Fjórar fræðslumiðstöðvar sameinast undir merkinu IÐAN – fræðslusetur

Iðan – fræðslusetur ehf. varð til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu í vor. Eigendur Iðunnar eru Samtök iðnaðarins, Samiðn, Matvís, Félag bókagerðarmanna og Samtök ferðaþjónustunnar. Þessir aðilar hafa um árabil verið bakhjarlar fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði: Menntafélags byggingariðnaðarins, Fræðslumiðstöðvar málmiðnaðarins, Prenttæknistofnunar og Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina.
 
Þessi samruni er í takt við þróunina í atvinnulífinu. Hagsmunagæsla og þjónusta við fyrirtæki er í minnkandi mæli tengd atvinnuvegum eða einstökum starfsgreinum heldur er lögð áhersla á sambærileg skilyrði fyrir öll fyrirtæki. Meðal slíkra skilyrða er gott aðgengi að vel menntuðu og færu starfsfólki.
Hlutverk Iðunnar er því fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í byggingar-, málm-, og prentiðnaði og matvæla- og veitingagreinum.
Í samstarfssamningi stofnaðila er kveðið á um að Iðan skuli starfrækja sí- og endurmenntun og jafnvel meistaranám. Iðan tekur þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum um hæfni í iðnaði og iðnmenntun og hefur forystu um samskipti við stjórnvöld í fræðslumálum viðkomandi greina. Stofnaðilar vilja sjá Iðuna vinna eftirfarandi verkefni á næsta áratug:
 
l Iðan býður fjölbreytt nám á framhalds- og háskólastigi.
l Iðan greinir þarfir iðnaðarins fyrir þekkingu starfsmanna. Fyrirtæki gera ráð fyrir Iðunni við uppbyggingu eigin starfsmannastjórnunar.
l Iðan annast þróunarstarf fyrir menntamálaráðuneytið í iðn- og starfsmenntun.
l Iðan annast ráðgjöf í fyrirtækjum,
aðstoðar við að móta menntastefnu og starfsþróun.
l Upplýsingatorg Iðunnar veitir upplýsingar um iðnnám, símenntun iðnaðarmanna og annað nám sem varðar iðnaðinn. IÐAN tekur við upplýsingavefnum www.idan.is um nám og störf, en honum komu Samtök iðnaðarins á legg og hafa rekið undanfarin ár.
 
Með sameiningu fjögurra fræðslumiðstöðva í eina er komið tækifæri til að þjóna hlutaðeigandi greinum með miklu markvissari hætti en verið hefur. Daglegur rekstur og skrifstofuhald er nú á einni hendi. Þá geta menn nú sameinast um meiri straumlínulögun í úrvinnslu verkefna. Verkefni sem áður voru unnin með ýmsum hætti hjá einstaka fræðslumiðstöðvum eru nú á einni hendi. Þá er einkum um að ræða samskipti við menntamálaráðuneytið og iðn- og verkmenntaskóla. Með stofnun Iðunnar er kominn öflugur grunnur fyrir hvers konar kynningarstarf. Eins má nefna að breiður starfsgrundvöllur Iðunnar gefur færi á því að laða fleiri starfsgreinar til samstarfs í menntamálum.
Meðal helstu verkefna og eða nýjunga á sviðunum fjórum má nefna:
 
Prenttæknisvið Iðunnar
 
Á síðustu árum hefur stafræna byltingin í myndvinnslu gerbreytt starfsháttum þeirra sem vinna við prentiðnað, og ljósmyndarar, hönnuðir og prentsmiðir vinna nær eingöngu með stafræn gögn og tæki. Þekktasta forrit myndvinnslunnar er Photoshop sem sumir telja jafnmikilvæga uppfinningu og filmuna á sinni tíð. Prenttæknisvið Iðunnar stóð fyrir Íslandsheimsókn Bens Willmores, eins af þekktustu photoshop-gúrúum heims í byrjun október, þar sem fagmönnum í myndvinnslu, hönnuðum, prentsmiðum og öðrum gafst kostur á að sitja tveggja daga námskeið með manni sem einn af aðalverkfræðingum NASA sagði að hefði flutt besta photoshop-námskeið sem hann hefði setið. Tugir þúsunda einstaklinga, allt frá byrjendum til starfandi fagmanna, hafa setið námskeið hjá Willmore og ber saman um að honum takist að svipta hulunni af virkni þessa magnaða forrits.
 
Bygginga- og mannvirkjasvið Iðunnar
 
Ein af nýjungum á Bygginga- og mannvirkjasviði er nám fyrir ófaglært starfsfólk sem vinnur í byggingariðnaði.
Við mannvirkjagerð starfar fjöldi manna sem ekki hefur iðnréttindi en sinnir ýmsum sérhæfðum störfum og gert er ráð fyrir að þeim fjölgi mikið á næstu árum. Vegna aukinna krafna atvinnulífsins er nú boðið upp á nám sem byggist á starfsþjálfun og sérhæfingu á vinnustað ásamt þátttöku í námskeiðum. Þannig geta þeir náð betra valdi á starfi sínu og starfsumhverfi og styrkt stöðu sína á vinnumarkaði til framtíðar. Námið eflir samkeppnishæfni og framleiðni fyrirtækja að sama skapi.
 
Matvæla- og veitingasvið Iðunnar
 
Eitt af þeim verkefnum sem unnið er að á Matvæla- og veitingasviði Iðunnar þessa dagana nefnist „Sérstök matargerð“. Markmið verkefnisins er að hanna og semja námsefni fyrir sérfæði sem ætlað verður til kennslu í framhaldsskólum og á endurmenntunarnámskeiðum. Efnið nýtist jafnframt öllum þeim sem matreiða sérfæði, bæði fagfólki og almenningi.
 
Málm- og véltæknisvið Iðunnar
 
Þekkingarframboð sviðsins byggist á námskeiðaflokkum frekar en einstökum námskeiðum. Hver flokkur námskeiða hefur það markmið að ná yfir ákveðin þekkingarsvið þannig að þeir iðnðaðarmenn sem tileinka sér efni allra námskeiðanna teljast búa yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til að kallast fullfær iðnaðarmaður á hinu tiltekna sviði. Þegar er búið að semja slíka pakka í vökvatækni, loftræsitækni og málmsuðu. Nú er unnið að því að útbúa námskeiðaflokk fyrir kælitækni og verður fyrsti hluti hans á boðstólum í byrjun næsta árs.

Iðan hefur aðsetur á Hallveigarstíg 1. Starfsmenn hennar eru 13 talsins. Framkvæmdastjóri Iðunnar er Hildur Elín Vignir.