Komumst ekki hjá því að taka upp evru!

segir Þórólfur Matthíasson prófessor um líkurnar á að við tökum upp evru í stað krónunnar og áhrif þess á venjulegt fólk

Undanfarið hefur verið talsverð umræða um stöðu krónunnar og möguleikana á upptöku evru í íslensku hagkerfi. Mönnum hefur sýnst sitt hverjum og stundum hefur virst sem afstaða þeirra sem tjá sig ráðist einkum af stöðu þeirra. Víst er að viðfangsefnið er flókið og erfitt fyrir venjulegt fólk að átta sig á kostum og göllum þess að taka upp evru á Íslandi í stað krónunnar og hvort það sé yfirleitt hugsanlegur kostur. Hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla? Hver yrðu áhrifin á kjör og afkomu launafólks? Hér er rætt við Þórólf Matthíasson prófessor um íslensku krónuna, Evrópusambandið og evruna – og áhrifin á íslenskan almenning.

Þórólfur segir að það fyrsta sem fólk fyndi fyrir væri líklega það að fólk notaði sömu mynt heima hjá sér og víða í Evrópu. Í þeim löndum Evrópu sem ekki hafa tekið upp evru eru hlutir oft verðmerktir bæði í gjaldmiðli viðkomandi lands og evru. Þetta hefði því væntanlega góð áhrif á verðskyn fólks utan landsteina.
Hvað með mikilvæga þætti sem hafa áhrif á kjör og afkomu, eins og áhrif á lánamarkað, vaxtastig og húsnæðismarkaðinn? Mundi upptaka evru til dæmis hjálpa okkur við að taka lán í erlendum bönkum? Yrði meiri samkeppni í bankakerfinu?
– Þá erum við farin að spekúlera meira. Umræða um vaxtastig og vaxtamun á Íslandi er reyndar stundum dálítið skringileg og menn bera saman skrýtna hluti og tala í kross. Staðreyndin er sú að bankarnir á Íslandi eru í mikilli samkeppni á heildsölumarkaði, þar sem þeir eru í útrás erlendis. Hérna innanlands eru þeir í þægilegri stöðu. Það hefur enginn erlendur banki komið hingað og reynt að bjóða þjónustu sína á Íslandi fyrir almenna lántakendur og almenna sparifjáreigendur. Það er líklegt að þetta breyttist við upptöku evru. Að minnsta kosti gæti almennur lántakandi eða sparandi átt möguleika á að eiga viðskipti við banka í útlöndum, en það er líklegt að bankinn setti álag á slík viðskipti við einstaklinga. Nú erum við með 4–5% raunvexti á húsnæðislánum. Ef það lækkaði eitthvað þá lækkaði vaxtakostnaður þeirra sem gætu skipt um lán. Það hefði líka þau áhrif að húsnæðisverð hækkaði, einkum þar sem eftirspurn er mikil. Þeir sem eiga húsnæði gætu því hagnast eitthvað, en þeir sem væru að koma inn á markaðinn borguðu nokkurn veginn það sama og áður. Afborgunin væri hærri og vextirnir lægri. Fólki hlyti að líða betur með það, þótt greiðslubyrðin væri svipuð.

