur á málinu. Þórunn tók á móti tíðindamanni á bjartri skrifstofu sinni við Skuggasund – í húsi sem áður hýsti Verkamannafélagið Dagsbrún. Hún var fyrst spurð hver yrðu líkleg afdrif þessa frumvarps, hvort það yrði lagt fram á ný og þá hvort það yrði líkt eldra frumvarpi eða hvort ráðgerðar væru breytingar á því.
Frumvarp til mannvirkjalaga og frumvarp til breytinga á skipulagslögum verða lögð fram á Alþingi í haust. Þetta eru hvort tveggja stór mál sem fyrirrennarar mínir í starfi unnu að. Jónína Bjartmarz mælti fyrir málunum í þinglok í betur. Þau fóru inn í umhverfisnefnd Alþingis og leitað var eftir umsögnum. Úr þeim hefur verið unnið í sumar hér í umhverfisráðuneytinu, auk þess sem ég hef haft samráð við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um  ákveðna þætti þessara þingmála. Þessi mál hanga saman í einum pakka, ef þannig má að orði komast: mannvirkjafrumvarpið, frumvarp um brunamál og frumvarp um skipulagsmál.
– Það getur verið snúið að taka við svona stórum málum af ráðherrum úr öðrum stjórnmálaflokkum. En maður reynir að setja sig inn í þank aganginn og heildarhugsunina og lagfæra hlutina og breyta eftir þörfum. Væri ég í grundvallaratriðum andsnúin þessum málum hefði ég einfaldlega ákveðið að leggja þau ekki fram. Því er ekki að skipta og málin verða lögð fram í svolítið breyttum búningi. 
 
Ráðherrar Framsóknarflokksins ósammála
 
Að sögn Þórunnar voru átök á milli Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra og Jóns Sigurðssonar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um eftirlitsþáttinn. Það þýddi að frumvarpið var ekki nógu heildstætt að hennar mati. Gert var ráð fyrir því að rafmagns-eftirlit nýbygginga væri hjá Neytendastofu, en nú væri verið að vinna að því að ná þessu yfir í hina nýju Byggingastofnun. Þannig eigi að vera hægt að tryggja samræmi í eftirliti um land allt.
– Sumum finnst þetta vera miðstýringartilhneiging, en í mínum huga er þetta fyrst og fremst öryggismál, segir Þórunn.
Hvað með hlutverk sveitarfélaganna?
– Við gerum ráð fyrir því að byggingarfulltrúar sveitarfélaga fái víðtækara hlutverk til íhlutunar ef mál eru í ólagi. Um leið gerum við ráð fyrir skýrari afmörkun milli byggingareftirlitsins og skipulagsþáttarins. Skipulagið er að verða sífellt faglegra og er í rauninni pólitíska hliðin, á meðan hitt er meira tæknilegt, spurning um að farið sé að reglum og stöðlum og allt sé í lagi. Bakland byggingarfulltrúans á að verða Byggingastofnun, á meðan skipulagsþátturinn er meira heima í héraði, í höndum stjórnmálamanna. Mér finnst skipta miklu máli að gera hlutina einfaldari og að hlutverk hvers og eins sé skýrt afmarkað. Þannig á Byggingastofnun að sjá um að útbúa handbækur og leiðbeiningar og vera bakland byggingarfulltrúanna, sem fá meiri íhlutunarrétt.
Er þá gert ráð fyrir því að smærri sveitarfélög geti sameinast um byggingarfulltrúa?
– Það er eiginlega frekar verið að tala um það í sambandi við skipulagsmálin. Þá yrði það með þeim hætti að það verði skilgreind ákveðin skipulagssvæði. Þá verði tryggt að á hverju svæði sé tryggð ákveðin lágmarksþjónusta og þekking. Sums staðar þurfa menn að gera þetta á byggðarsamlagagrundvelli. 
 
Verður staða íbúðarkaupenda betri?
 
