Samþykkt samninganefndar Samiðnar

Samninganefnd  Samiðnar lýsir  miklum vonbrigðum með að ríkisstjórn Íslands  hafi ekki séð sér fært að  mæta óskum stéttarfélaganna  um að boðaðar skattalækkanir verði fyrst og fremst nýttar til að lækka skatta á lægstu tekjur.  Það eru einnig mikil vonbrigði að í yfirstandandi kjaradeilu skuli ríkisstjórnin ekki ganga  nú þegar til samstarfs við stéttarfélögin um að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Á  síðustu árum hefur ójöfnuður farið vaxandi hér á landi og er svo komið að djúp gjá hefur myndast  á milli almennings og þess hóps sem veit ekki aura sinna tal.  Með skattabreytingum síðustu ára hefur verið dregið úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins en  mikilvægt er að horfið verði frá þeirri stefnu og skattkerfið  notað í auknum mæli til jöfnunar.

 

Mikill óstöðuleiki er í íslensku efnahagslífi sem birtist m.a í vaxandi verðbólgu og háum vöxtum.  Mikil verðbólga kemur verst niður á skuldsettum fjölskyldum og ekki síst lágtekjufólki sem þarf að ráðstafa stórum hluta launa sinna í að greiða af verðtryggðum húsnæðiskuldum.  Samninganefnd Samiðnar gerir kröfu til stjórnvalda að þau beiti markvissum aðgerðum til að hér á landi komist á efnahagslegur stöðugleiki og skapaðar verði forsendur til bættra  lífskjara.   Reynslan segir okkur að eina leiðin til að ná tökum á verðbólgu og efnahagslegum óstöðugleika  er traust og  markvist  samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.