Sveinsprófslausir smiðir fá tækifæri til að klára námið
– Það má rekja upphaf þessa máls til þess þegar Trésmiðafélag Reykjavíkur réðst ásamt fleiri stéttarfélögum í að kanna ástandið á vinnumarkaði. Ætlunin var fyrst og fremst að kanna réttindi hinna fjölmörgu erlendu starfsmanna sem voru við störf í byggingariðnaði hér á höfuðborgarsvæðinu. Það kom hins vegar í ljós í þessari könnun að fjölmargir Íslendingar voru að vinna við smíðar án þess að hafa til þess tilskilin réttindi, segir Hafsteinn Eggertsson fræðslufulltrúi hjá Iðunni – fræðslusetri, en þar á bæ hafa menn nú sett í gang verkefni sem miðar að því að ná til hinna fjölmörgu sem eitt sinn hófu nám í húsasmíði en luku því aldrei af ýmsum ástæðum.
– Það kom okkur þægilega á óvart hvað margir þessara manna hafa sýnt þessu verkefni áhuga. Við stóðum fyrir kynningarfundi í lok febrúar og þar var eiginlega fullt út úr dyrum. Það mættu ríflega sjötíu á þennan fund. Eftir að trésmiðir fóru fyrir alvöru að koma hingað erlendis frá skynja menn það að þeir sem ekki hafa sveinspróf eru í meiri hættu á að missa störf sín en þeir sem hafa réttindi. Ég held að þetta sé aðalástæðan fyrir því að menn vilja nú ljúka sínu námi.
Í áðurnefndri könnun kom í ljós að fjölmargir hafa lokið iðnskólanáminu en eiga eftir sveinsprófið. Aðrir eiga eftir hluta af bóklega náminu.
– Mál hvers og eins verður skoðað sérstaklega, og reynt að sníða námið eftir þeirra þörfum. Allir þurfa að ganga í gegnum stöðumat þar sem metið verður hversu miklu þeir þurfa að bæta við sig í verklega þættinum til að fá að fara í sveinspróf, segir Hafsteinn. Hann segir Iðnskólann í Reykjavík taka þátt í þessu ástaksverkefni og sé gert ráð fyrir því að þeir sem eiga eftir hluta bóknámsins geti sótt námið þar.
Allt skipulag gengur út á að menn geti áfram stundað sína vinnu en bæti þessu á sig að loknum vinnudegi, segir Hafsteinn og segir aðspurður að ekki sé gert ráð fyrir miklum útlátum við þetta fyrir einstaklinginn því hluti kostnaðarins sé greiddur úr starfsmenntasjóði sem komið var á laggirnar við gerð síðustu kjarasamninga.