Húsasmíðin vinsæl en enginn að læra bifvélavirkjun

Norður í Eyjafirði er starfræktur Verkmenntaskólinn á Akureyri og töluverður hópur iðnaðarmanna útskrifast þaðan á hverju ári. Nám í þeim fögum sem heyra undir starfssvið Samiðnar er einkum í tveimur deildum: byggingardeild og málmiðnum. Þá eru starfræktar deildir fyrir rafiðnir, vélstjórn, matvælanám og listnám, auk bóklegra greina til stúdentsprófs.

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari VMA segir að aðsóknin sé langmest í byggingardeildina og þá einkum trésmíði en nú stunda á annað hundrað nemendur nám í húsasmíði og húsgagnasmíði við skólann. Önnur fög við deildina eru málun, dúklagnir og veggfóðrun, múrsmíði og pípulagnir. Að sögn Hjalta Jóns eru nemendur teknir inn í málun annað hvert ár og er aðsókn talsverð en fáir stunda nám í múrverki og pípulögnum. Málmgreinarnar eiga einnig undir högg að sækja og hefur aðsókn í þær farið minnkandi. Rafvirkjun og rafeindavirkjun njóta hins vegar vinsælda.
Aðspurður segir Hjalti Jón að ekki sé boðið upp á nám í bifvélavirkjun við skólann þótt vilji sé fyrir því. Ástæðan er sú að fyrir allmörgum árum var ákveðið að einskorða það nám við Borgarholtsskóla í Reykjavík. Það hefur leitt til þess að nú eru engir nemendur á samningi hjá bílaverkstæðum við Eyjafjörð. Fyrirtæki í bílgreinum hafa gert samning við Borgarholtsskóla og framhjá honum virðist vera erfitt að komast. Það er þó til skoðunar hvort ekki sé hægt að taka upp nám í bifvélavirkjun nyrðra. Það sama gildir um hársnyrtigreinarnar. Að sjálfsögðu snýst þetta einnig um pláss því þótt skólinn búi við ágætan húsakost er ekki hægt að bæta endalaust við hann án þess að auka við húsnæði.
Hjá VMA er í boði meistaraskóli og geta nemendur stundað hann í fjarnámi. Það sama gildir raunar um bóklegar greinar iðnnáms og kjósa sumir nemendur þá leið, enda er hún góður kostur fyrir fjölskyldufólk. Þeir sem stunda fjarnámið þurfa þó að mæta nokkrum sinnum á vetri í skólann.
Hér vantar hátækniiðnnám
 
Þegar Hjalti Jón var spurður hvernig honum litist á framtíðina í iðnnámi hér á landi sagði hann að það væri nám fyrir þá sem vilja starfa í hátækniiðnaði. Hann hefur kynnt sér skóla í Þýskalandi þar sem menn eru komnir mjög langt í að þróa það nám. Það sem hann á við er fjölþætt iðnnám samsett úr tölvu- og rafeindatækni, véltækni og fleiri þáttum.
„Þarna erum við á eftir öðrum þjóðum og það má merkilegt heita að atvinnulífið kallar ekki á svona nám. Samt eru hér starfandi ýmis öflug fyrirtæki á þessu sviði, ég nefni Marel sem dæmi. Þessi fyrirtæki hafa ráðið til sín iðnaðarmenn í öðrum greinum og þjálfað þá upp hjá sér. Það hlýtur að vera dýrt fyrir þau og hamla vaxtarmöguleikum þeirra að geta ekki gengið að menntuðu vinnuafli sem kann á þann hátæknibúnað sem þau nota. Sumt af þessu námi á eflaust heima á háskólastigi en það hlýtur að vera íhugunarefni fyrir stjórnvöld og starfsgreinarnar hvort ekki væri rétt að efla slíkt nám hér á landi, einnig á framhaldsskólastigi,“ sagði Hjalti Jón Sveinsson skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.
–ÞH