Verði frumvarpið að lögum – eru þá einhverjar líkur á að þessi mál verði í betri farvegi fyrir þá neytendur sem lenda í hremmingum útaf fúski byggingaraðila?
– Við erum að vona það. Samkvæmt frumvarpinu liggja allir þræðir í gegnum byggingarstjórann. Það er verið að skýra hlutverk hans og skyldur talsvert frá því sem áður hefur verið. Um það hafa verið deildar meiningar. Það er lagt til að bygg-ingarstjóri geti ekki samhliða verið hönn-uður eða iðnmeistari. Þetta teljum við nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að menn hafi eftirlit með sjálfum sér. Gert er ráð fyrir að lögbundin tryggingaskylda byggingarstjóra verði afnumin, þó það sé reyndar líklegt að margir þeirra kjósi að kaupa sér tryggingu. 
Eins og þessu er háttað núna þá er tryggingin þannig að það er hætta á að hún veiti falskt öryggi, upphæðir eru lágar og veita eiginlega enga raunverulega tryggingu þegar til á að taka. Fólk heldur oft að við það að byggingarstjórum er skylt að hafa tryggingu, þá sé það varið. Trygginga-félögin sem lenda í að borga tjón velta kostnaðinum af því út í verðlag og þannig er verið að taka skellinn af fúskurunum. Kerfið er þannig hálfgerð samábyrgð fyrir fúskara. Verði frumvarpið að lögum og ég ætla sem neytandi að gera samning við byggingarverktaka um að hann byggi fyrir mig hús, þá geri ég einfaldlega kröfu um að hann sé tryggður. Þetta verður ekki lögbundið, en neytendur, sem bera ábyrgð á því við hvern þeir semja, eiga rétt á að   krefjast þess að verktakinn sé tryggður. Með þessu teljum við að verið sé að koma í veg fyrir falska öryggistilfinningu sem oft skapast af byggingarstjóratryggingunni. Hönnunarstofur eru með margfalt hærri tryggingar en þessar byggingarstjóratrygg-ingar, sem eru smámál við hliðina á þeim og geta skapað falskt öryggi.
 
 
Byggingarstjórinn umboðsmaður eigenda
 
Þórunn segir að frumvarpið stefni ekki síst að því að breyta viðhorfum í þessum viðskiptum. Það sé í rauninni verið að beina því til fólks að vera í viðskiptum við aðila sem eru með hlutina í lagi. 
– Fasteignamarkaðurinn hefur ekki verið í nógu góðu lagi að þessu leyti, en við vonumst til að það lagist við þetta. Við gerum meiri kröfur til aðila, byggingarstjórinn þarf að hafa starfsleyfi, það er meira eftirlit með iðnmeisturum og hönnuðum og það er hægt að grípa inn í ef menn eru ekki að gera það sem þeir eiga að gera. Það verða fleiri tæki til að kippa fúskurunum úr umferð. Starfsleyfið verður gefið út af Byggingastofnun og verði menn uppvísir að því að fara á svig við reglur, þá verður hægt að svipta þá þessu leyfi.
Byggingarstjóranum er ætlað að verða umboðsmaður eigenda. Hann á að gæta hagsmuna þeirra og hann má ekki vera sá sami og iðnmeistarinn. Byggingarstjórinn er eftirlitsmaður á svæðinu til að gæta hagsmuna eigandans. Nú eru byggingarstjórinn og iðnmeistarinn gjarnan sami maðurinn eða að minnsta kosti nátengdir aðilar og ef eitthvað fer úrskeiðis, þá stendur eigandinn einn gegn þeim. Samkvæmt frumvarpinu eiga eigandinn og byggingarstjórinn að vera samherjar við að ná fram réttinum gagnvart meistaranum.
 
Byggingaraðilar hafi gæðakerfi
 
Að sögn umhverfisráðherra leggur frumvarpið áherslu á að hið opinbera hafi eftirlit með öryggi, hollustuháttum og aðgengi. 
– Á því sviði verður hið opinbera styrkur fyrir almenning. Það er skýrt hver ber ábyrgð á hverju. Ef eitthvað er ekki eins og það á að vera getur fólk leitað til Byggingastofnunar. Þegar við erum aftur á móti farin að fjalla um gæði mannvirkja, þá erum við svolítið komin út fyrir þennan ramma sem lög og reglur fjalla um.
Frumvarpið gerir að vísu kröfu um að allir í þessum geira séu með gæðakerfi. Við vonumst til að það leiði til betri vinnubragða og um leið til neytendavakningar, þannig að hinn almenni neytandi átti sig á því að hið opinbera passar ekki allt fyrir hann. Markaðurinn þarf að gera sér grein fyrir því að það er betra að skipta við aðila sem er með gæðakerfi og er með sitt á hreinu. Gæðin verði þannig hliðarafurð, þegar búið er að tryggja öryggið og úttektir faggiltra skoðunarstofa og byggingarfulltrúa. 
Þetta snýst þannig meira og minna um það að neytandinn verði ábyrgur. Hann verður að passa sig og og sitt og með því að ráða til sín ábyrga aðila – með gæðakerfi og tryggingu – þá á hann að vera nokkuð öruggur með sín mál. Málið snýst eiginlega um að breyta kúltúrnum í þessum geira, segir Þórunn Sveinbjarnardóttir að lokum.