Þvegið, klippt og litað í óða önn á Onix

Það var ys og þys á hársnyrtistofunni Onix á horni Laugavegar og Snorrabrautar fyrir skemmstu þegar blaðamaður Samiðnarblaðsins leit inn til að kanna hvernig stemningin væri hjá hársnyrtifólki um þessar mundir. Nóg var að gera, börn, ungt fólk og mömmur voru þarna í þeim tilgangi að láta snyrta hár sitt fyrir páskana.

 
– Við erum hér átta, sex útlærð og tveir nemar, segir Þuríður Halldórsdóttir eigandi Onix. Hún hefur starfað í faginu í þrettán og hálft ár og segir það eiga vel við sig. Hún segir ganga vel að reka hársnyrtistofu á þessu umferðarhorni.
– Það er alltaf slæðingur af fólki sem kemur hingað inn af götunni, þó að flestir viðskiptavinirnir séu fastagestir. Fólk kemur úr öllum hverfum borgarinnar til þess að láta snyrta hár sitt hér. Það er svo merkilegt, sem betur fer, að við erum mjög íhaldssöm þegar kemur að því hverjum við hleypum í hárið á okkur, segir Þuríður.
Aðspurð hvernig þær stöllur á Onix haldi sér við í faginu segir hún þær vera duglegar að fara á námskeið.
– Við sækjum námskeið á hverju ári. Oft námskeið sem hársnyrtivöruframleiðendur standa fyrir, en einnig er það þannig að fjölmargir einstaklingar sem hafa náð langt í faginu halda úti námskeiðum. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast vel með – hártískan er í stöðugri þróun og það þýðir ekkert að hunsa hana ef maður ætlar að standa sig, segir Þuríður.
Undir þetta tekur Agnes Björk Elfar sem hefur starfað á Onix í hálft ár. Við verðum að fylgjast vel með því sem er að gerast í hártískunni því annaars missum við kúnna. Þótt viðskiptavinirnir viti yfirleitt hvað þeir vilja er það hlutverk okkar að útfæra þær hugmyndir og tengja þær því nýjasta sem er að gerast í hárgreiðslu, til dæmis fyrir árshátíð eða fermingu.
 
Álagið rennur út í eitt
 
Þær stöllur segja að álagið á hársnyrtistofunum sé farið að renna út í eitt. Það er auðvitað alltaf mikið að gera fyrir jól, en svo koma árshátíðir og síðan fermingar, og páskarnir eru líka farnir að vera hársnyrtitími hjá mörgum, segja þær.
Eva Bergmann er ein af þeim sem um árabil hefur sinnt hársnyrtingu landans. Hún kýs að vera á prósentum, eins og það er kallað, fær borgað fyrir þá viðskiptavini sem hún sinnir.
– Það fylgja þessu bæði kostir og gallar. Ég ber sjálf ábyrgð á því að eiga fyrir sumarfríi og eins ef ég veikist, þá er það minn vandi og ekki atvinnurekandans. Hins vegar get ég mætt þegar mér hentar og hætt þegar ég vil, segir Eva sem er sátt við starfið, segir það henta sér vel.
– Það er helst hægt að kvarta yfir því hvað við þurfum að standa vaktir lengi og oft í viku. Ég er hér að jafnaði sex daga vikunnar, það er nauðsynlegt ef maður ætlar að hafa sæmilegt upp úr þessu, segir Eva. Hún segir verðlagningu á hársnyrtingu hér á landi langt fyrir neðan það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar.
 
Ódýrasta iðnaðarmannastéttin
 
– Það staðfestir fjöldinn allur af Íslendingum sem býr erlendis. Þeir bregða sér oft í ódýra hársnyrtingu á meðan þeir eru í heimsókn hér. Undir þetta taka líka ferðamenn sem hingað leita, þeir tala um ódýra þjónustu. Hársnyrtisveinar eru án vafa ódýrasta iðnaðarmannastéttin hér á landi, segir Eva.
Agnes Björk tekur undir með Evu þegar talið berst að laununum og segir nauðsynlegt að vinna sex daga vikunnar til þess að endar nái saman. Sjálf segir hún að leikskólar barnanna ráði vinnutíma sínum því hún hafi ekki leikskólapláss lengur en til þrjú á daginn. – Ég vinn frá níu til þrjú og mæti svo líka á laugardögum. Auðvitað vildi ég eiga val um að sleppa laugardagsvinnunni en það er ekki hægt á meðan ég fæ ekki betra tilboð um leikskólapláss, segir hún.
– Það má segja að ég hafi frá því ég man eftir mér ætlað að læra hársnyrtingu. Frænka mín ein starfar í faginu og ég ætlaði strax að verða eins og hún, segir Halla María Þórðardóttir nemi þar sem hún er í óða önn að breyta ljósu hár ungrar dömu í dökkt.
– Ég á einn bekk eftir í Iðnskólanum og fer í hann eftir áramót, segir Halla sem er sátt við vinnustaðinn. Hún segist hafa byrjað námið á annarri stofu en sé nú komin á samning á Onix. Starfið sé skemmtilegra en hún hafi átti von á.
– Hér kynnist maður mörgum. Þetta er lifandi starf og alltaf eitthvað nýtt að gerast, segir Halla. – Vinnudagurinn er í lengra lagi en að honum loknum fer ég beint upp í hesthús að sinna hrossunum mínum.