Fyrsta þing Norræns sambands starfsfólks í iðnaði haldið í Reykjavík

Fyrsta þing Norræns sambands starfsfólks í iðnaði (IN – Industrianställda i Norden) verður haldið á Hótel Sögu í Reykjavík dagana 15. og 16. júní.  IN var stofnað fyrir um hálfu ári síðan við samruna Norræna málmiðnaðarsambandsins og Norræna iðnaðarsambandsins og eru fulltrúar Íslands í stjórn sambandsins þeir Hilmar Harðarson frá Samiðn og Skúli Thoroddsen frá Starfsgreinasambandinu. 

Helstu áherslur þingsins eru á framtíðarsýn hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar i hnattrænu efnahagskerfi og möguleikar á samþættingu þróunar og vaxtar stóðiðju og uppbyggingu málmiðnaðar við ríkjandi stefnu í umhverfismálum. Einnig verður fjallað um hina sameiginlegu grunnkjarasamninga sem IN vinnur nú í að koma á laggirnar fyrir allt starfsfólk í málmiðnaði í Evrópu.

Meðal þátttakenda á þinginu verða forystumenn frá alþjóðasamtökum verkafólks í málmiðnaði, efna- og orkuiðnaði og textíliðnaði.  Formaður IN er Kjell Björndalen frá Noregi og framkvæmdastjóri er Jyrki Raina frá FInnlandi.