Undirbúningur hafinn að endurnýjun kjarasamninga

Kjarasamningar ASÍ félaga á almennum vinnumarkaði renna út um næstu áramót og er undirbúningur að endurnýjun þeirra hafinn af fullum krafti hjá Samiðn og aðildarfélögum Samiðnar.  Fyrirhuguð er kjaramálaráðstefna á Selfossi dagana 12. og 13. október n.k. þar sem trúnaðarmenn á vinnustöðum og lykilmenn frá félögunum hittast og fara yfir stöðu mála.  Þá hefur formaður Samiðnar, Finnbjörn A. Hermannsson, heimsótt aðildarfélögin og fundað með ýmist stjórnum félaganna eða mætt á almenna félagsfundi og rætt reynsluna af núverandi samningi og það sem helst brennur á mönnum við gerð nýs kjarasamnings. 

Í aðdraganda viðræðnanna og á meðan á viðræðunum stendur verður leitast við að hafa sem öflugast upplýsingaflæði til félagsmanna á vefnum auk þess sem lykilmenn fá aðgang að lokuðu svæði á vefnum þar sem upplýsingum og gögnum er varða kjarasamningsgerðina verður komið á framfæri.