Skipulagsmál Samiðnar verða í brennidepli á 5. þingi Samiðnar sem haldið verður í Reykjavík 4.–5. maí nú í vor.
Á síðasta Samiðnarþingi sem haldið var á Akureyri fyrir þremur árum var ákveðið að setja á laggirnar fimm manna nefnd til að fara ofan í saumana á starfsemi Samiðnar, hlutverki samtakanna og stefnu. Nefndin lagði fram áfangaskýrslu um störf sín fyrir sambandsstjórn Samiðnar og er þar meðal annars lagt til að hafnar verði viðræður við önnur samtök iðnaðarmanna um að endurskoða skipulagsmál iðnstéttanna í landinu.
Í skýrslu nefndarinnar segir jafnframt: „Ef verkalýðshreyfingin gerir ekkert í sínum innri málum, mark
miðasetningu, hlutverkaskilgreiningu og síðan skipulagi, mun vægi hennar minnka hratt á næstu árum og áratugum. Verkalýðshreyfingin er að endurskoða hlutverk sitt með það fyrir augum að nútímavæðast – en það er afar nauðsynlegt að það gerist hraðar en orðið er. Það þarf ekki að merkja að verkalýðshreyfingin glati sjónum á upphaflegum baráttumarkmiðum sínum fyrir réttlæti og jafnrétti í þjóðfélaginu. Hún þarf hinsvegar að breyta áherslum sínum og koma til móts við fagleg og pólitísk markmið sem allir innan hreyfingarinnar geta sætt sig við.“
– Við ætlum að halda áfram að vinna að þessum málum á þinginu sem framundan er. Það er ljóst að vilji er fyrir hendi innan Samiðnar að taka skipulagsmálin til endurskoðunar, en þingið á síðasta orðið í þessum efnum, segir Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar.
Kjaramálin setja einnig mark sitt á þingið, og segja má að það marki upphaf þeirrar vinnu sem framundan er við undirbúning nýs kjarasamnings fyrir félagsmenn Samiðnar. Núverandi samningur rennur út um næstu áramót.
Finnbjörn segir að um 80 fulltrúar eigi seturétt á þinginu og reynslan frá undangengnum þingum sýnir að vænta má góðrar mætingar.
Það er hefð fyrir því að menn mæta vel á okkar þing, segir Finnbjörn Hermannsson.