Vaxandi umræða hefur verið í þjóðfélaginu um afkomu öryrkja og eldri borgara. Umræðan hefur snúist fyrst og fremst um aðbúnað þeirra og afkomu. Á undangengnum áratugum höfum við verið að byggja upp lífeyrissjóðakerfi sem hefur að meginmarkmiði að tryggja fólki góð eftirlaun. Þegar almennu lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir í lok sjöunda áratugarins var hugsunin að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum kæmi til viðbótar lífeyri frá almannatryggingum. Hins vegar hefur þróunin orðið sú að ríkið hefur með markvissum hætti dregið úr grunnlífeyri og lagt í staðinn áherslu á tekjutengdan lífeyri. Hækkandi lífeyrir frá lífeyrissjóðunum hefur ekki bætt efnahagslega afkomu lífeyrisþega í þeim mæli sem vænta mátti samkvæmt upphaflegum markmiðum. Ástæðurnar eru lækkandi grunnlífeyrir og mjög brattar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu, sem vinna gegn upphaflegum tilgangi lífeyrissjóðanna og festa fjölda fólks í fátæktargildru þar sem það getur sig hvergi hreyft. Þessu þarf að breyta og tryggja að fólk geti notið ævisparnaðar síns og skapað sér góða efnahagslega afkomu þegar starfstíma þess lýkur á vinnumarkaði.
Í nýlegri könnun um hagi og viðhorf eldri borgara kemur fram að meðal-ráðstöfunartekjur fólks á aldrinum 67 til 80 ára eru 113.700 kr. á mánuði. Um 40% af hópnum er með tekjur á bilinu 81 til 110 þúsund kr. á mánuði. Einnig voru eldri borgarar spurðir hverjar þeir teldu að ráðstöfunartekjurnar þyrftu að vera. Tæp 40% töldu að þær þyrftu að vera allt að 154 þúsundum króna og um 30% allt að 200 þúsundum króna. Þegar eldri borgarar eru spurðir hvort þeir hafi áhuga á að vera í launuðu starfi samhliða því að taka eftirlaun sögðu tæplega 30% já, en telja að stærsta hindrunin sé tekjutenging lífeyris frá almannatryggingum. Þegar atvinnuþátttaka er skoðuð kemur í ljós að tæp 14% eru í launuðu starfi en voru 26% fyrir átta árum, 1999. Verulega hefur dregið úr atvinnuþátttökunni á þessu tímabili þrátt fyrir mikinn skort á vinnuafli og er meginástæða þess brattar tekjutengingar almannatryggingakerfisins. Fólk sér ekki tilgang með atvinnuþátttöku þegar hún skilar ekki fjárhagslegum ávinningi.
Það tvennt sem rétt er að staldra við og skoða. Í fyrsta lagi eru ráðstöfunartekjur eldri borgara alltof lágar og í miklu ósamræmi við væntingar þeirra. Í öðru lagi koma tekjutengingarnar í veg fyrir að þeir bæti fjárhagstöðu sína með sparnaði og atvinnuþátttöku.
Það er orðið mjög brýnt að endurskoða samspil almannatrygginga, lífeyrissjóða og atvinnuþátttöku eldri borgara. Það þarf að tryggja mun betur en þekkist í núverandi kerfi að fólk hafi skýran ávinning af því að greiða í lífeyrissjóð og atvinnuþátttaka á ekki að skerða rétt fólks til eftirlauna. Það þarf að nást samstaða um að hækka verulega ótekjutengdan grunnlífeyri almannatrygginga og miðað við væntingar eldri borgara þyrfti hann að hækka all-verulega. Vel mætti hugsa sér að tekjutengingar tækju mið af fyrri tekjum upp að ákveðnu hámarki. Réttur til grunnlífeyris á að vera almennur réttur sem allir þegnar landsins ávinna sér með því að eldast. Bótakerfið þarf að hvetja til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Verði ekki gerðar verulegar breytingar á núverandi kerfi hlýtur núverandi ástand að vinna gegn lífeyrissjóðakerfinu þrátt fyrir augljósa kosti þess að viðhalda því og halda áfram að þroska það og styrkja. Fólk mun í auknum mæli fara að krefjast þess að ráðstafa iðgjaldi sínu sjálft en vera ekki þvingað til að greiða í samtryggingarsjóði. Ávinningurinn af því að leggja í ævilangan sparnað verður að vera skýr og slíkur sparnaður má ekki koma í veg fyrir að eldri borgarar geti bætt fjárhagslega stöðu sína með því að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði.