Straumur erlendra starfsmanna ræðst af þörfum atvinnulífsins, ekki regluverkinu

Þótt margir hafi ýmislegt að athuga við málflutning Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Jóns Magnússonar úr Frjálslynda flokknum mega þeir eiga eitt: Þeim tókst að vekja upp þarfa og löngu tímabæra umræðu um stöðu innflytjenda og útlendra starfsmanna í íslensku samfélagi. Aðferðin sem þeir beita orkar hins vegar tvímælis því þeir snúa hlutunum á hvolf, gera eðlilega aðlögun að regluverki Evrópska efnahagssvæðisins tortryggilega og kynda undir útlendingahatri með því að gefa í skyn að útlendingarnir sem hingað koma séu meira og minna ábyrgir fyrir alls kyns afbrotum og ofbeldisverkum.
 
Látum það síðastnefnda liggja milli hluta en grípum á lofti það sem Magnús Þór sagði um það sem gerðist 1. maí 2006 sem hann kallar „svartan dag“ í sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar. Ástæðan er að hans sögn sú að þá var opnað fyrir óheftan straum erlendra starfsmanna frá austanverðri Evrópu. Þarna veit hann áreiðanlega betur, eða á að vita betur.
 
Eftirspurnin ræður
 
Í haust kom út norræn skýrsla þar sem lagt er mat á þróunina á norrænum vinnumarkaði eftir stækkun Evrópusambandsins 1. maí 2004. Hún er einkar forvitnileg í þessu samhengi vegna þess að þar er borið saman hver áhrifin urðu í löndunum fimm. Viðbrögð landanna við stækkun ESB voru nefnilega töluvert misjöfn á sínum tíma. Vorið 2004 ákváðu þrjú þeirra að nýta sér að fullu þann frest sem þeim gafst á gildistöku ákvæða um frjálsa för fólks frá átta af tíu nýjum aðildarríkjum ESB, það er landanna í Austur-Evrópu sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni. Þessi lönd voru Ísland, Noregur og Finnland en í þeim giltu sömu reglur og verið höfðu gagnvart fólki utan EES. Svíar nýttu sér ekki frestinn og opnuðu í raun allt upp á gátt án nokkurra skilyrða annarra en þeirra að fyrirtæki og starfsmenn færu að þeim lögum og reglum sem gilda á sænskum vinnumarkaði. Danir fóru bil beggja, nýttu sér frestinn en á mun mildari hátt gagnvart nýju aðildarríkjunum en raunin var hér á landi.
Þegar staðan var könnuð tveimur árum seinna kom í ljós að áhrif stækkunarinnar réðust á engan hátt af viðbrögðum þjóðanna. Í Finnlandi og Svíþjóð dró heldur úr innflutningi fólks frá Austur-Evrópu. Í Danmörku var hann svipaður og hann hafði verið árin fyrir stækkun. Í Noregi og á Íslandi hafði orðið hlutfallslega langmest fjölgun erlendra starfsmanna frá nýju aðildarlöndunum.
Hver skyldi vera ástæðan fyrir þessu? Jú, hún er sú að í Noregi og á Íslandi var mikil uppsveifla og þar vantaði sárlega vinnuafl. Í hinum löndunum var vinnumarkaðurinn í meira jafnvægi og þar af leiðandi minni þörf á að flytja inn erlent vinnuafl. Það réð úrslitum en ekki hvort fólk þurfti að sækja um atvinnuleyfi áður en það kom eða ekki. Eins og heimurinn er orðinn á þessum tímum alþjóðavæðingar eru það þarfir atvinnulífsins fyrir vinnuafl sem ráða því hvert straumur innflytjenda liggur, ekki regluverk stjórnvalda.
 