Verðtryggingin úr sögunni

En hvað með verðtrygginguna ef við tækjum upp evru?
– Verðtryggingin hyrfi. Það er hluti af því sem yrði mjög erfitt í upphafi, þ.e. hvernig ætti að breyta verðtryggðum samningum sem gerðir eru í krónum yfir í evrur. Sennilega yrðu menn að halda áfram að nota íslenskar krónur sem reikningsmynt nokkuð áfram. Á evrusvæðinu var ekki um að ræða verðtryggingu að heitið gæti. Verðtryggðir pappírar væru afbrigðilegir í hinu nýja umhverfi og gætu að einhverju leyti tapað verðgildi sínu. Stórir aðilar eins og lífeyrissjóðir yrðu að setjast niður með ríkisstjórn og Seðlabanka og fara yfir það hvernig tekið yrði á þessum málum gagnvart þeim, þannig að menn yrðu ekki fyrir alvarlegum skakkaföllum vegna breytinganna.
Yrði að fara í sértækar aðgerðir vegna lífeyrissjóðanna?
– Já, það er líklegt að það þyrfti að vera búið að hnýta svona enda áður en farið yrði í breytingu, en þetta er örugglega tæknilega framkvæmanlegt.
Þórólfur segir að ríki skipti um mynt með tvennum hætti. Annaðhvort gera menn það á yfirvegaðan hátt eða þá að myntin hverfur án þess að menn hafi ætlað sér það. Þá verður allt ferlið mun dýrara. Sú staða gæti komið upp að krónan yrði gersamlega ónothæf og það gæti orðið okkur dýrkeypt, ekki síst almenningi.
– Það er því á allan hátt æskilegt, ef menn sjá fyrir sér að krónan eigi sér ekki framtíð, að taka ákvörðun um breytingu á meðan enn er svigrúm og menn geta haft einhverja stjórn á atburðarásinni.
Af hverju fór umræðan um evruna skyndilega af stað?
– Það eru trúlega umsvif bankanna. Það er erfitt að reka fjármálastofnun sem býr við þá miklu gengisáhættu sem við þekkjum með krónuna sem uppgjörseiningu. Sveiflur í gengi, stundum upp á 1–2% á dag, breyta eiginfjárstöðu þeirra þegar hún er reiknuð í erlendri mynt. Það er óþægilegt fyrir banka. Eiginfjárstaðan er það sem litið er á, menn vilja að hún sé stöðug en ekki á sífelldu flökti. Bankarnir hafa verið að reyna að tryggja eiginfjárstöðuna með því að eiga eignir í erlendri mynt. Það er kostnaðarsamt og skiljanlegt að þeir vilji breyta.
Við losnum auðvitað ekki við alla gengisáhættu þó við tökum upp evru, það yrði áfram gengisáhætta gagnvart annarri mynt, svo sem dollara og jeni, en áhættan væri samt umtalsvert minni.
En hverju breyta gengissveiflur gagnvart almenningi?
– Gengissveiflur geta haft veruleg áhrif á verðmæti sparnaðar hjá almenningi. Það verður sífellt algengara að fólk vilji verja einhverjum hluta ævisparnaðarins erlendis. Fólk er það frískt þegar það fer á eftirlaun núna að það sér fyrir sér ævikvöldið víðar en á Íslandi og þá skiptir kaupmáttur sparnaðarins gagnvart erlendri mynt miklu máli. Síðan hefur gengið áhrif á verð á innfluttum vörum og það er bæði dýrt og óþægilegt að það sé á sífelldu flökti.
Hvað þyrfti að breytast til að hægt væri að taka upp evru á Íslandi?
– Það fer dálítið eftir því hvað menn vilja og síðan er spurning um hvort hægt er að halda uppi krónu á umþóttunartímanum. Þegar maður segir útlendingum að við séum þrjú hundruð þúsund og séum með eigið hagkerfi, eigin gjaldmiðil og eigin seðlabanka, þá reka menn upp stór augu, horfa á mann og halda að maður sé að segja brandara. Það er alls ekki gefið að við getum haldið þessu áfram nema með verulegum tilkostnaði og þá er spurning hvort menn vilja halda áfram að borga sívaxandi kostnað við að halda úti krónunni.

