Misskiptingin er að stórum hluta heimatilbúin

Rætt við Stefán Ólafsson prófessor um aukinn ójöfnuð í samfélaginu sem hnattvæðingunni er oft kennt ranglega um

Það hefur gustað nokkuð um Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði að undanförnu. Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að auka á misskiptinguna með aðhaldi í velferðarkerfinu og breytingum á skattkerfinu sem gagnist fyrst og fremst hinum tekjuhærri í samfélaginu. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa tekið þetta óstinnt upp og sakað hann um pólitíska hlutdrægni og óvönduð vinnubrögð. Minna hefur þó farið fyrir rökum sem styðja málflutning stjórnarliða og Stefán hlotið stuðning úr óvæntum áttum, svo sem frá ríkisskattstjóra.

Blaðamaður Samiðnarblaðsins sótti Stefán Ólafsson heim á skrifstofu hans í Odda til að ræða rannsóknir hans á þróun íslenska velferðarkerfisins. Hann sýndi blaðamanni meðal annars súlurit sem hann ætlar að birta á næstunni en þar kemur fram hvernig tekjubilið milli þeirra sem lægstu launin hafa og hinna sem best eru stæðir hefur þróast undanfarinn áratug.
„Ég skipti þjóðinni í tíu flokka eftir tekjum og skoðaði hvernig bilið á milli hæstu og lægstu tíundarinnar hefur þróast á árunum 1995–2004. Þá kom í ljós að bilið milli hæstu og lægstu tíundupartanna hafði aukist um 18% fyrir skatta. Það endurspeglar breytingar af völdum markaðarins, tekjubilið hefur verið að breikka. En þegar ég skoðaði þróunina hjá þessum tveimur hópum eftir skatta kom í ljós að bilið milli þeirra hafði þá vaxið um 40%. Þetta þýðir að breytingar á skattkerfinu, sem eru á ábyrgð stjórnvalda, höfðu aukið tekjubilið í þjóðfélaginu rúmlega helmingi meira en markaðurinn gerði fyrir skatt,“ segir Stefán. „Ríkisvaldið jók sem sé ójöfnuðinn meira en markaðurinn.“
Þegar rýnt er í súlurnar sést að kaupmáttaraukningin fyrir skatt er minnst í þremur lægstu flokkunum, það er hjá lægstu 30% tekjuþeganna. Stærsti hluti þjóðarinnar, fólkið með miðlungstekjurnar, hefur fylgst að í þróuninni og notið heldur meiri kaupmáttaraukningar en lægsti hópurinn. Hins vegar sker hæsta tíundin sig úr, bæði við aukningu tekna fyrir skatta en þó sérstaklega eftir skatta. Ástæðan fyrir þessari miklu hækkun hjá tekjuhæsta hópnum er einkum sú að fjármagnstekjur hafa aukist mjög ört en þær bera lægri skatta en launatekjur, en auk þess hefur hátekjuskatturinn verið lagður af.

