Vel heppnað þing IN í Reykjavík

Samiðn og Starfsgreinasambandið voru gestgjafar fyrsta þings IN (Industriandställda i Norden) sem lauk í Reykjavík um helgina.  Þingið sóttu yfir 70 fulltrúar frá 22 starfsgreinafélögum sem áður mynduðu Norræna málmiðnaðarsambandið og Norræna iðnaðarsambandið.  Auk hinna norrænu gesta sóttu þingið forsvarsmenn evrópusamtaka starfsfólks í málmiðnaði, efna- og orkuiðnaði, EMF, EMCEF og forystumenn alþjóðasamtaka verkafólks í sömu greinum auk fataiðnaðar, þ.e. IMF, ICEM og ITGLWF.

Á þingingu var m.a. farið yfir framkvæmdaráætlun sambandsins fyrir árin 2008-2009. Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að finna sameiginlega stefnu norrænu sambandanna í mikilvægum málaflokkum eins og atvinnumálum, vinnuumhverfismálum, fræðslumálum, iðnaðar- og orkumálum og alþjóðamálum.

Norrænt samstarf er mikilvægt og sameinuð rödd þessara landa getur haft mikil áhrif á hvaða ákvarðanir verða teknar í Evrópu og á alþjóðavísu.

Í framkvæmdaráætluninni kemur fram að verkalýðshreyfingin skuli taka hnattræna ábyrgð m.a. með sameiginlegum kjarasamningum og aðstoð við erlent vinnuafl gagnvart félagslegum undirboðum. Einnig kemur þar fram mikilvægi þess að leggja meiri áherslu á vinnuumhverfismál, fræðslumál sem og upplýsingar og samráð innan staðbundinna fyrirtækja og alþjóðlegra í fyrirtækja.

Í orkumálum var lögð áhersla á að spara orku, bæði í fyrirtækjum og á heimilum. Þetta er atriði sem Íslendingum hefur ekki þótt koma sér mikið við en í nýjustu fréttum hér innanlands varðandi breytingar á skipulagi hvað viðkemur vatnsfallsvirkjun í Þjórsá virðist margt benda til þess að við þurfum kannski að huga betur að þessum málaflokki hér innanlands. 

Það kom greinilega í ljós á þinginu að það er af mörgum stórum og erfiðum málaflokkum að taka og þetta þing var eitt skref af mörgum í átt að betra samfélagi fyrir allt vinnandi fólk í Evrópu, en norrænu aðildarfélögin njóta virðingar í evrópsku samhengi og norræna módelið er mörgum hvatning.

Á þinginu var einnig fjallað um framtíðarsýn evrópu- og alþjóasamtakanna á tímum hnattvæðingar viðskipta og hvers konar iðnaðar.