Mikill straumur til landsins
 
Það er hins vegar full þörf á vitrænni, málefnalegri og æsingalausri umræðu um það hvernig íslenskt samfélag ætlar að mæta þeim vaxandi straumi erlendra starfsmanna sem hingað berst. Fjölgunin hefur vissulega verið mikil, enda þensluástandið þvílíkt að annað eins hefur sennilega aldrei þekkst í íslenskri sögu.
Það athyglisverða við fjölgunina er að hún hófst talsvert fyrir 1. maí. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs var úthlutað þrefalt fleiri tímabundnum atvinnuleyfum til útlendinga en á sama tíma í fyrra. Straumurinn hefur vissulega þyngst eftir því sem líður á árið og í september fengu rúmlega 900 manns atvinnuleyfi en alls munu um eða yfir 7.000 útlendingar hafa komið hingað til lands til að sækja vinnu það sem af er árinu, langstærstur hluti þeirra frá Póllandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu.
Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun útlendra starfsmanna hefur atvinnuleysi í landinu minnkað jafnt og þétt. Útlendu starfsmennirnir hafa því ekki verið að taka störfin frá Íslendingum. Haustið 2004 var atvinnuleysið um 2,7% og náði hámarki í 3% í ársbyrjun 2005. Síðan hefur það verið á stöðugri niðurleið og var komið í 1% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði nú í september. Hefur atvinnuleysið ekki verið minna síðan á síðasta þensluskeiði á árunum 2000 og 2001.
Á þeim árum var verið að reisa Smáralind, auk ýmissa annarra verka sem voru í gangi, og þá voru líka fluttir inn margir erlendir starfsmenn, ekki síst frá Portúgal. Þeir fóru svo til síns heima þegar verkefnum þeirra hér á landi lauk og nú er varla nokkur þeirra hér lengur. Það gefur kannski vísbendingu um það sem á eftir að gerast þegar núverandi þensluástand hjaðnar.
 
Samkomulag ASÍ og SA
 
Á síðustu árum hefur gengið á ýmsu á íslenskum vinnumarkaði, ekki síst í kringum framkvæmdirnar á Austurlandi. Þá lá svo mikið á að koma framkvæmdum af stað að stjórnvöld tóku afar illa í allar athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar ef þær gátu hugsanlega orðið til þess að tefja virkjunina. Það vantaði líka töluvert upp á að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hefðu sömu sýn á það hvernig best væri að bregðast við þeim mikla straumi erlendra starfsmanna sem hingað kom. Og þegar aðilar vinnumarkaðarins deila halda embættismennirnir að sér höndum.
Af þessu hafa menn greinilega lært því töluvert hefur áunnist við að koma á regluverki og eftirliti með því að farið sé að lögum um eðlilega starfshætti á vinnumarkaði. Í fyrravetur voru sett lög um starfsmannaleigur og í júní á þessu ári náðist stór áfangi þegar Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samkomulag um það hvernig staðið skyldi að málum „vegna erlendra starfsmanna, gerviverktöku, opinberra innkaupa og lögbrota í atvinnustarfsemi“ eins og það heitir.
Samkomulagið byggist á þeim reglum sem settar voru í lögum um starfsmannaleigur í fyrravetur og ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í vor um að opna landið fyrir fólki frá nýjum aðildarríkjum ESB. Meginhugsunin í þeim er að fólki af Evrópska efnahagssvæðinu sé frjálst að koma hingað og leita sér að vinnu. Það er svo lagt í hendur fyrirtækja að tilkynna um ráðningu starfsmanna og á hvaða kjörum þeir eru ráðnir.
Að sjálfsögðu er gengið út frá því að erlendir starfsmenn séu ráðnir á þeim kjörum sem gilda á vinnumarkaði fyrir þau störf sem þeir stunda. Vandinn hefur hins vegar verið sá að erlendir starfsmenn fá yfirleitt greitt samkvæmt lágmarkstöxtum meðan íslenskir kollegar þeirra njóta markaðslauna sem eru töluvert hærri. Algengt mun vera að iðnaðarmönnum séu greidd sömu laun og verkamenn fá en sérhæfðir verkamenn séu á unglingatöxtum.
 
