Hverjir koma og hvers vegna?

Ef marka má umræður síðustu daga og vikna mætti ætla að á flugvöllum Evrópu biðu nú þúsundir manna frá Rúmeníu og Búlgaríu eftir flugfari til Íslands. Hingað komnir myndu þeir annaðhvort leggjast upp á félagsmálayfirvöld eða gleypa við tilboðum um að skúra á nóttunni fyrir 200 kall á tímann, svart að sjálfsögðu. Að þeim frátöldum sem færu um í hópum og nauðguðu konum.

 

Eins og allir sjá sem vilja á þessi mynd ekki við nokkur rök að styðjast. Eflaust eru þeir fjölmargir íbúar Búlgaríu og Rúmeníu sem vildu gjarnan fá vinnu á þeim kjörum sem hér eru í boði og búa við það velferðarkerfi sem hér hefur verið byggt upp. En fæstum stendur það til boða. Fyrir það fyrsta hafa sárafáir íbúar þessara fátæku landa efni á því að kaupa sér flugmiða til Íslands upp á von og óvon. Það er ekki þannig sem fólk frá Austur-Evrópu kemur til Íslands.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem koma hingað til lands koma eftir tveimur leiðum. Stærsti hlutinn kemur vegna þess að íslensk fyrirtæki hafa haft samband við starfsmannaleigu eða annað fyrirtæki sem hefur milligöngu um að ráða fólk til vinnu milli landa. Hinn hópurinn kemur fyrir tilstilli þeirra sem þegar eru fluttir til landsins og búnir að koma sér fyrir. Maður þekkir mann sem útvegar vini eða ættingja vinnu áður en lagt er upp í ferðina hingað til lands.

Eflaust koma einhverjir hingað á eigin vegum í atvinnuleit eða eru gerðir út af mafíunni til ljósfælinna verka en þeir eru í miklum minnihluta.

 

Löngu gjaldþrota samfélög

 

En úr hvaða samfélagi kemur það fólk sem flutt hefur hingað til lands frá Austur-Evrópu á undanförnum árum? Hvað rekur það alla leið til Íslands í leit að vinnu og betri kjörum? Um það er ekki hægt að alhæfa því aðstæður hvers og eins eru einstakar. Þó eiga þeir ýmislegt sameiginlegt. Íbúar ríkjanna tíu sem bæst hafa við Evrópusambandið frá 1. maí 2004 eiga til að mynda þá fortíð sameiginlega að þau tilheyrðu öll áhrifasvæði Sovétríkjanna fram til 1990 eða svo.

Pólland er að mörgu leyti gott dæmi um þetta. Þegar undirritaður var á ferð þar fyrir tveimur árum rann það upp fyrir honum að þótt Sovétveldið hefði verið við lýði að nafninu til fram til 1989 þá var það efnahagslega og félagslega löngu orðið gjaldþrota. Upp úr 1970 var allur vindur úr efnahagslífinu eins og sést á því að í Póllandi hófst andóf gegn stjórnvöldum á seinni hluta þess áratugar, fyrst og fremst vegna þess að fólk gat ekki lifað af laununum sínum og að í búðunum var engan mat að hafa.

Atvinnulíf ríkjanna í austanverðri Evrópu var byggt upp að fyrirskipan Moskvuvaldsins eftir síðari heimsstyrjöld rétt eins og iðnbyltingin væri að hefjast. Þungaiðnaður var ríkjandi og framleiðslutækin gamaldags. Þegar kom fram yfir 1970 var farið að gera kröfur um umhverfisvernd og vörugæði sem þessi samfélög gátu ekki mætt. Efnahagurinn var þá orðinn svo bágborinn að fjárfestingar í nýjum tækjum og viðhald mannvirkja sat á hakanum. Þegar múrinn fellur loksins og hinir sovésku valdhafar gefast upp standa samfélögin uppi með gersamlega úrelt atvinnulíf.

Iðnfyrirtækin voru svo illa leikin að í flestum tilvikum var rekstri þeirra sjálfhætt. Það var einfaldlega ekki upp á þau púkkandi. Þetta gilti ekki einungis um risastórar eiturspúandi stálverksmiðjur heldur fjölmörg smærri og meðalstór iðnfyrirtæki um allt land. Ég kom í lítið þorp í austurhluta Póllands þar sem stór hluti bæjarbúa hafði lifað af þjónustu við landbúnaðinn eða unnið í stórri hellusteypu. Nú er landbúnaðurinn í miklum þrengingum og hellusteypan farin á hausinn. Það var því engin furða þótt íbúarnir leituðu til annarra landa eftir vinnu.