Frá fastgengi í verðbólgumarkmið

– Íslendingar eru búnir að hrekjast í gegnum ýmislegt í peningamálastefnunni, segir Þórólfur. – Við byrjuðum með fastgengi eftir verðbólgutímabilið. Þegar það varð nokkurn veginn ljóst að það væri ómögulegt að viðhalda fastgengisstefnunni nema borga verulega háa skatta til einhverra spekúlanta úti í heimi þá var horfið frá þessu og yfir á verðbólgumarkmiðið. Reynsla af verðbólgumarkmiði var ekki fyrir hendi í litlu opnu hagkerfi eins og því íslenska, einungis í stórum hagkerfum eins og Ástralíu, Nýja Sjálandi og Englandi. Okkar reynsla núna er sú að í uppsveiflunni erum við með miklu hærra vaxtastig en aðrar þjóðir. Það gefur spekúlöntum möguleika á að hagnast verulega, bara út af myntfyrirkomulaginu. Við erum því að borga skatt til einhverra útlendinga í formi hærri vaxtagreiðslna en við þyrftum með öðru gengisfyrirkomulagi. Þetta bitnar á endanum á almenningi og litlum fyrirtækjum. Svona endar alltaf hjá neytendum.
Hefur stýrivaxtatæki Seðlabankans þá ekki virkað?
– Jú, það hefur virkað að einhverju leyti, en frekar seint. Það má ekki gleyma því að gengið hefur verið mjög hátt. Menn áttu von á að þetta virkaði öðruvísi en það gerði. Það var búist við því að vextir drægju úr þenslu og virkuðu á fjárfestingu einstaklinga og fyrirtækja en í staðinn fann þetta sér útleið í genginu, meðal annars vegna ásóknar útlendinga í að spara í krónum. Þeir mynduðu eftirspurn eftir íslenskum krónum sem hefur haldið uppi genginu. Aðhaldið hefur því þrengt að útflutningsgreinunum, en ekki að fjárfestingu einstaklinga og fyrirtækja. Út úr þensluskeiðinu fáum við efnahagslíf með allt aðra samsetningu en ef vextirnir hefðu virkað eins og Seðlabankinn ætlaðist til.

Vítahringur hárra vaxta

Þórólfur segir að á sama tíma hafi verið gerð gríðarleg mistök í fjármálum hins opinbera. Menn hafa einblínt á hvort það væri halli eða hagnaður af ríkisreikningnum, en sleppt til dæmis Landsvirkjun út úr þeim útreikningum. Núna sé vandinn orðinn sá að það sé erfitt að sjá hvernig menn ætla að fara út úr þessu hávaxtastigi, því um leið og Seðlabankinn byrjar að lækka vextina má búast við því að áhugi útlendinga á að eiga eignir í krónum minnki. Þá fara þeir að selja og þá hrynur gengið og þá er komin verðbólga. Þá verður Seðlabankinn að hækka vextina aftur út af verðbólgumarkmiðinu. – Ég sé ekki annað en að menn verði hér með mjög hátt vaxtastig – líka í gegnum samdráttarskeið. Þá erum við varanlega farin að borga einhverjum ellilífeyrisþegum í útlöndum háan skatt. Er stoltið sem fylgir því að vera með eigin mynt svo mikið að við viljum gera eldra fólk í Sviss og Japan auðugra en það nú þegar er?
Er þetta fyrst og fremst spurning um stolt og tilfinningar?
– Að einhverju marki er það þannig. Ég fæ ekki séð annað, þótt ég ætli ekki að gera lítið úr því. Það er sama ástæðan og réð því að Danir og Bretar eru ekki með evru. Bretar höfðu ef til vill sterkari ástæður til að vera ekki með, hagsveiflan hjá þeim er í öðrum takti en á meginlandinu, en hjá Dönum er það ekkert annað en stolt, því danska krónan er algerlega föst við evruna. Það líða fimmtán til tuttugu mínútur frá því að evrópski seðlabankinn tilkynnir um vaxtabreytingar þar til danski seðlabankinn gerir það líka.
Hvaða líkur eru þá á því að við tökum upp evru?
– Ég held að við komumst ekki hjá því. Myntsvæðið er heldur að stækka og fyrir tilviljun eða gráglettni örlaganna sitjum við uppi með tiltölulega stóran bankageira og sú staðreynd gerir myntina að meira máli en hún hefði verið ef við hefðum bara verið í framleiðslustarfsemi. Þá hefði hún skipt minna máli. Fyrir þá sem selja skuldabréf og þurfa að flytja á milli myntforma getur lítil breyting á umreikningsgenginu skipt verulegu máli. Það að við erum með þessar hlutfallslega stóru fjármálastofnanir flýtir fyrir ferlinu.

