Nám á frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík

Blaðamaður Samiðnar hitti að máli nokkra nemendur á frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík og náði af þeim spjalli. Þau eru öll á 4. önn og útskrifast því um áramót með frumgreinapróf. Nám á frumgreinasviði er sérhæft undirbúningsnám fyrir framhaldsnám í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

 
 
Stefán Elfar Garðarsson er 25 ára menntaður húsasmiður og hefur unnið við þá iðn í fimm ár. Aðalsteinn Bjarni Bjarnason er 35 ára rafeindavirki sem hefur unnið fjölbreytt störf um ævina, allt frá því að vera flutningabílstjóri í að vera forritari. Eva Lind Ágústsdóttir er 35 ára menntaður hárskeri og hefur unnið sem slíkur í sjö ár, auk þess að hafa starfað á leikskóla.
Af hverju völduð þið að fara á frumgreinasvið HR?
Stefán: Mér finnst ekkert vit í að fara í menntaskóla þegar maður er orðinn 25 ára, ég vil ekki sitja í náminu með yngra fólki, ég á ekki samleið með því núna.
Aðalsteinn: Þetta er gamall draumur, konan hreyfði við mér eftir að hafa verið sjálf í viðskiptafræði. Sjálfur hef ég víðtæka reynslu, og er eiginlega hálfgert furðuverk en hef týnt bæklingnum að sjálfum mér og er að læra bæklinginn núna.
Við þetta svar gat hópurinn ekki stillt sig um hlátur.
Eva: Til að fara í meira nám vantaði mig betri grunn, og eins og Stefán þá langaði mig ekki að setjast á skólabekk með 16 ára unglingum. Einnig skiptir máli að þetta er lánshæft nám og þegar maður er kominn með fjölskyldu þá lifir maður ekki á loftinu.
Hvernig finnst ykkur námið í HR?
Stefán: Það er bara frábært. Þegar maður er kominn á þennan aldur er maður kominn til að læra og er fús til að takast á við ýmis verkefni sem maður hefði ekki treyst sér til fyrir nokkrum árum. Ég er sáttur.
Eva: Þetta er mjög krefjandi nám og það er ótrúlegt hvað maður hefur komið sjálfum sér á óvart.
Aðalsteinn: Sjóndeildarhringurinn hefur óneitanlega víkkað, það er eins og draumur í dós að fá tækifæri til að setjast á skólabekk aftur þegar maður er orðinn þetta gamall, að geta farið að læra. Það er erfitt að taka ákvörðun fyrir lífstíð strax eftir grunnskólann, ég valdi rafeindavirkjun og vil blanda við einhverju sem er á hærra stigi. Til þess er kjörinn vettvangur hér í HR.
Hvað lærið þið helst á frumgreinasviðinu?
Eva: Það er kennd mikil stærðfræði, einnig er kennd íslenska, enska, þýska og danska, en áherslan er fyrst og fremst á raungreinar.
Stefán: Þessu námi má líkja við hraðferð til stúdentsprófs og það er einblínt á mikla raungreinamenntun. Eftir nám á frumgreinasviði erum við í forgangi inn í verkfræði og tæknifræði í Háskólanum í Reykjavík, enda komin með gífurlega góðan undirbúning fyrir þær greinar.
Aðalsteinn: Kennararnir eru líka upp til hópa mjög góðir, það má gagnrýna verk einhverra en ef maður setur sig í spor þeirra skilur maður þá betur. Þetta er ekki auðvelt starf.
Eva: Þeir eru boðnir og búnir til að taka á móti fyrirspurnum, til dæmis ef maður sendir þeim tölvupóst, þá svara þeir mjög fljótt til baka, sem gerir samskiptin þægileg.
Aðalsteinn: Fráfarandi rektor er frábær og stefna skólans hefur verið mjög framúrstefnuleg en það markaði tímamót þegar skólarnir runnu saman og tóku ákvörðun um að byggja í Öskjuhlíðinni. Við verðum líklega þau fyrstu sem útskrifast með háskólagráðu úr nýju byggingunni í Vatnsmýrinni árið 2010.
Stefán: Það virkar langt þangað til en eftir að hafa verið í skólanum nú þegar í næstum tvö ár þá er þetta mjög fljótt að líða.
Hver er meðalaldurinn í bekknum?
Meðalaldurinn er í kringum 30 ára, svara þau eftir smá umhugsun.
Stefán: Aldurinn er frá 19 ára upp í og yfir 40 ára.