 

Atvinnumiðlun pólsku kvennanna

 

Það eru þó ekki allir sem hafa þann kjark, dugnað og tækifæri sem þarf til að yfirgefa fjölskyldu sína og setjast að í ókunnu landi. Neyðin keyrir menn vissulega áfram en það þarf sambönd til þess að gera Íslandsferð að veruleika. Í þessu sama þorpi er víða töluð íslenska vegna þess að stór hluti þorpsbúa hefur starfað á Íslandi um lengri eða skemmri tíma. Það má fyrst og fremst þakka tveimur konum úr þorpinu en önnur þeirra kynntist íslenskum sjómanni á áttunda áratugnum og fluttist með honum hingað til lands. Þegar hún var búin að koma sér fyrir sá hún að hér voru ýmis tækifæri svo hún fór að hóa í vini sína og vandamenn og benda þeim á að hún gæti útvegað þeim vinnu. Hin konan var einmitt vinkona hennar og hún sagði mér þegar ég hitti hana ytra að hún hefði haft milligöngu um að útvega 36 landsmönnum sínum vinnu á Íslandi.

Atvinnuástandið í Póllandi er fremur bágborið en er þó heldur að lagast. Nú eru atvinnulausir tæplega fimmtungur vinnufærra manna en vandinn er sá að atvinnuleysinu er misskipt milli landshluta og starfsgreina. Landbúnaðurinn hefur verið að rétta úr kútnum en það hefur gerst með fjárfestingum erlendis frá og þær hafa í för með sér aukna vélvæðingu og sjálfvirkni sem eykur á atvinnuleysið til sveita. Annar stór hópur atvinnulausra eru starfsmenn í iðnaði, bæði ófaglærðir og iðnaðarmenn. Vissulega er fjárfest víðar en í landbúnaði en það er þó ekki í hefðbundnum iðnaði. Ný störf verða fyrst og fremst til í þjónustugreinum og í borgunum, ekki á landsbyggðinni.

 

Þeir sem þora, vilja og geta

 

Einn vandi fylgir arfleifð sovéttímans sem er eflaust til í öllum löndum Austur-Evrópu. Þrúgandi og alltumlykjandi ríkisrekstur   leiddi til þess að langstærsti hluti landsmanna starfaði hjá ríkinu. Þegar einkavæðingin hófst náði hún alls ekki til allra ríkisfyrirtækja, mörg þeirra hættu einfaldlega rekstri eða voru lögð niður. Í Póllandi náði hún til dæmis ekki til samyrkjubúa í landbúnaði en á þeim vann um það bil fimmtungur allra starfsmanna í pólskum landbúnaði. Þetta er fjölmennur hópur því í Póllandi var stundaður mannaflafrekur kotbúskapur sem ríflega fjórðungur landsmanna hafði lifibrauð sitt af.

Starfsmenn samyrkjubúanna voru því fjölmennur hópur, allt að tveimur milljónum manna, en munurinn á honum og öðrum þeim sem störfuðu í landbúnaði var sá að þegar sovéska ríkiskerfið hrundi reyndi þetta fólk ekki að bjarga sér. Það situr margt enn á sínum stað, dregur fram lífið á smánarlegum bótum frá ríkinu og bíður þess að nýr yfirmaður komi og segi því hvað það eigi að gera.

Þetta fólk er ekki á leiðinni til Íslands, ekki fremur en annað fátækt, menntunar- og atvinnulaust fólk úr Austur-Evrópu. Þeir sem koma hingað eru þeir sem þora, geta og vilja bjarga sér, oftast fólk með einhverja fagmenntun eða reynslu úr atvinnulífinu sem gerir það gjaldgengt á Vesturlöndum. Ég varð var við það að Pólverjar höfðu sumir hverjir áhyggjur af brottflutningi fólks til Vesturlanda. Það hafði ekki áhyggjur af trésmiðunum eða verkamönnunum sem fóru heldur læknunum og hjúkrunarfræðingunum og öðru menntafólki sem getur notað menntun sína hvar sem er.

Það eru nefnilega þarfir og kröfur atvinnulífsins á Vesturlöndum sem lokka Pólverja til útlanda og stjórna straumi fólks úr Austur-Evrópu til vesturs.

ÞH