Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að iðn- og starfsmenntuðum einstaklingum með frumgreinapróf frá Háskólaum í Reykjavík vegni betur í tækni- og verkfræðinámi við sama skóla en nemendum með stúdentspróf. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn við skólann.
Rannsóknin var gerð sumarið 2006. Tilgangur hennar var að gera samanburð á gengi iðnlærðra nemenda með frumgreinapróf og nemenda með stúdentspróf sem stunduðu nám í tæknifræði og verkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Markmiðið var að beina sjónum að mikilvægi iðnmenntunar í námi í tæknifræði og verkfræði.
Þátttakendur í könnuninni voru valdir úr gögnum nemendabókhalds Háskólans í Reykjavík. Þátttakendum var skipt upp í tvo hópa, annars vegar iðn- og starfsmenntaða einstaklinga með frumgreinapróf og hins vegar einstaklinga með stúdentspróf.
Spurt var um gildi iðn- og starfsnáms og starfsreynslu fyrir nám í tækni- og verkfræði en einnig var athugað hvernig einstakar greinar úr framhaldsskóla eða á frumgreinasviði hefðu nýst í námi við Tækni- og verkfræðideild HR. Að lokum voru þátttakendur spurðir að því hvað þeim hefði þótt auðveldast og erfiðast við að hefja háskólanám.
Verklega þjálfunin kom sér vel
Iðnmenntaðir nemendur með frumgreinapróf telja að iðnnámið hafi nýst vel í námi í tæknifræði og verkfræði. Þetta má sjá af því að þegar iðnlærðir voru beðnir um að taka afstöðu til fullyrðingarinnar: „Það skiptir máli fyrir nám í tæknifræði og verkfræði að vera iðnlærður“ var mikill meirihluti (85%) mjög sammála eða sammála.
Einnig benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að viðhorf iðnmenntaðra nemenda til verklegu þjálfunarinnar sem þeir fengu í iðnnáminu sé jákvætt. Þannig má sjá að mikill meirihluti (81%) nemenda í hópi iðnlærðra voru sammála fullyrðingunni um að sú verklega þjálfun sem þeir fengu í iðnnáminu hefði nýst þeim vel í náminu í tækni- og verkfræði.
Iðnmenntaðir nemendur með frumgreinapróf töldu almennt að starfsreynsla hefði nýst þeim betur en nemendur með stúdentspróf.
Iðnmenntaðir nemendur með frumgreinapróf telja einnig að fyrra tungumálanám hafi nýst sér betur en nemendur með stúdentspróf. Marktækur munur milli hópa kom fram þegar spurt var um þýsku og íslensku en viðhorf til ensku var hins vegar mjög svipað hjá báðum hópum. Af þeim tungumálum sem spurt var um töldu flestir, eða rúmlega níu af hverjum tíu, að enska hefði nýst mjög vel eða vel.
Þegar skoðuð voru viðhorf nemenda til þess hvernig raungreinanám þeirra á frumgreinasviði eða í framhaldsskóla hefði nýst í tækni- og verkfræðináminu kom einnig í ljós að nemendur með frumgreinapróf voru líklegri til að svara því til að námið hefði nýst vel en nemendur með stúdentspróf. Marktækur munur milli hópa kom fram á viðhorfum til efnafræði og stærðfræði en viðhorf til náms í eðlisfræði var svipað milli hópanna tveggja.
Þegar nemendur í þessum tveimur hópum voru spurðir að því hvernig námið í heild (á frumgreinasviði eða í framhaldsskóla) hefði nýst þeim í tækni- og verkfræði, kom fram marktækur munur á svörum hópanna. Nánast allir nemendur með frumgreinapróf (98%) svöruðu því til að námið hefði nýst mjög vel eða vel samanborið við 75% nemenda með stúdentspróf.
Þegar nemendur voru spurðir hvað þátttakendum hefði þótt erfiðast við að byrja í náminu í tækni- og verkfræði og hvað hefði verið auðveldast kom meðal annars fram að iðnlærðir töldu tekjumissi hafa verið erfiðan.
Helstu niðurstöður viðtalanna voru þær að allir viðmælendur voru á því að iðnnámið hefði nýst þeim í núverandi háskólanámi og auðveldað þeim ýmsa þætti námsins og þá helst þegar kemur að skilningi á því sem þeir eru að gera. Iðn- og starfsnámið gefi þeim ákveðið forskot þar sem þeir þurfi ekki að eyða tíma í að athuga hvernig hlutir séu vanalega gerðir og hvað sé mögulegt og lendi því síður í þeirri aðstöðu að gera hluti sem ekki eru framkvæmanlegir. Hagnýt þekking þeirra í „verklegum“ hluta námsins er meiri.
Könnunina unnu þær Þórdís Ása Þórisdóttir, Guðbjörg Daníelsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir og Málfríður Þórarinsdóttir.