Vinnutími, vinnuhlé o.fl.

 

2.1       Vinnutími

 

2.1.1    Vinnuskylda

 

            Föst laun hvers starfsmanns samkvæmt samningi þessum svara til þess að hann gegni starfi 40 stundir á viku.  Virkur vinnutími dagvinnu­manns er skemmri sem svarar kaffitímum samkvæmt samningum.

 

2.1.2    Virkur vinnutími

 

            Virkur dagvinnutími skal vera 37,08 stundir á viku, en virkur vinnutími vakta­vinnumanna á reglubundnum vöktum allan sólarhringinn skal vera 36,0 stundir á viku.

 

2.1.3    Tímamörk dagvinnu

 

            Dagvinnumenn gegna störfum 8 stundir á dag, mánudaga til og með föstu­daga, að frátöldum matartímum.  Tímamörk dagvinnu eru frá kl. 07:00 – 17:00.

 

2.1.4    Breyting daglegrar vinnu

 

            Ákveða skal upphafs- og lokatíma daglegrar vinnu með samkomulagi Lands­virkjunar og starfsmanna er hlut eiga að máli með staðfestingu hlut­að­eigandi verkalýðsfélaga.

 

2.2       Matar- og kaffitímar

 

2.2.1    Kaffitímar á dagvinnutímabili

 

            Kaffitímar skulu vera tveir; morgunkaffitími 15 mínútur og síðdegis­kaffitími 20 mínútur.  Matarhlé skal vera á tímabilinu 12:00 – 13:00.  Matar­hlé telst ekki hluti vinnutíma.

 

2.2.2    Kaffi- og matartímar í yfirvinnu

 

            Ef unnin er yfirvinna skulu fyrstu 15 mínúturnar teljast kaffitími.  Í yfir­vinnu skulu matarhlé vera kl. 19:00 – 20:00 og kl. 02:00 – 03:00.  Kaffi­hlé skulu vera kl. 22:00 – 22:15 og kl. 05:00 – 05:15 og síðustu 15 mín­úturnar áður en dagvinna hefst.  Sé unnið á helgidögum skulu matar- og kaffihlé vera þau sömu og á virkum dögum. Kaffi- og matarhlé eða hlut­ar úr þeim sem falla inn í vinnutímabil í yfirvinnu, reiknast sem vinnu­tímar.  Sé unnið í þeim skal greiða til viðbótar vinnutímanum og með sömu launum 15 mín. fyrir hvert kaffihlé og 1 klst. fyrir hvert matar­hlé og skal það einnig gert þó skemur sé unnið.

 

2.2.3    Vinna fram að kaffi- og matartímum í yfirvinnu

 

            Sé unnið fram að matar- og kaffitíma í yfirvinnu, skal greiða þá matar- og kaffitíma til viðbótar skráðum vinnutíma.  Undanskilinn er kaffi­tíminn í byrjun yfirvinnu og matartíminn kl. 19:00 – 20:00.

 

2.3       Stefna samninganna að því er varðar yfirvinnu

 

            Samningar þessir miðast við þá sameiginlegu stefnu samningsaðila að tak­marka yfirvinnu sem kostur er.

 

2.4       Yfirvinna, helgidagar og stórhátíðardagar

 

            Öll vinna umfram reglulegan dagvinnutíma telst yfirvinna.  Yfirvinna telst auk laugar­daga og sunnudaga og annarra helgidaga þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og fyrsti mánudagur í ágúst.

            Stórhátíðarvinna telst vinna á nýársdag, föstudaginn langa, páskadag, hvíta­sunnudag, 17. júní og jóladag, en á aðfangadag og gamlaársdag eftir kl. 12:00.

 

2.5       Útkall

 

            Greiðsla fyrir hvert útkall skal vera 4 klst. hið minnsta sé kallað út utan venju­legs vinnutíma.  Ávallt skal greiða við útkall einni klst. lengur en unnið er.