Leitað að rétta taktinum
 
Að sögn Halldórs Grönvolds skrifstofustjóra ASÍ virkuðu reglurnar um skráningu illa í byrjun en ástæðan fyrir því var sú að það var þriggja mánaða bið eftir kennitölum hjá Hagstofunni og meðan svo var gátu fyrirtækin ekki skráð erlenda starfsmenn sína þótt þau gjarnan vildu hafa allt í lagi hjá sér. Sú biðröð var úr sögunni í byrjun september og þá fór kerfið að virka þokkalega, að sögn Halldórs. Það hefur breytt stöðu stéttarfélaganna að því leyti að nú er við fyrirtækin að sakast ef skráning er ekki eins og skyldi en áður þurftu þau að rekast í erlendu starfsmönnunum sjálfum og fá þá til að skrá sig.
Halldór bætir því við að stéttarfélögin og Vinnumálastofnun séu að finna taktinn í því að vinna saman að þessum málum en samstarfið byggist á tveimur stoðum. Annars vegar halda stéttarfélögin uppi hefðbundnu eftirliti á vinnustöðum í gegnum trúnaðarmenn sína, heimsóknir fulltrúa félaganna á vinnustaði og þess háttar. Hins vegar halda stjórnvöld uppi eftirliti stofnana á borð við Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið, ríkisskattstjóra og fleiri aðila. Hann segir verkalýðshreyfinguna ekki ætla að slaka á eigin eftirliti en að oft skorti hana valdheimildir til að fylgja málum eftir, til dæmis í málum sem snúa að skattayfirvöldum.
 
Ábyrgðin lögð á fyrirtækin
 
Leiðirnar sem erlendir starfsmenn koma til landsins eru fyrst og fremst þrjár: beinar ráðningar fyrirtækja, oft á netinu; í gegnum starfsmannaleigur; og í krafti svonefndra þjónustuviðskipta þar sem erlent fyrirtæki tekur að sér verk hér á landi og leggur til mannskap og í sumum tilvikum efni („maður og spónaplata“ kallast þetta fyrirkomulag stundum). Með opnuninni í vor var opnað fyrir það að fólk geti komið hingað til lands án þess að hafa sett sig í samband við fyrirtæki og eflaust er nokkuð um að fólk komi fyrir milligöngu vina og ættingja sem búa hér á landi og útvega þeim vinnu.
En hvert sem ráðningarformið er þá er lögð sú kvöð á fyrirtækin að þau tilkynni hvaða starfsmenn vinna hjá þeim og á hvaða kjörum. Í samkomulaginu frá 22. júní lýsa ASÍ og SA því yfir að mikilvægt sé að öll fyrirtæki sem starfa hér á landi þurfi að skrá sig hjá yfirvöldum, að öll skráning sé á einum stað, skráningarferli verði einfaldað og að á sama stað verði hægt að nálgast allar upplýsingar sem fyrirtækin þurfa um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Þetta á við um öll erlend fyrirtæki, starfsmannaleigur og þjónustuveitendur, hvort sem þau starfa hér tímabundið – lengur en 10 daga – eða eru með staðfestu hér á landi.
Á grundvelli þessarar yfirlýsingar var sett á laggirnar nefnd sem á að fylgjast með þróun mála eftir 1. maí 2006. Jafnframt því var hafið starf við að móta löggjöf um skyldur allra fyrirtækja til að tilkynna starfsemi sína hér á landi áður en hún hefst og upplýsa um það á hvaða samningum hún byggist, hver sé kaupandi þjónustunnar, hvaða erlendir starfsmenn starfi hjá fyrirtækjunum og hversu lengi. Vinnumálastofnun á að fá heimildir til að kalla eftir þjónustu- og ráðningarsamningum og öðru sem hún telur sig þurfa til að geta fylgst með starfseminni.
 