Aðalsteinn: Hér er yfirleitt fólk sem hefur mikla reynslu úr atvinnulífinu og oftast með iðnmenntun. Fólki er ekki hleypt inn nema það sé með góða reynslu.
Stefán: Það er fyndið að horfa yfir 35-manna hópinn, því það er sama hvaða faggrein þú nefnir, það er einhver einstaklingur í bekknum sem er lærður í þeirri grein. Þetta eru píparar, rafvirkjar, smiðir og svo mætti lengi telja, og svo geturðu látið klippa þig hjá Evu.
Þarna var mikið hlegið og Eva þvertók fyrir það síðastnefnda.
Er hægt að vinna með þessu námi?
Aðalsteinn: Það fer illa að vinna með þessu námi, því þetta er svo stíft prógram. Það hafa nokkrir rekið sig á það og það gengur yfirleitt ekki upp. Það er rétt að maður sleppi með að stunda venjulegt fjölskyldulíf og vera í skóla.
Eva: Þetta er mikið púsluspil, ég er með fjögur börn og þarf því að skipuleggja mig vel.
Aðalsteinn: Ég er ekki með nein börn en var að gera upp íbúðina hjá mér fyrir nokkru og það er gaman að geta þess að þótt maður ætli að gera þetta með skólanum og sníða sér stakk eftir vexti þá riðlaði þetta lærdómnum. Það hefur komið í ljós að það er enginn tími fyrir gæluverkefni með þessu námi.
Stefán: Margir eru hér næstum allan sólarhringinn að læra eftir skóla. Það er í rauninni mikil fjölskyldustemmning í bekknum og mjög góður mórall þótt þetta sé mikil vinna. Við erum með heimastofu og höfum aðgang að skólanum allan sólarhringinn, alla vikuna. Í stofunni erum við með hillur undir dótið okkar og getum þess vegna sofið í stólunum okkar ef við viljum.
Eva: Eins og fyrir próf þá eru allir að læra næstum því allan sólarhringinn. Af því að þetta er bekkjakerfi þá myndast góð stemmning og fólk hjálpast að við að læra fyrir próf.
Aðalsteinn: Það er engin samkeppni í bekknum, ég hef aldrei náð eins góðri einkunn og á síðustu önn.
Stefán: Einkunnirnar fara hækkandi á hverri önn og maður fær þjálfun í að leysa erfið verkefni.
Eva: Fyrst þegar maður byrjaði þá fékk maður sjokk, þetta var rosalega mikil vinna í byrjun, en svo lærir maður að læra.
Aðalsteinn: Nemi á efri árum sagði að þetta væri vont en þetta versnaði.
Stefán: Þetta á örugglega eftir að verða erfiðara þegar maður fer á háskólastigið. Það er umtalað að þetta nám sé góður grunnur, einnig hef ég heyrt að þeir sem koma af frumgreinasviði séu með þeim bestu til dæmis í tæknifræðinni.
Hvað ætlið þið að gera við þessa menntun?
Aðalsteinn: Ég ætla í rafmagnstæknifræði, á smástraumssviðið, ég hef góðan grunn á sviði tölvutækni og sem rafeindavirki, ég held þetta sé „eitruð“ blanda.
Eva: Ég er mjög óákveðin hvað ég ætla að gera í framhaldinu. Núna þessa vikuna er það iðnaðarverkfræðin eða svokölluð hátækniverkfræði sem heillar, en það getur breyst í næstu viku.
Stefán: Ég ætla í byggingartæknifræði og sjá svo til með meistarapróf í byggingartæknifræði eða byggingarverkfræði.
Að lokum, hvernig er svo félagslífið?
Stefán: Þessir gamlingjar kunna ekki að skemmta sér svo ég verð að svara fyrir það. (Þau eldri hlógu mikið að þessu svari). Það er félag í skólanum sem heitir Technis og er bæði fyrir tæknifræðinema og frumgreinasviðsnema. Á vegum þess er boðið upp á vísindaferðir og skemmtanir. Í vísindaferðum er farið í fyrirtækjaheimsóknir, um daginn fórum við til dæmis í heimsókn til Egils Skallagrímssonar og þar var kynnt framleiðsla og nýjustu vörur ásamt markaðssetningu á þeim. Það er oftast kynnt hvað tæknifræðingar gera hjá viðkomandi fyrirtækjum og hvaða möguleika þeir hafa að loknu námi, svo er boðið upp á léttar veitingar og maður fær tækifæri til að kynnast eldri nemendum og starfsmönnum fyrirtækjanna. Félagslífið er með öðrum orðum mjög gott.