Áhrifin frá umheiminum

Á síðastliðnu ári gaf Stefán út bók í félagi við Kolbein son sinn sem einnig er félagsfræðingur að mennt. Bókin nefnist Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag og er mikill hvalreki fyrir áhugamenn um stjórnmál og hagþróun. Þar lýsa þeir feðgar á einum stað áhrifum hnattvæðingarinnar á tekjuþróunina í heiminum. Þeir taka Bandaríkin sem dæmi og eftir að hafa lýst þróuninni þar benda þeir á að hér á landi hafi dregið úr ójöfnuði fram til 1995 en síðan hafi hann aukist og aukningin verið hraðari en í Bandaríkjunum. „Áhrifavaldar þess virðast þó frekar vera innlendir en erlendir,“ segja þeir. En hvernig greinir Stefán á milli utanaðkomandi og heimatilbúinnar misskiptingar?
„Almennt er talið að hnattvæðing auki líkurnar á misskiptingu tekna með útbreiðslu óheftari markaðshátta. Ef við lítum á tuttugustu öldina þá sést að tekjuskiptingin í ríku löndunum jafnaðist nokkuð lengi fram eftir öldinni. Í þessu gætti áhrifa velferðarkerfisins og skattkerfisins sem var yfirleitt þannig að skattarnir klipu meira í hærri tekjurnar en þær lægri. Markmiðið var ekki alger jöfnuður heldur að draga úr mesta ójöfnuðinum.
Árið 1980 virðist hafa verið tímamótaár í mörgum ríku landanna því þá fer þessi þróun að snúast við. Sums staðar hófst þetta fyrr og í öðrum löndum – til dæmis Íslandi – gerðist það síðar. Þetta er rakið til hnattvæðingarinnar öðru fremur. Það er fyrst og fremst aukin markaðsvæðing sem veldur en það var þekkt þegar á 19. öldinni að hún leiddi til aukinnar misskiptingar. Þetta gerist einkum þannig að launakjör í fátækari löndunum hafa áhrif á kjörin í ríkari löndunum. Í fyrsta lagi flytja fyrirtæki starfsemi sína til fátækari ríkja þar sem launin eru lægri, í öðru lagi flytja þau einstök verkefni til fátækari landa og í þriðja lagi flyst vinnuafl frá fátækari ríkjum til þeirra auðugri og þrýstir laununum þar niður.
Fyrir þessu höfum við fundið hér á landi, ekki bara vegna Kárahnjúkavirkjunarinnar heldur líka í mörgum öðrum greinum atvinnulífs og þjónustu. Þessi þróun á eftir að halda áfram og þunginn frekar að aukast.
En myndin er ekki bara svört því þetta gerist með misjöfnum hætti eftir samfélögum. Þar ráða mestu annars vegar aðgerðir stjórnvalda, hvort og í hvaða mæli þau reyna að halda við jöfnunarmætti velferðar- og skattkerfanna, og hins vegar gætir þarna áhrifa samtaka launafólks. Þar sem þau eru sterk gengur þessi þróun ekki eins langt og þar sem þau eru veik.“

Ólík þróun vestan hafs og austan

Stefán tekur dæmi af Bandaríkjunum þar sem verkalýðshreyfingin hefur verið að veikjast. „Nú eru innan við 10% launafólks þar í stéttarfélögum en fyrir aldarfjórðungi var þetta hlutfall á bilinu 20–25%. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið að ýta undir markaðsöflin og hemja hlutverk ríkisvaldsins og þar með velferðarkerfisins. Afleiðingin hefur verið sú að ójöfnuðurinn hefur aukist einna mest í Bandaríkjunum af öllum löndum heims. Kaupmáttur launa jókst í Bandaríkjunum fram á áttunda áratug síðustu aldar en lækkaði þá töluvert og hefur enn ekki náð því að komast aftur á sama stig og hann varð hæstur árið 1979.
Fræðimenn hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það hafi á þjóðfélagsgerðina að hagvöxturinn skilar sér ekki til almennings því það hefur verið töluverður hagvöxtur á þessum sama tíma. Hann hefur bara allur runnið til hátekjufólks. Almenningur bregst við með því að lengja vinnutíma sinn og atvinnuþátttaka kvenna hefur líka aukist hratt.
Í Evrópu hefur vinnutíminn hins vegar verið að styttast enda hefur kaupmátturinn haldist betur þar. Hagfræðingar hafa bent á að þetta hafi kostað Evrópubúa meira atvinnuleysi en Bandaríkjamenn en það er ekki einhlítt. Til dæmist hefur atvinnuástand á Norðurlöndum verið gott á undanförnum árum, ef frá er talið Finnland sem varð fyrir áfalli þegar Sovétríkin hrundu. Í Evrópu hefur velferðar- og skattkerfunum verið beitt til að halda í jöfnuðinn. Undantekningar frá þessu eru þó Bretland og Írland sem hafa fetað svipaða slóð og Bandaríkin þótt þróunin hafi ekki gengið alveg eins langt þar.“

