Rætt við kaupanda íbúðar sem hefur staðið í fimm ára baráttu til að fá það sem greitt hefur verið fyrir, baráttu sem enn sér ekki fyrir endann á
Á bakvið hvert mál sem kemur til umfjöllunar hjá Neytendasamtökunum, Húseigendafélaginu og dómstólum er oft löng og erfið raunasaga. Það er mikið á einstaklinga og fjölskyldur lagt sem þurfa að leita réttar síns – með misjöfnum árangri. Þá eru ótalin öll þau tilvik þar sem íbúðareigendur taka skaðann á sig og koma aldrei til umfjöllunar eða meðhöndlunar hjá þar til bærum aðilum.
Samiðnarblaðið ræddi við íbúðareiganda sem er búinn að eiga í fimm ára stríði vegna vanefnda húsbyggjanda, og kann að vera langt enn í málalok. Viðkomandi vildi ekki koma fram undir nafni, þar sem það gæti haft neikvæð áhrif á „ímynd“ hússins og þar með endursöluverð, en í húsinu eru um 30 íbúðir.
– Þessi saga hófst fyrir um fimm árum þegar ég keypti íbúð í nýju hverfi í Reykjavík. Málið er enn í gangi og virðist hvergi nærri lokið. Ég var síðast í gær, ásamt nokkrum öðrum íbúðareigendum í húsinu, að skoða reikning sem við fengum vegna lagfæringa sem þurfti að gera í stigagangi, lagfæringa sem þurfti að ráðast í vegna þess að verktakinn skilaði verkinu ekki eins og hann átti að gera. Þetta var svimandi hár reikningur, þannig að þetta heldur áfram.
Fasteignasalan stikkfrí
Af hverjum keyptir þú íbúðina?
– Ég keypti af verktaka, en með milligöngu fasteignasala. Samskiptin við hann voru kapítuli útaf fyrir sig. Ég fékk til dæmis lögfræðing fasteignasölunnar til að koma og skoða íbúðina til að sýna honum um hvað málin snerust. Þeir gerðu alla tíð mjög lítið úr þessu og virðast ekki bera neina ábyrgð. Það finnst mér mjög skrýtið, því þeir fá talsvert fyrir sinn snúð í svona viðskiptum. Fljótlega eftir að ég keypti spurði ég fasteignasalann hvað ég ætti að gera ef það kæmu fram gallar. Það var til dæmis farið að bera á leka meðfram svalahurð. Hann sagði að ég skyldi engar áhyggjur hafa, því ég væri tryggð í fimm ár og vísaði í byggingarstjóraábyrgðina.
Hefur reynt á hana?
– Já, mér sýnist hún bara ekki vera nógu mikil trygging. Það er öll múrhúð að flagna af húsinu og hjá mér lekur í eldhúsi vegna þessa. Við þurftum að fara í málaferli þegar það kom í ljós að þeir ætluðu ekki að gera neitt í þessu. Málaferlin tóku tvö ár. Við fengum út úr því tæpa milljón á íbúð. Það var lögð áhersla á að nota þá peninga til að komast fyrir allan leka. Það kostar miklu meira að gera við það sem hefur farið úrskeiðis og reyndar bara til að klára húsið þannig að hægt sé að taka það út. Það er ekki búið enn. Manni virðist bara allt vera leyfilegt.
Íbúðin er ekki sú sem þú taldir þig kaupa þegar þú færð hana afhenta?
– Nei, það eru komnir fram svo margir gallar. Síðan var ýmsu ólokið. Það var til dæmis ekki búið að ganga frá stigagangi þegar ég flutti inn.
– Þessir menn gera sig gjaldþrota, fá svo bara nýja kennitölu og byrja upp á nýtt. Eigendurnir voru tveir bræður og annar þeirra var byggingarstjóri. Hann virðist laus allra mála hvað okkur varðar og getur enn stundað sín vafasömu viðskipti við aðra.
Alls konar gallar
Hvers konar gallar voru þetta?
– Þakið lak á mörgum stöðum. Gluggar láku – að vísu ekki í minni íbúð en í mörgum öðrum. Þegar var farið að laga þá kom í ljós að allir gluggar í húsinu voru vitlaust settir í. Nú er búið að taka suðurhliðina á húsinu, taka gluggana úr og setja þá aftur í rétt. Ég er ósátt við vinnubrögðin við lagfæringuna, því núna heyrist meira að utan en áður og mér er sagt að það sé útaf því að það séu ekki til tappar í landinu til að setja yfir skrúfugötin. Ég þarf að líma yfir þau til að geta sofið.
– Síðan voru ruslalúgurnar þannig að það þurfti að gera við þær í öllum stigagöngum. Það var ákveðið að beiðni okkar að hafa ekki stokk alla leið upp og þá var sett lúga neðst, beint út í tunnuna, en þá kemur í ljós að það er ólöglegt. Mér finnst að arkitektar og verktakar eigi að vita svona nokkuð. Þeir hljóta líka að þurfa samþykki fyrir svona breytingum og hefðu tæpast fengið leyfi til að útfæra lögbrot.
