Ályktanir 5. þings Samiðnar 2007

Ályktun um kjaramál

Fimmta þing Samiðnar lýsir miklum vonbrigðum með mikla verðbólgu og óstöðugleika í íslensku efnahagslífi sem hefur einkennt allt samningstímabil núgildandi kjarasamninga. Markmiðið með löngum samningstíma var m.a. annars að skapa forsendur fyrir vaxandi kaupmætti,  meiri festu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi m.a til að vinna gegn þenslu sem fyrirsjáanleg var í tengslum við stóriðjuframkvæmdir. En til þess að skapa og viðhalda stöðugleika er ekki nóg að semja til langs tíma   allir þættir efnahagsstjórnarinnar verða að spila með en mikið hefur vantað upp á það undangengin ár.

Mikil verðbólga hefur étið upp nær allar umsamdar launahækkanir á samningstímanum og valdið auknum ójöfnuði milli þeirra sem eru bundnir af umsömdum launatöxtum og þeirra sem taka laun óháð þeim.
 
Í þeim kjarasamningum sem framundan eru, er mikilvægt að þeir verði nýttir til að jafna bilið milli þeirra sem setið hafa eftir á almennum launatöxtum og þeirra sem notið hafa mikils launaskriðs.  Færa þarf launataxta að greiddum launum þannig að þeir endurspegli launaþróunina í landinu.  Einnig verður að nást samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir til að vinna gegn auknum ójöfnuði sem  endurspeglast þessa dagana í ofurstarfsloka- og kaupréttarsamningum.
 
Til þess að vinna gegn auknum ójöfnuði og fátækt þarf að verða almenn sátt um að endurskoða samspil launatekna, bóta almannatrygginga og lífeyrisjóða. Samiðn leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum náist víðtæk samstaða milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda um uppstokkun á velferðakerfinu þ.á.m. almannatryggingakerfinu og tekjutengingum. 
 
Einnig er mikilvægt að sátt takist um nýtt fyrirkomulag í  húsnæðismálum, sérstaklega gagnvart þeim sem veikast standa í samfélaginu og ekki síst ungu fólki sem er að kaupa sér íbúð í fyrsta sinn.
 
Þingið lýsir yfir miklum vonbrigðum með hvað hægt hefur gengið með að jafna launamun kynjanna. Til þess að vinna gegn kynbundnum launamun er mikilvægt að launaleynd verði afnumin  og launagreiðslur gerðar gegnsærri.
 
Þing Samiðnar leggur áherslu á að mikilvægasta verkefni næstu framtíðar er að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi og vinda ofan af ójöfnuði í samfélaginu sem fer vaxandi. Þingið lýsir vilja til samstarfs við alla þá aðila sem vilja koma að slíku starfi.
 


Ályktun um velferðarmál

Fimmta þing Samiðnar leggur áherslu á þau grunngildi verkalýðshreyfingarinnar að öllum séu sköpuð jöfn tækifæri án tillits til efnahags, kyns, kynþáttar og trúar. Til að ná þessu markmiði hefur verkalýðshreyfingin m.a. barist fyrir uppbyggingu velferðarkerfisins og lagt áherslu á að það sé nýtt til að jafna stöðu fólks. Það eru því mikil vonbrigði að þrátt fyrir að þjóðin hafi gengið í gegnum eitt mest hagvaxtarskeið í sögu lýðveldisins, skuli ójöfnuður fara vaxandi á sama tíma. 
 
Samiðn kallar á samstöðu verkalýðshreyfingarinnar til nýrrar sóknar og uppbyggingar í velferðarkerfinu með það að markmiði að hér á landi búi allir við jöfn tækifæri og að fátækt verði útrýmt. Til að ná þessu markmiði þarf að hækka bætur, afnema tekjutengingar, beita skattkerfinu markvissara til tekjujöfnunar og tryggja fjármuni til reksturs velferðarkerfisins. 
 
Fjárhagsleg staða og aðbúnaður eldri borgara er óviðunandi og þjóðinni til skammar. Samiðn krefst þess að ríkisvaldið og sveitarfélög tryggi næga fjármuni til   uppbyggingar hjúkrunarheimila og bættrar heimaþjónustu þannig að biðlistum eftir plássum og þjónustu verði eytt á næstu misserum. Tryggja þarf almenn réttindi eldri borgara til að búa í einbýli og að hjón geti búið saman í sinni heimabyggð. 
 
Þingið telur eðlilegt að sá hluti lífeyris frá lífeyrissjóðum sem er tilkominn vegna ávöxtunar iðgjalda verði skattlagður eins og fjármagnstekjur, þ.e með 10% skatt við útborgun lífeyris.


Ályktun um framhaldsskóla

Fimmta þing Samiðnar fagnar framkomnum tillögum um nýjan framhaldsskóla og telur hann geta skapað ný tækifæri fyrir verkmenntun í landinu. Þingið leggur áherslu á að tryggja þarf að verknám standi jafnfætis öðru námi en til þess að svo verði þarf að tryggja næga fjármuni því að verknám er kostnaðarsamara en hefðbundið nám.
 
Þingið fagnar einnig tilkomu Iðunnar fræðsluseturs iðnaðarins og vill vekja athygli á þeim miklu tækifærum sem felast í því víðtæka samstarfi sem þar hefur náðst Í þeim hröðu breytingum sem samfélagið gengur í gegnum. Öflug símenntun er ein af forsendum þess að atvinnulífið hafi ætíð á að skipa starfsfólki í fremstu röð.
 
Góð símenntun skapar einnig aukið starfsöryggi og styrkir starfsfólk í alþjóðlegri samkeppni. Þingið leggur áherslu á að nú verði stigið nýtt skref í menntunarmálum iðnaðarmanna og stofnaðar verði brautir um framhaldsnám í Iðunni. Sú nána tenging sem Iðan hefur við atvinnulífið skapar algjöra sérstöðu og gefur tækifæri á að byggja upp framhaldsnám sem svarar vel þörfum atvinnulífsins og opnar og eykur val iðnaðarmanna til menntunar.