1.maí – Treystum velferðina, útrýmum fátæktinni

Á baráttudegi launafólks 1.maí verða hátíðarhöld verkalýðsfélaganna með hefðbundnum hætti, safnast verður saman á Hlemmi kl. 13 og lagt af stað í kröfugöngu niður Laugaveginn kl. 13:30 undir öflugum lúðrablæstri Lúðrasveitar verkalýðsins og Lúðrasveitarinnar Svans.  Útifundur hefst síðan á Ingólfstorgi kl. 14:10 þar sem flutt verða ávörp og hljómsveitin Baggalútur og félgar úr Gospelkór Reykjavíkur skemmta.  Að loknum útifundi er boðið til kaffisamsætis og munu Félag iðn- og tæknigreina, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Trésmiðafélag Reykjavíkur bjóða félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra til 1.maí kaffis í Akógessalnum, Sóltúni 3.

————————————–

1.maí ávarp fulltrúaráðs verkalýðsfélagann í Reykjavík, BSRB, BHM, KÍ og INSÍ

Á tímum aukins misréttis og vaxandi ójafnaðar í tekjuskiptingu þjóðarinnar er mikilvægt að launafólk snúi bökum saman til að bæta kjör launafólks og vinna að því að útrýma fátækt í landinu. Yfir 5000 börn á Íslandi lifa undir fátæktarmörkum. Bilið milli ofurlaunamanna og þeirra sem lifa á almennum launakjörum breikkar stöðugt. Þeir sem hafa lifibrauð sitt af fjármagnstekjum búa við allt aðra skattlagningu en almennt launafólk. Þetta misrétti í launa- og skattamálum verður að uppræta.
 
Gera þarf stórátak í að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem setið hafa eftir í kaupmáttar þróun undangenginna ára. Mikilvægt er að draga úr tekjutengingu bóta, skatta á lífeyrisgreiðslur þarf að samræma við skatta á fjármagnstekjur.
 
Það er krafa dagsins að fátækt verði útrýmt í einu ríkasta landi veraldar.
 
Forsendur kröftugs efnahagslífs er jöfnuður í þjóðfélaginu og styrk velferðarþjónusta. Misrétti í tekjuskiptingu og kjaramálum er böl sem er brýnt að stemma stigu við.
 
Stéttarfélögin enn mikilvægari en áður
 
Markaðs- og einkavæðing undangenginna ára hefur grafið undan velferðarþjóðfélaginu og valdræði tekið við af lýðræði. Bankar og fjármálastofnanir sem áður voru í eigu ríkis- og almennings hafa nú verið seld einkaaðilum.   Í sjávarútvegi hafa orðið til nokkur stórfyrirtæki á grundvelli kvótakaupa. Í verslun og viðskiptum er þróunin augljós í átt til nokkurra stórra viðskiptablokka.
 
Fákeppni og einokun hafa fylgt í kjölfarið. Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit, Neytendastofa og Neytendasamtök mega sín lítils gegn stórfyrirtækjum sem stjórna þróuninni í krafti fjármagns og áhrifa í skjóli lagatúlkunnar. Niðurstöður í mikilvægum dómsmálum undanfarið sýna þetta svart á hvítu.
 
Þessi þróun gerir stéttarfélög og almannasamtök sem ekki eru bundin af hagsmunum markaðsafla mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þau eru öflugasta vopnið sem almennt launafólk hefur í baráttunni fyrir betri kjörum og réttindum. En þau geta einnig stutt við og myndað hið mikilvæga aðhald almennings að markaðsöflunum sem svo sárlega skortir til að eitthvert eðlilegt jafnvægi myndist milli stórfyrirtækja, viðskiptablokka og almennings í landinu. Hlutverk þeirra hefur ekki verið síður að standa vörð um íslenska velferðarsamfélagið, mannréttindi og réttinn til að lifa góðu og heilbrigðu lífi.
Þá verða verkalýðsfélögin, hér eftir sem hingað til, að standa traustan vörð um réttindi þeirra fjölmörgu erlendu starfsmanna sem hingað koma og sjá til þess að réttur þeirra sé hvergi fyrir borð borinn.
Það skortir því ekki á verkefni stéttarfélaganna. Það þurfa forystumenn þeirra að hafa hugfast.
 
