Miðstjórn Samiðnar lýsir undrun sinni á að þegar leitað var eftir samstarfi við atvinnulífið við undirbúning stofnunar einkavædds iðnskóla og sameiningu við Fjöltækniskólann, að ekki var rætt við samtök launamanna. Fundurinn krefst þess að tryggt sé að jafnræði gildi milli aðila vinnumarkaðarins þegar ákveðið verði um áframhald málsins og aðild að stjórnun skólans. Miðstjórnin telur það algjöra forsendu þess að samstaða geti orðið um málið að það ríki jafnræði milli samtaka atvinnurekenda og samtaka iðnaðarmanna um aðkomu.
Miðstjórn Samiðnar leggur áherslu á að iðnmenntun í landinu sé sem best. Til þess þarf öfluga iðn eða fjölbrautarskóla, það er einnig vitað að iðnmenntun í landinu hefur búið við fjárskort þar sem greiðslumótel menntamálaráðuneytisins hefur ekki tekið nægilegt tillit til sérþarfa iðnnáms. Til að iðnnám sé sem best í takt við atvinnulífið hverju sinni þarf að vera þríhliðasamstarf skóla, samtaka launamanna og samtök atvinnurekenda í hverjum iðngreinaflokki.
Reykjavík, 1.mars 2007