Staða kaupenda oft erfið

segir Íris Ösp Ingjaldsdóttir, lögfræðingur og yfirmaður Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna

 
 
Íris Ösp Ingjaldsdóttir hjá Neytendasamtökunum segir alltaf eitthvað um kvartanir vegna galla á nýju húsnæði. Oftast sé um að ræða galla sem tengjast því að ekki sé búið að ganga frá íbúðum og sameignum að fullu leyti. Ekki sé alltaf um að ræða stór mál, stundum skortir eitthvað á lóðafrágang eða frágang innan dyra. Fólk ætlist hins vegar að sjálfsögðu til þess að hlutirnir séu í lagi þegar það kaupir eitthvað alveg nýtt og hefur varið til þess öllum sparnaði sínum og stórum hluta framtíðarteknanna að auki. En hvað gerir fólk þegar svona nokkuð kemur upp á?
 
– Þegar þetta gerist hefur fólk oft samband við okkur. Í sumum tilvikum er það búið að hafa samband við verktakann áður og í öðrum tilvikum vill það fá upplýsingar um rétt sinn áður en það gerir kröfu á verktakann. Þetta eru allskonar mál. Það lekur með gluggum, það geta verið hallandi veggir, skolplögn illa frágengin.
Hefurðu á tilfinningunni að þetta sé tengt sömu aðilunum?
– Við fáum náttúrlega ekki kvartanir þegar allt er í lagi og almennt eru þessar kvartanir ekki það margar að ég treysti mér til að halda því fram að þetta sé meira hjá sumum en öðrum, sem þo getur vel verið og er raunar líklegt. Stundum hringir fólk og segir: „Þetta er ekki bara hjá mér, það eru allir í blokkinni óánægðir!“, þótt það sé samt bara einn sem hefur samband.
 
Spennan í þjóðfélaginu ýtir undir
 
Íris segir ástandið í þjóðfélaginu vafalítið ýta undir að svona mál komi upp. Margir verktakar hafa tekið að sér meira en þeir ráða við. Óendanlega mörg verkefni bíða og þá virðist tilhneigingin sú að menn rjúki í næsta verkefni án þess að ljúka alveg við það síðasta.
Hvað geta Neytendasamtökin gert fyrir fólk í þessari stöðu?
– Það sem við gerum er að ráðleggja fólki og í sumum tilvikum tökum við að okkur að skrifa bréf til að reyna að leysa málin. Ef um mjög mikla fjárhagslega hagsmuni er að ræða, þá ráðleggjum við fólki yfirleitt að leita til lögmanns.
– Það getur verið mjög misjafnt hvaða möguleika fólk hefur til að ná fram rétti sínum. Í sumum tilvikum á það eftir að greiða lokagreiðslu og hefur þá möguleika á að halda einhverju eftir á eigin áhættu telji það að verktaki hafi hlunnfarið sig. Í því tilviki er mikilvægt að hafa í huga að það má ekki halda eftir meiru en sem svarar kostnaði við að gera við það sem ekki er í lagi. Ef kaupandinn heldur meiru eftir er sennilegt að hann þurfi að greiða dráttarvexti af því sem er umfram raunverulegan kostnað. Þess vegna er oft nauðsynlegt að fá fagmann til að skoða gallann, bæði til að finna út hverjar séu hugsanlegar orsakir og hvað það gæti kostað að lagfæra. Það er hins vegar rétt að hafa í huga að ef málið heldur áfram og fer fyrir dómstóla, þá hefur mat sem kaupandinn hefur fengið einhliða hjá fagmanni lítið sem ekkert gildi, heldur þarf yfirleitt að kalla til dómskvadda matsmenn.
 
Algengt að lokaúttekt dragist
 
Ef málið kemur upp eftir að búið er að greiða allt þá getur að sögn Írisar reynst erfiðara að ná fram rétti sínum. Þó sé til dæmis möguleiki að gera kröfu í byggingarstjóratryggingu, í allt að fimm ár frá lokaúttekt. Stundum fer lokaúttekt ekki fram fyrr en löngu síðar og þá megi líta svo á að verið sé að framlengja þessa tryggingu eða viðhalda henni. Stundum er það af því að verktakinn er að slugsa við að ljúka einhverju sem þarf að vera búið til að fá lokaúttekt.
Hvernig upplifið þið almennt lagarammann og réttarstöðu íbúðarkaupenda?
– Lagaramminn er nokkuð skýr og kaupendur nýbygginga eiga töluverðan rétt samkvæmt lögum þegar upp kemur galli. Hins vegar er staða kaupenda oft erfið í þessum málum þar sem fyrirtækin hafa mun sterkari stöðu að ýmsu leyti, ekki síst fjárhagslega. Þessi mál varða oft mikla hagsmuni og tilfinningar, því fólk er að setja mikinn hluta af tekjum sínum og eignum í framtíðarhúsnæði sem það vill auðvitað að sé fullkomið.