Leiðréttum kúrsinn í efnahagsmálum
 
Brýnasta verkefnið í efnahagsmálum þjóðarinnar er að koma á jafnvægi í stjórn landsins eftir hagstjórnarmistök undanfarinna ára. Þenslan sem einkennt hefur hagkerfið um margra ára skeið er á góðri leið með að kippa stoðunum undan fjöldamörgum heimilum í landinu. Gríðarlegar framkvæmdir í húsbyggingum og mannvirkjagerð samfara mikilli uppbyggingu orkuvera hafa skapað ástand sem er hvorki fyrirtækjunum, launamönnum eða stjórnvöldum hagfelld þegar til lengri tíma er litið. Besta leiðin til þess að ná tökum á efnahagsástandinu er að stýra uppbyggingu stórframkvæmda og húsbygginga og skapa með því jafnvægi. Verkalýðshreyfingin vill ekki atvinnuleysi. Hún vill heldur ekki stjórnleysi í atvinnumálum.
 
Ein afleiðing þenslunnar er allt of hátt vaxtastig sem hvorki fyrirtæki né fjölskyldur rísa undir til lengdar. Vaxtaokrinu og allt of háum þjónustugjöldum verður að linna svo heimilin í landinu geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna húsnæðiskaupa.
 
Íslenskar fjármálastofnanir skila miklum hagnaði og þær hafa sannarlega efni á því að sýna þá samfélagslegu ábyrgð að létta okurálögum af viðskiptavinum sínum.
 
Hverjir eiga auðlindirnar?
 
Samtök launafólks telja brýnt hagsmunamál að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar.  Auk fiskistofnanna má nefna orku fallvatna og jarðvarma. Þá er ljóst að vatn er ein verðmætasta auðlind framtíðarinnar og því ber að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir vatnsréttindum. Aðgangur að vatni heyrir til grundvallarmannréttinda. Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru. Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.
 
Jafnréttismál
 
Það er staðreynd að ekki hefur tekist að jafna kjör karla og kvenna og rétt þeirra til starfa í þjóðfélaginu. Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallarmannréttindi. Mikilvægasti áfanginn á þeirri leið undanfarin ár var fólginn í fæðingarorlofslögunum. En sá stóri vandi að uppræta kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði er enn óleystur. Í þessu efni þarf að finna aðferðir sem duga. Eitt mikilvægasta verkfærið í því efni er að allar upplýsingar um mismunun í launamálum og leiðir til að lagfæra það séu tiltækar á vinnustöðunum. Afnám launaleyndar er þar eitt af úrræðunum.
 
Ísland og umheimurinn
 
Mikilvægt er að Ísland sýni sjálfstæði og reisn á alþjóðavettvangi og styðji jafnan mannréttindi og baráttu þeirra sem eru undirokaðir fyrir frelsi. Þannig ber okkur að fara að dæmi Svía og Norðmanna og lýsa afdráttarlausum stuðningi við palestínsku þjóðstjórnina. Íslendingar eru enn á lista hinna viljugu þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak og bera því fulla ábyrgð á þeim hildarleik sem þar er háður. Fjöldi fallinna hleypur á tugum ef ekki hundruðum þúsunda manna. Krafan er að því verði lýst yfir af stjórnvöldum að Ísland sé ekki lengur á þessum lista.
 
Á baráttudegi launafólks 1. maí minna samtök launafólks félagsmenn sína á að sýna í verki hug sinn til launamanna með því að taka þátt í fundum dagsins og leggja sitt af mörkum til þess að dagurinn verði okkur sífelld uppspretta hugmynda og frumkvæðis til aukinnar  vinnu fyrir málstað hins vinnandi manns.
 
 
F.h. Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík
Guðmundur Þ. Jónsson ( sign.)
Vignir Eyþórsson (sig.)
Anna Vala Eyjólfsdóttir (sign.)
Bragi Guðmundsson (sign.)
 
 
F.h. BSRB
Þuríður Einarsdóttir ( sign.)
Trausti Jónsson ( sign.)
 
 
F.h. Bandalags háskólamanna
Halldór K. Valdimarsson ( sign.)
 
 
F.h. Kennarasambands Íslands
Þorgrður L. Diðriksdóttir ( sign.)
 
F. h. Iðnnemasambands Íslands
Guðni R. Jónasson ( sign.)