Stjórnin eykur launamuninn

– Hvernig fellur Ísland að þessari mynd?
„Ytri áhrifin sem við finnum fyrir eru fyrst og fremst samkeppnisáhrifin frá erlendu vinnuafli. Innri áhrifavaldar eru aðallega stjórnarstefnan, hreyfing launafólks og velferðarkerfið. Augljósustu breytingarnar sem orðið hafa á undanförnum áratug eða svo eru á skattkerfinu. Aukinn launamunur sem hefur verið að birtast er að stórum hluta til kominn vegna breyttrar skattbyrði, hún hefur aukist mest hjá lágtekjufólki en lést hjá hinum tekjuhæstu sem í ofanálag hafa notið mestrar tekjuhækkunar fyrir skatt. Áhrif skattbreytinganna til ójöfnuðar eru meiri en áhrif markaðarins eins og ég nefndi áðan.
Það sem þarna er að verki er einkum tvennt. Hjá þeim hæstlaunuðu er það aukin virkni hlutabréfamarkaðarins sem veldur því að þessi hópur tekur æ stærri hluta tekna sinna inn sem fjármagnstekjur og þær bera 10% skatt meðan launatekjur bera tæplega 37% skatt. Hjá þeim lægstlaunuðu eru það skattleysismörkin sem valda því að æ stærri hluti teknanna lendir í því að bera skatt. Hvort tveggja eru ákvarðanir ríkisvaldsins og tengjast á engan hátt hnattvæðingunni.“

Hefði mátt sjá þetta fyrir

– Hvernig rímar þetta við þær yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að hún sé skattalækkunarstjórn?
„Þetta rímar engan veginn við þær. Þetta hefði mátt sjá fyrir þegar menn ákváðu að hætta að láta skattleysismörkin fylgja almennri launaþróun. Ég skal hins vegar ekki segja hvort stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi áttað sig á þessu, einhverjir hlutu þó að vita þetta þótt menn hafi kannski ekki gert sér grein fyrir hversu mikil áhrifin yrðu. Stjórnarandstaðan hefur rætt um að skattleysismörkin eigi að fylgja verðlagsþróuninni en það er alls ekki nóg. Ef hún gerir það samtímis því sem kaupmáttur eykst þá hækkar skattbyrðin sjálfkrafa og ójöfnuður eykst.
Stjórnarliðar hafa sagt að það sé bara eðlilegt að skatturinn aukist þegar launin hækka en það er heldur ekki rétt. Ef skattleysismörkin fylgja launaþróuninni færist skattbyrðin upp eftir launastiganum og allir standa í sömu sporum, tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins haldast þá einnig óbreytt. Á hinn bóginn eykst ójöfnuðurinn þegar skattleysismörkin dragast aftur úr.“
– En hvað um þróun velferðarkerfisins, hefur hún áhrif á þessa þróun?
„Já, ég hef sýnt fram á það að heildartekjur öryrkja hafa til dæmis ekki haldið í við meðaltekjurnar í þjóðfélaginu af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging almannatrygginga ekki hækkað jafnmikið og meðaltekjurnar og hins vegar hefur aukin skattbyrði lent af miklum þunga á öryrkjum. Skattbyrði heildartekna hjá einhleypum öryrkjum hefur vaxið úr 7% árið 1995 í 17% árið 2004, það er meira en tvöfaldast. Þetta vegur mjög þungt hjá fólki með mjög lágar tekjur og hefur étið upp mikið af öðrum ávinningi sem það hefur fengið, svo sem aldurstengdu uppbótinni sem samið var um árið 2003. Hún var í fyrra 22.000 krónur á mánuði hjá þeim sem nutu hennar til fulls en þegar búið var að draga af þeim skatt þá voru aðeins eftir um 3.000 krónur.“

