Plastbátarnir framtíðin?

 

– Við finnum fyrir samdrætti eins og aðrir sem tengdir eru sjávarútvegi. Útgerðarmenn halda að sér höndum í viðhaldi skipa og samdráttur í aflaheimild-um veldur því einnig að skipunum fækkar, sem leiðir sjálfkrafa til færri verkefna fyrir okkur sem þjónust-um útgerðina, segir Logi Halldórsson, einn af starfsmönnum Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur þegar blaðamaður Samiðnarblaðsins heimsótti hann og vinnufélaga hans nýverið.
Skipasmíðastöð Njarðvíkur stundar alhliða viðhaldsþjónustu fyrir skip og báta og að sögn Loga koma flestir bátarnir af Suðurnesjunum, en einnig er gert við báta annars staðar af landinu, allt frá Vest-mannaeyjum að Snæfellsnesi. Auk fiskveiðiflotans hefur skipasmíðastöðin annast viðhald á sanddæluskipum fyrir Björgun og á hvalaskoðunarbátum. Skipasmíðastöðin er gamalt fyrirtæki, stofnað rétt eftir seinna stríð, og hefur í gegnum árin fengist við viðgerðir og viðhald, auk skipasmíða á árum áður. Fyrirtækið er vel staðsett við Njarðvíkurhöfn og hefur yfir að ráða skipaskýli sem reist var árið 1998 en þar geta þeir tekið inn báta sem eru allt að 53 metrar að lengd og 800 tonn að þyngd og unnið við þá óháð veðri, til dæmis málað.
– Við erum hér 18 starfmenn núna, en hér störfuðu þegar mest var rúmlega 70 manns. Ætli ég sé ekki með yngri mönnum hér þótt ég sé kominn langt á fertugsaldurinn, segir Logi og glottir, en hann er ekki sáttur við hvernig komið er fyrir málmiðnaðinum í landinu og hefur áhyggjur af framtíð skipaviðgerða innanlands.
– Ef ekki verður nýliðun í þessari starfsstétt hér á landi deyr þessi iðngrein drottni sínum fyrr en síðar. Þá getur orðið erfitt fyrir íslenska útgerðarmenn að fá lögbundið viðhald á skipum sínum hér á landi, og það er mikil eftirsjá í því ef við getum ekki sjálfir annast viðhald á okkar eigin skipaflota, segir Logi, sem er varamaður í stjórn Félags iðn- og tæknigreina, en Iðnsveinafélag Suðurnesja sameinuðust FIT fyrr á þessu ári.
Logi segir að þótt samdráttur sé í verkefnum hjá fyrirtækinu og starfsmönnum hafi fækkað sé ágætt hljóð í mannskapnum. Þeir sem starfa hjá fyrirtækinu séu bjartsýnir á framhaldið. – Hér er nánast eingöngu unnin dagvinna en menn eru þokkalega sáttir við það, flestir komnir á þann aldur að þeim nægja dagvinnulaunin, segir Logi, en segir jafnframt að stöðug óvissa um verkefni sé lýjandi. Nú er til dæmis fátt vitað um verkefni næstu mánuði.
– Það er vissulega ákveðið óöryggi í því þegar menn vita ekki hvort næg atvinna verður eftir mánuð eða ekki. En þetta hefur blessast hingað til, bætir hann við. 
– Hér er góður starfandi og samskiptin við yfirmenn ágæt. Við höfum líka verið að þreifa fyrir okkur með viðgerðir á plastbátum en þar er mikið sóknarfæri þar sem þeim bátum hefur fjölgað mjög hér á landi. Nýlega voru hér fest kaup á upptökubúnaði sem gerir okkur kleift að taka upp plastbáta, segir Logi, og bindur vonir við að þessi þáttur í starfsemi stöðvarinnar eigi eftir að aukast á næstunni.
Logi segir aðspurður að Suðurnesjamenn séu bara nokkuð hressir þrátt fyrir ýmsa hrakninga í atvinnumálum á þeim slóðum. – Við bindum vonir við að það sem er að gerast upp á flugvelli þessa dagana eigi eftir að bæta okkur upp þau fjölmörgu störf sem hurfu af svæðinu þegar herinn fór. Völlurinn býður upp á margvísleg tækifæri sem ætla má að stjórnvöld og ýmsir athafnamenn eigi eftir að nýta í þágu atvinnuuppbyggingar hér á Suðurnesjum, segir Logi og er sérlega ánægður með tilkomu háskólans á svæðinu, og það að ungu fólki hefur fjölgað á Suðurnesjum með tilkomu námsmannaíbúðanna á Keflavíkurflugvelli nú í haust.