Heimir Bj. Janusarson skrifar
Garðyrkjuskóli ríkisins hefur verið starfræktur á Reykjum í Ölfusi frá árinu 1939 en virðist nú vera á leið úr byggðarlaginu samkvæmt skipulagshugmyndum landbúnaðarráðuneytisins.
Garðyrkjuskólinn var felldur inn í Landbúnaðarháskóla Íslands, LBHÍ, fyrir tæpum tveimur árum. Samkvæmt skipuriti (námskrá) LBHÍ er garðyrkjumenntunin algjört olnbogabarn þar á bæ. Einnig hefur endurmenntun sem var með miklum blóma fyrir sameiningu nánast lagst af.
Í gegnum árin hefur verið mjög gott og náið samstarf milli skólans og starfsgreinarinnar í heild. Hafa félög og einstaklingar verið óþreytandi að koma á Reyki til funda um menntamál eða á námskeið, til að kenna eða halda fyrirlestra. Á allt þetta samstarf hefur verið klippt og telur yfirstjórn LBHÍ sig yfir það hafna að eiga samstarf við starfsgreinina. Til dæmis hefur verið skipuð nefnd sem vinna á að framtíðarmótun garðyrkjunáms. Ekki var leitað til starfsgreinarinnar um skipun í þessa framtíðarnefnd, en hún er að meirihluta skipuð fólki sem virðist ekki vera í neinum tengslum við garðyrkju miðað við erindi sem nefndin sendi frá sér nýverið.
Þykir okkur einsýnt að niðurstaðan verði að Reykjajörðin verði seld og andvirðið notað til þess að byggja á Hvanneyri, þar sem aðalstöðvar LBHÍ eru.
Á hátíðastundum hefur landbúnaðarráðherra lofað göfgi garðyrkjunnar og að vissulega verði byggt upp í kringum garðyrkjunámið á Reykjum. Lítil innistæða virðist hins vegar vera fyrir orðum ráðherrans. Húsakostur á Reykjum er orðinn lélegur og augljós nauðsyn þess að byggja upp nýja aðstöðu fyrir garðyrkjunámið.
Starfsfólk á Reykjum og nemendur hafa búið við óvissu um framtíð staðarins í tæp tvö ár. Þessi óvissa hefur sett mark sitt á skólastarfið. Nú er búið að bæta við yfirlýsingar að „vissulega þurfi að gera hagkvæmnisathugun á því hvor kosturinn verði fyrir valinu, Hvanneyri eða Reykir“. Allir vita að hægt er að reikna sig að fyrirframgefnum niðurstöðum. Óvíst er að tekin verði inn í þá útreikninga hin langa saga garðyrkjumenntunar á Reykjum, það umhverfi sem skólinn er í og sú menning sem tilvist skólans í héraðinu hefur alið af sér, en á Suðurlandi slær hjarta íslenskrar garðyrkju. Það er eindreginn vilji atvinnugreinarinnar að framtíðaruppbygging íslenskrar garðyrkjumenntunar verði á Reykjum í Ölfusi.
Garðyrkjuskólinn á Reykjum er ein af helstu ímyndum Suðurlands. Hann hefur um áratugaskeið verið grundvöllur þekkingar og þróunar í íslenskri garðyrkju. Starfandi garðyrkjubændur, starfslið stöðvanna, fagfólk í skrúðgarðyrkju, landslagsarkitektar og starfsfólk umhverfisdeilda sveitarfélaga, svo nokkuð sé nefnt, hafa aflað sér menntunar við skólann um áratuga skeið og þar er rekin tilraunastöð garðyrkjunnar. Þangað hafa ráðamenn farið með erlenda gesti og þangað streyma þúsundir manna sumardaginn fyrsta ár hvert, á opnum degi skólans.
Í ljósi reynslunnar var innlimun Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Landbúnaðarháskóla Íslands ef til vill mistök, allavegana hafa þau tækifæri sem sameiningin skapaði ekki verið nýtt garðyrkjumenntun til hagsbóta.