– Það var fleira að í stigaganginum. Ég var svo heppin að erkfræðingur keypti íbúð í sama stigagangi og ég. Hann benti á að það væri hvergi lofttúða í stigaganginum og það endaði með því að það þurfti að setja loftglugga til að tryggja loftræstingu. Þetta eru allt svona eftiráreddingar, eftir talsverða eftirgangsmuni.
Þú gerir svo upp lokagreiðslu – reyndir þú að ná rétti þínum þá?
– Já, ég kallaði til lögfræðing og taldi til allt það sem ég taldi gallað. Þá var ýmislegt eftir, stigagangurinn og það átti eftir að ljúka ýmsu að utan. Verktakinn lækkaði reikninginn og ég samþykkti tryggingavíxil. Ég vildi ekki láta hann á fyrirtækið, heldur á þá sem einstaklinga. Það var ekki hægt – ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Það var hins vegar full ástæða til að hafa áhyggjur, reynslan sýndi það.
Síðan ákveður húsfélagið að leita til dómstóla. Hvernig bar það að?
– Tryggingafélagið neitaði að borga og við gátum ekki annað. Það kostaði mikið og við sitjum uppi með það, en við áttum engar aðrar leiðir.
Gerir þú þér einhverja grein fyrir þeim skaða sem þú hefur þurft að bera vegna þessa máls?
– Nei. Hver íbúð fékk tæpa milljón út úr dómsmálinu, en það dugar hvergi nærri til að bæta það sem við höfum þurft að láta laga og gera. Síðan veit maður ekkert hvað á eftir að koma upp – þessu er ekkert lokið. Raunar finnst mér eins og þetta sé að byrja aftur, því nú fáum við reikning fyrir því að láta loka lúgunni á ólöglega stokknum og okkur er sagt að hann sé svona hár af því að arkitektinn hafi tekið svo mikið. Arkitektinn er semsagt að rukka háar upphæðir fyrir að laga eigin handvömm. Ég sagðist vilja þennan reikning sundurliðaðan. Ég velti því líka fyrir mér hvernig á því stendur að menn hafa getað gert þessi mistök með stokkinn. Ég hélt að þeir þyrftu samþykktar teikningar og að í því ferli hefði átt að koma fram ef eitthvað væri ekki samkvæmt lögum.
Það vantar skýra ábyrgð
Hvað finnst þér vanta í þetta kerfi?
– Fyrst og fremst að einhver beri ábyrgð. Hver þarf að bera ábyrgð á sínu. Allt frá arkitekt, verktaka, byggingarstjóra og fasteignasala upp í tryggingafélag og bankann sem tekur við þegar fyrirtækið fer á hausinn.
– Það vantar upplýsingar og ráðleggingar. Mér finnst maður vita lítið um hvaða rétt maður hefur. Fasteignasalinn ypptir öxlum og maður áttar sig ekki á því hvað byggingarstjóraábyrgðin þýðir og hver ber ábyrgð á að þrýsta á um úttekt. Hvenær er best að tekið sé út? Ábyrgðin á að gilda í fimm ár eftir úttekt. Síðan er eitt í viðbót. Bankarnir taka oft við húsunum þegar verktakarnir fara á hausinn. Þeir taka við réttinum til að rukka kaupendurna, en þeir virðast ekki taka við neinum skyldum verktakanna. Það var eitt af því sem fasteignasalinn notaði til að fullvissa mig um að allt væri í lagi, semsagt að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur þótt verktakinn færi á hausinn, því það stæði banki á bakvið hann. Það er samt alveg ljóst að bankinn er bara að verja sína hagsmuni, ekki okkar kaupendanna.
Nú eru liðin fimm ár. Finnst þér enn vanta mikið upp á að þú getir sagt við sjálfa þig að þú hafir fengið það sem þú keyptir?
– Já, það vantar mikið upp á það. Það á til dæmis eftir að skipta um gluggana á stórum hluta af húsinu. Gluggarnir á norðurhliðinni eru örugglega allir vitlaust settir í og það á eftir að laga múrhúðina á öllu húsinu.
Með byggingarstjóraábyrgðina í fanginu
– Þegar ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fallast á að tala við þig, þá bar ég það undir fólk í húsinu og stjórnarmenn í húsfélaginu. Ýmsir höfðu áhyggjur af því að það gæti rýrt verðgildi íbúðanna, ef það kæmist slæmt orð á húsið. Ég hef ákveðið að virða þessi sjónarmið, þó svo ég sé sjálf ósammála. Mér finnst skipta máli að fólk fái að vita svona lagað svo það geti varast það og vonandi getur svona frásögn komið af stað einhverri umræðu. Mér finnst líka að ég beri ákveðna ábyrgð. Ef ég ætla að selja, þá þarf ég náttúrulega að leggja allt á borðið. Ég hleyp ekkert frá þessu. Mér finnst ég vera komin með byggingarstjóraábyrgðina í mínar hendur. Ég get ekki hugsað mér að velta þessum vanda bara yfir á einhvern annan. En það tekur örugglega fimm ár í viðbót að klára þetta.