Ný lög um erlenda starfsmenn og um starfsmannaleigur

Aukin ábyrgð lögð á herðar notendafyrirtækjum

 
Alþingi samþykkti rétt fyrir þinglok ný lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og um starfskjör þeirra. Jafnframt voru gerðar breytingar á lögum um starfsmannaleigur.
– Við fögnum setningu þessara laga og teljum þau tímamót, segir Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður Samiðnar, sem undanfarin ár hefur beitt sér mjög í málefnum erlendra starfsmanna. – Þau eiga að auðvelda okkur baráttuna fyrir því að tryggja erlendum starfsmönnum sem hingað koma sambærileg kjör og íslenskir starfsmenn hafa. Með setningu þessara laga er stigið fyrsta skrefið í að lögfesta ábyrgð þeirra sem kaupa þjónustuna, þ.e. notendafyrirtækjanna. Þó að skrefið sé ekki stórt er það mikilvægt, ekki síst þegar lögin og þeir dómar sem fallið hafa síðustu mánuði eru skoðuð saman. Það hefur verið álit Samiðnar allt frá 2003 að forsenda þess að ná utan um málefni erlendra starfsmanna væri að notendafyrirtækin beri skýra ábyrgð á því að farið sé að lögum og kjarasamningum. Samkvæmt lögunum ber notendafyrirtækjunum að fylgjast með að þjónustufyrirtækin hafi sinnt tilkynningaskyldu sinni til stjórnvalda áður en viðskiptin eiga sér stað. Einnig ber notendafyrirtækinu að upplýsa trúnaðarmann starfsmanna um hvort fyrir liggur staðfesting á að þjónustufyrirtækið hafi sinnt tilkynningaskyldunni, segir Þorbjörn og fagnar sérstaklega þessu ákvæði, en hann átti sæti í nefndinni sem samdi frumvarpið.
– Ef notendafyrirtæki er staðið að því að hefja viðskipti við þjónustufyrirtæki án þess að fyrir liggi formleg staðfesting um að það hafi tilkynnt sig með réttum hætti má beita notendafyrirtækið sektum og einnig getur komið lokunar. Þorbjörn segir að þessi nýju lög og þær breytingar sem gerðar voru á eldri lögum, meðal annars nýlegum lögum um starfsmannaleigur, séu mikið framfaraspor og vonar hann að með þessari lagasetningu hafi verið eytt lagalegri óvissu sem áður ríkti um starfmannaleigur og eftirlit með þeim.
– Samiðn var mjög ósátt við það hvernig staðið var að þeirri lagasetningu og nú hefur verið komið að nokkru leyti á móts við í þeim atriðum sem við gagnrýndum sem mest. Við erum allavega komin með lagaumhverfi sem gerir okkur kleift að fylgjast betur með því sem er að gerast á markaðnum. Nú er skýrt kveðið á um tilkynningaskyldu bæði innlendra og erlendra starfmannleigna sem hyggjast leigja hér út starfskraft, segir Þorbjörn og bendir á að nú reyni verulega á Vinnumálastofnun sem gegnir lykilhlutverki við eftirlit með framkvæmd laganna. Árangurinn fari að miklu leyti eftir því hvernig til tekst með eftirlit og upplýsingastreymi til fyrirtækja.
– Nú reynir á hvort opinberir eftirlitsaðilar eru í stakk búnir að sinna því hlutverki sem lögin gera ráð fyrir. Nú er til staðar mun rýmri heimild til markviss eftirlits með starfsemi þjónustufyrirtækja og starfamannaleigna, erlendra sem innlendra, og með nýju lögunum er kveðið á um ýmis úrræði sem stjórnvöld geta beitt ef lögin eru brotin. Samkvæmt þeim er hægt að stöðva rekstur fyrirtækja sem fara á svig við lögin eða beita þau sektum. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa þessa heimild. Menn hafa komist upp með ýmislegt vafasamt hér á landi í skjóli óljóss lagaumhverfis en nú hefur verið bætt úr því að nokkru leyti, segir Þorbjörn og bendir á að í þessum lögum sé meðal annars kveðið á um að Vinnumálastofnun miðli upplýsingum til trúnaðarmanna verkalýðsfélaganna.
Aðspurður um önnur nýmæli í þessum lögum segir Þorbjörn að þar sé meðal annars að finna ákvæði um veikindarétt og slysatryggingar erlendra starfsmanna.
Samkvæmt þessum nýju lögum njóta erlendir starfsmenn sambærilegra slysatrygginga og veikindaréttar og innlendir starfsmenn. Þetta er nýmæli sem ber að fagna, segir Þorbjörn, sem leggur áherslu á að áfram sé nauðsynlegt fyrir verkalýðshreyfinguna að fylgjast vel með því sem er að gerast á vinnumarkaðnum og tryggja að þessum nýju lögum verði fylgt eftir.