Fundur Norræna byggingamannasambandsins

Fulltrúar Norræna byggingamannasambandsins (NBTF) eru hér á landi og heimsóttu Samiðn á reglulegum fundi norrænu sambandanna.  Á dagskrá fundarins voru m.a. málefni erlendra starfsmanna og þá sérstaklega drög að þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem felur í sér hvort launakjör heimalandsins eða gistilandsins skuli ráða fyrir þá starfsmenn sem flytjast á milli landa.  Ekki hefur endanlega verið skorið úr um hvort fyrirkomulagið skuli gilda, en margt bendir til að áherslur verkalýðshreyfingarinnar munu verða ofan á þ.e. að kjör gistilandsins skuli ráða.  Niðurstaða málsins skiptir miklu máli fyrir okkur Íslendinga þar sem það opnar á frekari útfærslur fyrir stéttarfélögin við að bæta kjör erlends starfsfólks hér á landi og þá sérstaklega hvað varðar aðgang að upplýsingum og allt eftirlit með kjörum þess.

Þá var rætt um framhald og útfærslur á Eystrasaltsverkefninu sem samböndin standa að og felur í sér aðstoð við að efla stéttarfélögin í Eystrasaltslöndunum.  Norrænu samböndin hafa verið í sambandi við norræn fyrirtæki sem eiga dótturfyrirtæki í Eystrasaltslöndunum og reynt að beita kröftum sínum í þá veru að kjör starfsfólksins verði bætt.