Tilkynningaskyldan víkkuð út
 
Að sögn Halldórs gengur þessi nefndarvinna vel og er farið að sjá fyrir endann á henni. Hann sagðist eiga von á að frumvarp til nýrra laga yrði lagt fram nú í nóvember. Stefnt er að því að afgreiða lögin fyrir jól svo þau taki gildi 1. febrúar á næsta ári. „Það er verið að útfæra tilkynningaskylduna sem sett var á starfsmannaleigurnar í fyrra þannig að hún nái til allra fyrirtækja, þjónustuveitenda, undirverktaka erlendra fyrirtækja og annarra.
Í þessum reglum verður ein veigamikil viðbót sem er sú að notendafyrirtækin verða að staðreyna að þjónustufyrirtæki eða starfsmannaleiga sem þau eiga viðskipti við séu búin að skrá sig og geti lagt fram skriflegar yfirlýsingar um ráðningarkjör starfsmanna sinna. Vanræki notendafyrirtækin að ganga eftir þessum upplýsingum eiga þau á hættu fésektir. Þau eru með öðrum orðum gerð ábyrg fyrir því að rétt sé staðið að skráningu fyrirtækja og að kjör starfsmanna séu samkvæmt reglum á íslenskum vinnumarkaði. Um þetta ríkir eining milli ASÍ og SA.
Einnig er verið að fara yfir það hverju þarf að breyta í lögum um réttindi erlendra starfsmanna til trygginga. „Réttur þeirra til almannatrygginga getur verið afar mismunandi en nú er verið að ræða um að setja þá reglu í lög að fyrirtæki verði að sýna fram á að starfsmenn þeirra njóti sambærilegra trygginga og aðrir launamenn á íslenskum vinnumarkaði. Ef þeir gera það ekki verða fyrirtækin að kaupa sambærilegar tryggingar fyrir þá,“ segir Halldór.
 
Persónuskilríki í byggingariðnaði
 
Í yfirlýsingu ASÍ og SA er lýst sérstökum áhyggjum af stöðu mála í byggingarstarfsemi, þjónustu tengdri mannvirkjagerð og veitingageiranum.
„Hvað byggingariðnaðinn varðar er verið að tala um að gera þá kröfu að allir sem vinna við húsbyggingar eða mannvirkjagerð beri persónuskilríki til þess að eftirlitsaðilar geti gengið úr skugga um að þeir séu á réttum stað. Þetta er gert að norskri og finnskri fyrirmynd og hugmyndin er sú að á skilríkunu sé mynd af viðkomandi, nafn, kennitala, starfsheiti og nafn atvinnurekanda. Þeir sem sinna eftirliti fá svo í hendur lista frá fyrirtækinu um það hverjir starfa hvar og geta borið skilríkin saman við listann,“ segir Halldór.
Um gerviverktaka og svarta atvinnustarfsemi bendir Halldór á að þar sé nú ekki einungis átt við erlenda starfsmenn því Íslendingar komi þar einnig mikið við sögu. Í Svíþjóð hefur borið töluvert á því að starfsmenn frá Eystrasaltslöndunum og Póllandi hafi stofnað verktakafyrirtæki utan um sjálfa sig og selji sig út á lægra verði en aðrir. Í mörgum tilvikum hefur komið í ljós að það voru heimamenn sem knúðu þá til þess að fara þessa leið og nýttu sér þannig fáfræði og bága stöðu innflytjenda. Einhver brögð eru að þessu hér á landi en þau eru ekki mörg, að sögn Halldórs.
„Verktaka getur verið eðlilegur hlutur og átt fullan rétt á sér. Þegar svo háttar til á að gera mönnum auðvelt fyrir að skrá sig. Þá er hægara um vik að herða að hinum sem eru að svindla. Í þessu sambandi hefur einnig verið rætt um að lækka heimild ríkissjóðs til innheimtu skatta úr 75% af tekjum í 50%. Það hefur nefnilega komið í ljós að í mörgum fyrirtækjum hafa menn sem skulda miklar meðlagsgreiðslur verið ráðnir sem verktakar til þess að þeir geti skotið stærri hluta launa sinna undan innheimtu ríkisins en ef þeir væru launamenn. Nú hefur verið rætt um að lækka frádráttarheimildina en á móti verði öll svona viðskipti sett upp á borðið,“ segir Halldór og bætir því við að fleira sé til skoðunar, svo sem sérstök kort fyrir virðisaukaskatt og válisti yfir þá sem hafa brotið af sér með því að skila ekki virðisaukaskatti.
 