Spurning um samningsstöðu

Þórólfur er þeirrar skoðunar að það væri afleitt að hrekjast í þær aðstæður að við yrðum að taka upp annan gjaldmiðil. Við hefðum mun betri samningsstöðu gagnvart ESB ef við tækjum ákvörðun um að stefna að aðild og taka upp evru.
– Já, það væri miklu betra ef hægt væri að gera þetta meðvitað og taka þann tíma sem þarf. Það er skynsamlegt að ákveða þetta sjálf og hafa góðan aðdraganda. Okkar vandi verður að mörgu leyti meiri en annarra, út af verðtryggingunni. Væntanlega kæmu upp einhvers konar skuldbreytingarmöguleikar og þess háttar, en að búa til slíka samninga tekur langan tíma og er ekki nokkuð sem menn eiga að hrista fram úr erminni. Það þarf að fara fram mjög góð og almenn kynning. Mér finnst ágætt að hugsa umfangið svona svipað og þegar við skiptum yfir í hægri umferð á sínum tíma. Við þurfum að breyta heilmiklu, þótt við þurfum ekki að breyta mannvirkjum. Það þarf að breyta stórum tölvukerfum, þannig að þetta þarf að vinna skipulega þegar búið er að taka ákvörðun. Þetta væri nokkurra ára undirbúningsferli. Síðan má auðvitað ekki gleyma því að til að þetta geti orðið verðum við að ganga í Evrópusambandið.
– Tæknilega er það ekki skilyrði, við erum aðilar að Shengen og slíkt og bent hefur verið á að við gætum notað svipað líkan fyrir evruna, en þá er aftur spurning um ábyrgðir sem útgefandi myntarinnar hefur gagnvart bönkunum. Hver er þrautalánveitandi íslensku bankanna? Núna er það Seðlabankinn. Hann þyrfti að koma sér upp gjaldeyrisvarasjóði ef við tækjum einhliða upp evruna. Sá sjóður þyrfti að vera mjög stór. Gjaldeyrisvarasjóðurinn hérna hefur verið sem svarar nokkurra mánaða inn- og útflutningi og mætti vera stærri. Ég ímynda mér að ef menn ætluðu að geta tekist á við skyndilegan vanda, þá værum við að tala um stærðir sem svara til þjóðarframleiðslunnar eða meira. Þetta yrði kostnaðarsamt þannig að við náum ekki fullum ávinningi nema fara í gegnum pólitíska ferlið líka.
– Það væri auðvitað tæknilega unnt að fara einhverja millileið með sérsamningum eins og hjá Dönum, þar sem evrópski seðlabankinn tekur ábyrgð. Þannig getur danski seðlabankinn haldið genginu á dönsku krónunni stöðugu. Það efast enginn um það að ef danska krónan lendir í vandræðum þá fær hún aðstoð frá evrópska bankanum. Svona samningar eru reyndar gagnkvæmir, en það er trúlega lítið sem Danir gætu gert ef evran lendir í vandræðum. Ég á erfitt með að sjá að evrópski seðlabankinn vildi eða hefði pólitískt umboð til að gera svona samning við Íslendinga nema við værum aðilar að ESB. Auðvitað gæti komið upp alvarleg kreppa í íslensku fjármálalífi og krónan hreinlega hrunið. Þá yrði væntanlega hægt að gera samning um að við tækjum upp evru hratt, þannig að slíkt samkomulag gæti komið á undan samkomulagi um aðild, en með því fororði að aðildarsamkomulag væri í burðarliðnum. Þetta væru hræðilegar aðstæður að lenda í. Við værum ekki í neinni stöðu, værum eiginlega bara að biðja um ölmusu. Ég er ekki að halda því fram að fyrir þessu séu mikil líkindi, en þetta er eitt af því sem gæti komið upp.