Kannski ekki meðvitað, en …

– Er það meðvituð stefna stjórnarflokkanna að auka á ójöfnuðinn?
„Ég held að það sé meðvituð stefna þeirra að færa skattkerfið í átt til þess að hafa eina skattprósentu, lægri en nú er, en engin skattleysismörk. Þetta er draumsýn öfgafullra hægri manna og ég held að hún hafi náð eyrum ráðamanna. En ég trúi því ekki að það sé meðvituð ákvörðun að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu á þann hátt sem þessar hugmyndir hafa óhjákvæmilega í för með sér.
Eftir að hátekjuskatturinn var afnuminn erum við með flatan skatt þar sem skattleysismörkin eru eina tækið til tekjujöfnunar. Þegar þau rýrna eykst ójöfnuðurinn en ef þau hækka umfram launaþróunina vex jöfnuðurinn. Nú ættu skattleysismörkin að vera á bilinu 120–130 þúsund krónur ef þau hefðu fylgt launaþróuninni frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp fyrir tæpum tuttugu árum en þau eru um 79 þúsund kr. Það vantar um það bil 50 þúsund krónur upp í skattfrelsið sem áður ríki, hlutfallslega séð.
Ég held að svona breyting á skattkerfinu hefði ekki getað orðið annars staðar á Norðurlöndum öðruvísi en að öryrkjum og öðrum lífeyrisþegum hefði verið bættur tekjumissirinn að fullu með sérstakri hækkun lífeyris. Hér hefur þetta gerst, nánast í skjóli nætur. Þegar á þetta er bent og það staðfest af ríkisskattstjóra sjáum við fjármálaráðherra fullyrða áfram að þetta sé á hinn veginn, að skattar séu samt að lækka.“

Skattkerfið eins og risaeðla

– Þú hefur sagt að íslenska velferðarkerfið sé að víkja af vegi hins norræna líkans.
„Já, með þessum aðgerðum í skattamálum erum við klárlega að víkja af þeim vegi sem fetaður hefur verið á Norðurlöndum. Og það gerist í raun með miklu meiri hraða en mann óraði fyrir. Ég er ekki viss um að þetta sé gert á meðvitaðan hátt. Hér hefur ríkt mikið aðhald í þróun tryggingabóta en kerfið sem búið hefur verið til utan um þær er orðið svo flókið að það hefur enginn lengur yfirsýn yfir þær afleiðingar sem breytingar á kerfinu hafa á tiltekna hópa og einstaklinga.
Það eru dæmi um einstaka hópa sem hafa fengið ágæta hækkun bóta en það eru undantekningar og algerir minnihlutahópar því þorri lífeyrisþega er að dragast aftur úr í tekjum. Maður hefur tilhneigingu til að trúa því ekki að stjórnvöld taki ákvarðanir um slíkt á meðvitaðan hátt heldur hallast ég að því að þetta gerist vegna þess hve kerfið er orðið flókið og ógagnsætt, og menn sjá ekki hverjar afleiðingarnar eru þegar einhverju er breytt. Þetta tryggingakerfi er raunar orðið ein rjúkandi rúst sem þyrfti að breyta og byggja upp frá grunni.“
– Ef þú hefðir vald til að hafa áhrif á þessi mál, hverju mundirðu byrja á að breyta?
„Ég mundi breyta hvoru tveggja, skattkerfinu og almannatryggingunum. Það þarf að hanna þessi kerfi algerlega saman því þau vinna saman. Það þarf að tryggja þeim sem búa við verstu kjörin betri aðstæður og þá má alveg klípa einhvers staðar af á móti. En þetta þarf að vinna með skattkerfinu svo ekki sé verið að færa fólki bætur í tryggingakerfinu sem skattkerfið eyðileggur jafnharðan. Þannig er það núna. Stjórnmálamenn guma af ýmsum kjarabótum til öryrkja og eldri borgara en svo kemur skattkerfið inn um bakdyrnar og hirðir þær og gott betur í sumum tilvikum. Þetta er súrrealismi í framkvæmd og algerlega óásættanlegt í nútíma stjórnsýslu.
Það þarf að tryggja þeim sem eru á botninum betri kjör, setja inn í kerfið hvata til að auka atvinnuþátttöku þeirra sem geta stundað launaða vinnu í einhverjum mæli og koma í leiðinni í veg fyrir misnotkun á kerfinu sem enginn vill. Núverandi kerfi hamlar atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja sem geta unnið og dregur úr möguleikum á að jafna tækifæri þessa fólks á við aðra í þjóðfélaginu. Svo kemur skattkerfið eins og risaeðla inn í þetta kerfi og veldur spjöllum sem enginn hefur beðið um,“ segir Stefán Ólafsson prófessor að lokum.
–ÞH