Það er löng hefð fyrir því á Íslandi að almenningur eigi íbúðarhúsnæði sitt og ráðstafi framtíðartekjum með mikilli skuldsetningu í tengslum við íbúðarkaup. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi lengi búið við eignarfyrirkomulag hafa ekki myndast öflug hagsmunasamtök til að verja hagsmuni íbúðarkaupenda. Til eru öflug byggingarfyrirtæki sem leggja metnað sinn í vandaða framleiðslu og vönduð viðskipti með íbúðarhúsnæði. En því miður eru skunkar innan um sem hafa engan faglegan metnað og koma fram við viðskiptavini sína með ótrúlegri ósvífni. Í slíkum tilfellum virðast kaupendur illa varðir og verða oft fyrir miklu tjóni sem erfitt er að fá bætt, meðal annars vegna þess að engar eignir standa á bak við fyrirtækin og þegar vandræði steðja að skipta eigendurnir um kennitölu.
Árið 2001 hóf Meginverk ehf. byggingu fjölbýlishúss í Grafarholti en samkvæmt þjóðskrá veittu bræðurnir Þröstur og Valgarður Stefánssynir fyrirtækinu forstöðu. Fljótlega komu fram alvarlegir gallar á húsinu sem kölluðu á umfangsmiklar viðgerðir á þaki og gluggum, og samkvæmt upplýsingum frá íbúum er múrhúðin að losna utan af húsinu og þarf að ráðast í kostnaðarsamar viðgerðir.
Íbúðareigendur gerðu kröfu á Meginverk um lagfæringar en það reyndist árangurslaust þar sem fyrirtækið var komið í gjaldþrotaskipti. Í framhaldinu gerðu íbúarnir kröfu um að byggingarstjóratrygging hússins bætti þeim tjónið en því var hafnað. Málið fór fyrir dómstóla og tók tvö ár að fá niðurstöðu. Fallist var á að út á trygginguna fengjust bætur að upphæð 20 milljónir en fyrir liggur að viðgerðir sem lokið er og þær sem eftir eru kosta mun meira.
Eins og áður segir er Meginverk í gjaldþrotaskiptum og bendir allt til að ekkert fáist upp í það tjón sem íbúarnir verða fyrir. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá eru bræðurnir komnir aftur í rekstur en undir nýrri kennitölu.
Hvernig getur þetta gerst? Hver ber ábyrgðina? Og er þetta óumflýjanlegur fylgifiskur frjáls markaðar? Svarið við síðustu spurningunni hlýtur að vera nei, þetta er óásættanlegt. En þessi saga er ekki einsdæmi. Mörg húsfélög eru að glíma við að fá lokaúttektir en ekkert gengur vegna vanefnda byggingaraðilans. Kaupendur standa varnarlausir og eiga fáa möguleika til að ná fram rétti sínum án þess að fara í kostnaðarsöm málaferli sem taka langan tíma og óvíst er hvort skila nokkru.
Þessi staða íbúðarkaupandans er óviðunandi og því hlýtur það að vera skylda allra sem málið snertir að sameinast um úrbætur. Tryggja þarf hagsmuni kaupenda mun betur en gert er nú og auka ábyrgð allra sem koma að ferlinu. Gera verður kröfur til þeirra sem standa fyrir byggingum að þeir kaupi tryggingu eða geti lagt fram tryggingar í eignum sem nema ákveðnum hundraðshluta væntanlegs byggingarkostnaðar. Tryggingin eða eignin verði bundin þar til lokaúttekt liggur fyrir. Skoða á í fullri alvöru hvort ekki á að fara hliðstæða leið og farin er í Danmörku gagnvart þeim sem verða gjaldþrota. Þar er þeim gert ókleift að hefja starfsemi strax á nýjan leik. Vel mætti hugsa sér að það þyrftu að líða í það minnsta fimm ár frá því að gjaldþrotaskiptum lýkur þar til viðkomandi má hefja rekstur á ný enda fari hann þá á varúðarskrá sem verði undir ströngu eftirliti. Mikilvægt er að gera skýrari kröfur til fasteignasala um að þeir leggi faglegt mat á húsnæði sem þeir taka til sölu og geri væntanlegum kaupendum grein fyrir því ef húsbyggjandinn er fjárhagslega veikur og uppfyllir ekki almennar gæðakröfur. Gera á kröfu til samtaka atvinnurekenda um að þeir hafi ströng inntökuskilyrði gagnvart félagsmönnum sínum og tryggi að ekki séu í þeirra röðum fyrirtæki og einstaklingar með vafasama viðskiptasögu.