Hvað með eftirlitið?
 
Gott og vel, segja eflaust einhverjir, en hvernig á að fylgjast með því að fyrirtæki fari eftir þessum reglum? Er einhver von til þess að þær virki?
„Já, það er verið að móta verklag þeirra sem þurfa að hafa með sér samstarf svo kerfið virki. Lykillinn að því er að vera með alla skráningu og upplýsingar á einum stað. Það auðveldar þeim sem vilja hafa sitt á þurru að gera það. Þá getur eftirlitið einbeitt sér að hinum sem eru að reyna að svindla. En þetta gerir kröfu til þess að stofnanir hins opinbera samræmi vinnubrögð sín og það er verið að skoða. Í því sambandi hefur sú hugmynd komið upp að Vinnueftirlitið fái það hlutverk að fylgjast með persónuskilríkjunum sem ég nefndi áðan í umboði Vinnumálastofnunar. Einnig er verið að skoða möguleikann á því að samkeyra upplýsingar frá Vinnueftirlitinu og yfirvöldum skatta, tolla og lögreglu í því skyni að fylgjast með kjörum erlendra starfsmanna.
Reyndar hefur einnig verið rætt hvort ekki væri rétt að sameina Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið í eina stofnun sem hefði það hlutverk að fylgjast með íslenskum vinnumarkaði. Þetta hefur verið gert í Noregi og gefið góða raun,“ segir Halldór.
Ríkið stendur ekki við loforðin
 
En það sem vantar á að eftirlitskerfið virki er að ríkið standi við fyrirheit sín um að efla og styrkja þær stofnanir sem eiga að sinna eftirlitinu. Eftir að framkvæmdir hófust við Kárahnjúka kom í ljós að stofnanir á borð við Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit, sýslumannsembætti og skattstofur réðu engan veginn við ástandið sem skapaðist. Þær þurftu að fá meira fé og aukinn mannafla til þess að mæta vaxandi kröfum og nýjum verkefnum. Þar stóð ríkisstjórnin sig afar illa.
Og hún virðist lítið hafa lært síðan. Þegar lögin um starfsmannaleigurnar voru sett í fyrravetur var áætlað að þau myndu hafa í för með sér aukakostnað fyrir Vinnumálastofnun sem næmi 13 milljónum króna á ári. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 er ekki gert ráð fyrir einni krónu til þess að mæta þessum aukakostnaði.
Þetta er raunar ekkert einsdæmi því fram hefur komið í umræðum síðustu vikna að í fjárlagafrumvarpinu sé heldur ekki gert ráð fyrir því að nýstofnað Innflytjendaráð þurfi nokkurt fé til starfsemi sinnar en því er samkvæmt lögum ætlað verulegt hlutverk í því að gera innflytjendum auðveldara að koma sér fyrir í íslensku samfélagi. Framlög ríkisins til íslenskukennslu hafa einnig verið til skammar. Þar hafa sveitarfélögin bjargað því sem bjargað varð en aðgangur innflytjenda að íslenskukennslu hefur verið afar torveldur og dýr. Eftir að umræðan hófst á dögunum ákvað ríkisstjórnin að verja 100 milljónum króna til að auka framboð á kennslu og námsefni í íslensku fyrir útlendinga.
Halldór Grönvold segir það auka sér bjartsýni að nú séu opinberar stofnanir farnar að tala saman og starfa saman að því að taka á þeim vandamálum sem upp koma vegna aukins innflutnings erlendra starfsmanna.
En það bólar enn ekki á því að ríkisstjórnin standi við stóru orðin og efli þær stofnanir sem eiga að hafa eftirlit með höndum. Það er ekki nóg að setja fögur fyrirheit á blað ef ekki fylgja peningar og pólitískur vilji til þess að hrinda þeim í framkvæmd.
–ÞH