Iðnsveinafélag Suðurnesja og FIT í sameiningarviðræðum

FIT brýnir atvinnurekendur til að sýna ábyrgð í málefnum útlendinga

Félag iðn- og tæknigreina og Iðnsveinafélag Suðurnesja eiga nú í viðræðum um samvinnu eða sameiningu félaganna. Fyrsti formlegi fundur viðræðunefnda félaganna var haldinn 29. ágúst í Keflavík og hafa þær fundað nokkrum sinnum. Stjórnir félaganna hafa einnig fundað. Félögin eru lík að flestu leyti, blönduð iðnaðarmannafélög þar sem allar greinar eru jafnar og fjárhagsstaðan góð. Skipst hefur verið á upplýsingum um efnahag og samlegðaráhrif og rætt um þjónustustig félaganna og hvernig menn sjá framtíðina fyrir sér í þeim efnum. Næstu skref eru viðræður um aðferðafræði, frekari upplýsingagjöf og kynningarefni. Fleiri félög hafa sýnt áhuga á samstarfi eða sameiningu við FIT en stjórnin hefur ákveðið að beðið verði með aðrar viðræður þar til málalok liggja fyrir í yfirstandandi viðræðum.

Erlent vinnuafl!

Undanfarið hefur mjög aukist að útlendingar leiti aðstoðar hjá félaginu. Sú herferð sem hefur verið í gangi til að upplýsa útlendinga á vinnumarkaðnum virðist vera að skila árangri. Mest er komið með launaseðla og mikið um að reikna þurfi upp og leiðrétta, en einnig aukast greiðslur úr sjúkrasjóði til þessara nýju félagsmanna. Segja má að það fari eftir stöðu verkalýðshreyfingarinnar í hverju landi eða dvalartíma á Íslandi hvort einstaklingur leitar réttar síns. Áberandi er hvað Þjóðverjar og Norðurlandafólk veit vel um rétt sinn en fólk frá Eystrasaltslöndunum og Portúgal leitar síður til stéttarfélaganna. Þetta segir okkur að efla þarf fræðslu, sérstaklega til fólks frá þeim löndum þar sem verkalýðshreyfingin er veik.
Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um málefni útlendinga og endurspeglar hún áhyggjur fólks af þeirri stöðu sem mönnum þykir fyrirsjáanleg þegar dregur úr þenslu í þjóðfélaginu. Þá óttast margir að samdrátturinn kalli á launalækkun eða atvinnuleysi, en ódýrt vinnuafl sitji fyrir um störfin. Þessi afstaða er auðskiljanleg þegar horft er til þess að flestir ráðningarsamningar sem gerðir hafa verið undanfarið eru um strípaða taxta, og að iðnaðarmenn eru ráðnir til starfa sem verkamenn, en þegar þenslan byrjaði var ásóknin í iðnaðarmennina slík að stærstur hluti ráðningarsamninga var á markaðslaunum eða iðnaðarmannatöxtum. Engan þarf því að undra að fólk hafi áhyggjur en þær áhyggjur mega ekki leiða til andúðar eða rasisma vegna aðgerðaleysis stjórnvalda.
Orð eru til alls fyrst en aðgerðir verða að fylgja í kjölfarið. Stjórnvöld hafa nú tilkynnt um 100 milljóna króna framlag til eflingar á íslenskukennslu fyrir útlendinga og er það verulegt fagnaðarefni. Við hljótum líka að kalla eftir ábyrgð atvinnurekenda. Það er ekki nóg að setja peninga í íslenskukennslu ef enginn tími gefst fyrir fólkið til að sækja námskeið. Við hljótum að krefjast reglna um þessi mál því auðvitað kallar þetta frjálsa flæði á ábyrgð bæði þeirra sem koma til landsins til að vinna og þeirra sem veita þeim vinnuna.