            Útkall telst öll kvaðning til yfirvinnu, sem fram fer utan reglubundins vinnu­tíma. Sé starfsmaður boðaður af sínum yfirmanni til yfirvinnu með skemmri fyrir­vara en 24 klst. skal ætíð greiða 1 klst. lengur en unnið er.

 

2.6       Matar- og kaffitímar vaktavinnumanna

 

2.6.1    Takmörkun matar- og kaffitíma

 

.           Starfsmenn í reglubundinni vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- eða kaffi­tíma.  Kaffitími, 15 mínútur í upphafi yfirvinnu í framhaldi af vakt greið­ist aukalega, ef unnin er.

 

2.6.2    Matar- og kaffitímar á aukavöktum

 

            Vaktavinnumenn fái greiðslu eins og dagvinnumenn fyrir aukavakt m.t.t. matar- og kaffitíma, sem greiðast.  Dagvinnumenn fái greiðslu eins og vaktavinnumenn fyrir aukavakt, að því leyti sem slík aukavakt fellur utan dagvinnutíma.

 

2.7       Lágmarkshvíld

 

2.7.1    Tilhögun vinnutíma

 

            Vinnutíma skal haga þannig á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnu­dags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld.  Verði því við komið, skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23.00 til 06.00.  Jafn­framt vísast til samnings ASÍ og VSÍ frá 30. desember 1996 um skipu­lag vinnutímans.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst.

 

2.7.2    Frávik og frítökuréttur

 

Lengja má vinnulotu í allt að 16 klst. Verði því við komið skal starfs­maður fá 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra launa.

Fái starfsmaður ekki 11 klst. hvíld á sólarhring m.v. venjubundið upp­haf vinnudags (vinnusólarhringinn) skal veita uppbótarhvíld sem hér segir: Sé starfsmaður sérstaklega beðinn að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð ber honum uppbótarhvíld sem nemur 1½ klst. (dagvinna) fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum.

            Vinni starfsmaður það lengi á undan hvíldardegi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags reiknast frítökuréttur skv. 2. mgr.

Komi starfsmaður til vinnu á hvíldardegi er greitt fyrir unninn tíma auk þess sem frítökuréttur reiknast skv. 2. mgr.

Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.

Áunninn frítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur einum vinnudegi á föstum launum.

Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launa­seðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrir­tækis í samráði við starfsmenn. Við starfslok skal ónýttur frítöku­réttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.

 

Útköll

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu eftir að venjulegum vinnudegi er lokið skal fara með eins og hér segir:

Ljúki útkalli fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringnum).

Ef útkalli lýkur á tímabilinu 00:00 – 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.

 

2.7.3    Hvíld undir 8 klst.

 

Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða ann­arra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir veru­legt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst.

            Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar skv. gr. 2.7.2., fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.

 

2.7.4    Vikulegur frídagur

 

Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.

 

2.7.5    Frestun á vikulegum frídegi

 

Þegar ekki er unnið í vaktavinnu skal almennt miða við að vikulegur frí­dagur sé á sunnudegi og að allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi.

Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum.

Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum hvíldar­tíma lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga.

Falli frídagar á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.

Vinna aðfararnætur frídaga

            Sé fyrirfram ákveðin vinna unnin aðfararnætur frídaga skal greiða 0,5 klst. í dagvinnu fyrir hvern unnin tíma á tímabilinu 00.00 til 08.00.

 

2.7.7    Uppsöfnun frídaga

Heimilt er með samkomulagi að starfsmenn safni allt að 5 frídögum á ári vegna yfirvinnu á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar en yfirvinnuálagið sé greitt út næsta útborgunardag.  Þeir sem vilja nýta sér þennan rétt skulu í samráði við fyrirtækið ákveða hvenær frí skal tekið.

Dæmi um útfærslu frítökuréttar skv. gr. 2.7

Dæmi 1:

Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 08:00. Hann fær einungis 6 klst hvíld. Skv. kjarasamningi á hann inni frítökurétt 11 – 6 eða 5 x 1,5 klst = 7,5. Skv. 2. mgr. gr. 2.4.3. fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst.). Sama gildir ef frídagur er daginn eftir.

