Vaxholm-málið

Árið 2001 stofnaði lettneska fyrirtækið Laval un Partneri dótturfyrirtæki undir nafninu Baltic Bygg í Svíþjóð. Fyrst um sinn virðist það ekki hafa haft neitt starfslið en leigði starfsmenn frá móðurfyrirtækinu. Vorið 2004 bauð Baltic Bygg í byggingu skóla í bænum Vaxholm skammt frá Stokkhólmi og fékk verkið. Í verksamningi var ákvæði um að verktakanum og öðrum fyrirtækjum sem tengdust verkinu væri skylt að gera kjarasamninga við sænsk stéttarfélög. Á þeim tíma voru ekki neinir samningar í gildi milli Baltic Bygg eða móðurfyrirtækisins og sænskra stéttarfélaga.

Samtök sænskra byggingarmanna, Byggnads, settu sig strax í samband við verktakann og leituðu eftir samningum. Þannig háttar til í Svíþjóð að kjarasamningar eru gerðir í tveimur áföngum. Fyrst er gerður almennur samningur sem felur í sér friðarskyldu en eftir það er samið um kaup og kjör. Lettnesku fyrirtækin neituðu hins vegar að undirrita samning fyrr en búið væri að semja um launin. Gerðu fyrirtækin þá kröfu að launin yrðu 109 sænskar krónur á tímann og vísuðu þar til sérstaks ákvæðis í aðalkjarasamningum sem er á þá leið að nái aðilar ekki samkomulagi sé hægt að greiða byggingarmönnum þessi tímalaun þar til samningar hafa náðst. Byggnads gerði kröfu um að launin yrðu 145 sænskar krónur á tímann sem samsvarar meðallaunum byggingarmanna á Stokkhólmssvæðinu. Sögðu samtökin að ákvæðið sem Lettarnir vísuðu til væri ekki raunhæft þar sem því væri fyrst og fremst ætlað að knýja aðila til þess að komast að samkomulagi.
Niðurstaðan varð sú að engir samningar tókust milli Byggnads og lettnesku fyrirtækjanna. Þess í stað lýstu fyrirtækin því yfir að þau hefðu gert kjarasamning við stéttarfélag byggingarmanna í Lettlandi. Byggnads boðaði þá verkbann á byggingarsvæðinu í nóvember 2004 og mánuði síðar hófst samúðarverkfall stéttarfélags rafvirkja. Í lok desember sögðu lettnesku fyrirtækin sig frá verkinu og það var falið öðru fyrirtæki sem hafði samning við stéttarfélögin.

Tvær lykilspurningar

Ekki er ljóst hversu há laun starfsmenn lettnesku fyrirtækjanna fengu fyrir störf sín. Fyrirtækin halda því fram að launin hafi verið um 20 þúsund sænskar krónur á mánuði þegar fæði, húsnæði og ferðir voru meðtaldar (sænska krónen jafngildir núna rúmum 8 íslenskum). Hins vegar komst blað sænskra byggingarmanna, Byggnadsarbetaren, að því í viðtölum við starfsmenn að tímakaupið hefði að meðaltali verið um 35 sænskar krónur. Blaðið vitnaði einnig í skattframtöl starfsmanna sem þeir sendu til skattyfirvalda í Lettlandi en samkvæmt þeim hafði einn af þeim hæstlaunuðu um 8.000 sænskar krónur á mánuði fyrir 56 tíma vinnuviku. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest þar sem starfsmennirnir neituðu að koma fram undir nafni af ótta við hefndaraðgerðir lettnesku fyrirtækjanna. Hins vegar er vitað að fyrirtækið sem tók við verkinu greiddi sænskum starfsmönnum sínum að meðaltali 163 krónur á tímann.
Málinu var hins vegar ekki lokið því eftir að Félagsdómur þeirra Svía hafði fjallað um deiluna ákvað hann að vísa tveimur þáttum málsins til Evrópudómstólsins. Annars vegar er spurt hvort stéttarfélög hafi rétt til þess að beita því valdi sem þau búa yfir til að knýja fyrirtæki frá öðru ESB-ríki til þess að gera kjarasamning við félög gistilandsins um tímabundin verk sem þau taka að sér þar. Hins vegar er spurt hvort samþykktir Evrópusambandsins banni stéttarfélögum að grípa til verkfallsaðgerða gagnvart fyrirtæki frá öðru ESB-ríki sem hefur gert samning við stéttarfélög í sínu heimalandi.