 

Dæmi 2:

Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 13:00. Hann fær 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er því enginn. Skv. 2. mgr. gr. 2.4.3. fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst. innan sólarhringsins)

 

Dæmi 3:

Starfsmaður vinnur í einn sólarhring, eða frá kl. 08:00 til 08:00 og fer þá heim að sofa. Ef það er vinnudagur daginn eftir ávinnst enginn frítökuréttur. Starfsmaður heldur þá föstum launum þann dag. Skv. viðbótarreglunni hér að ofan fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 8 klst. í yfirv. (vegna 0 klst. hvíldar í stað 8 klst. innan sólarhringsins). Sé hins vegar frídagur daginn eftir á starfsmaður inni einn frídag á föstum launum (áunnin frítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur ekki orðið meiri en sem nemur 1 degi á föstum launum, sbr. 5. mgr. gr. 2.4.2.).

 

Dæmi 4:

Starfsmaður vinnur 32 klst. samfellt, eða frá 08:00 til 16:00 næsta dag. Til viðbótar unnum tímum fær hann 8 klst. í yfirvinnu sbr. dæmi 3 auk þess sem hann ávinnur sér frídag á föstum daglaunum (vantar 11 klst. upp á hvíldina en frítökurétturinn takmarkast þó við laun í einn dag sbr. 5. mgr. gr. 2.4.2.)

 

Dæmi 5:

Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 21:00 til 23:00. Útkallinu lýkur fyrir miðnætti og því öðlast hann ekki frítökurétt þar sem samanlögð hvíld nær 11 klst.

 

Dæmi 6:

Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá 01:00 til 03:00. Hann kemur aftur til vinnu kl. 08:00. Lengsta hvíld er 8 klst. og því vantar 3 klst. upp á 11 klst. hvíldina. Frítökuréttur er því 4,5 klst. (3 klst. x 1,5).

 

Dæmi 7:

Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til 19:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 01:00 til 03:00. Hann er beðinn um að koma til vinnu kl. 08:00 næsta dag. Þótt samanlögð hvíld nái 11 klst. þá gildir sú regla ekki því útkallinu lýkur eftir miðnætti. Lengsta hlé er 6 klst. og því vantar 5 klst. upp á 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er 7,5 klst. (5 klst x 1,5) en að auki skal greiða 2 klst. í yfirvinnu þar sem að 2 klst vantaði upp á að 8 klst. samfelldri hvíld væri náð.

 

2.8       Breytingar á vinnufyrirkomulagi

 

            Ef nauðsynlegt reynist af rekstrarástæðum að breyta vinnufyrirkomulagi, skal slíkt tilkynnt með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara, og skulu þá aðilar taka upp við­ræður sín á milli um breytinguna, ef ástæða þykir til.  Aðilar skulu leitast við að ná samkomulagi um breytinguna.  Samsvarandi gildir, ef taka á upp nýtt vinnu­fyrirkomulag á heilum vinnustað eða hluta hans.

 

2.9       Kallvaktir

 

            Með samþykki starfsmanns er heimilt að láta hann gegna kallvakt eina viku í senn.  Starfsmanni er þá skylt að vera tiltækur í síma og reiðubúinn að gegna kalli svo fljótt sem verða má.

 

2.10     Tímabundin ráðning eða ráðning hluta úr starfi

 

            Tímabundin ráðning starfsmanns skal aldrei vera til skemmri tíma en átta stunda í senn í dagvinnu eða fjögurra stunda í yfirvinnu.  Starfsmaður sem ráð­inn er hluta úr degi, skal taka hlutfallslega laun miðað við vinnutíma fastra starfsmanna.

 

2.11     Skráning vinnutíma

 

            Starfsmaður gegnir starfi sínu frá þeirri stundu sem hann skráir sig vinnu­klæddur til starfa við upphaf vinnutíma og þar til hann afskráir sig vinnu­klæddur með sama hætti í lok vinnutíma, að frádregnum matartímum á dag­vinnutíma eftir því sem við á skv. samningum.