Samanburður á lífskjörum á Norðurlöndum

Íslendingar standast vel samanburð við aðrar Norðurlandaþjóðir þegar litið er til heildarlauna en þegar tekið hefur verið tillit til langs vinnutíma og verðlags hér á landi versnar staða okkar talsvert og Íslendingar verða eftirbátar nágrannaþjóðanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu um lífskjör á Norðurlöndum sem hagdeild Alþýðusambands Íslands gaf út nýverið. Í skýrslunni er að finna samanburð á efnahagslegum lífskjörum launafólks á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Athygli vekur að í samanburði við hinar þjóðirnar eru heildarlaun á Íslandi yfirleitt þau hæstu í öllum starfsstéttum sem skoðaðar voru. Danir og Norðmenn eru yfirleitt nokkuð jafnir og nokkru lægri en Íslendingar, en Svíar reka lestina með lægstu heildarlaunin. Með heildarlaunum er átt við öll laun, óháð þeim vinnutíma sem liggur að baki. Íslendingar eru hins vegar mun lengur að vinna fyrir launum sínum en hinar þjóðirnar.
Vinnutími hér á landi er langlengstur af samanburðarlöndunum í öllum stéttum. Sem dæmi vinna karlar í iðnaðarmannastörfum og almennum verkamannastörfum að meðaltali tæpum 8 klst. lengur á viku en starfsbræður þeirra annarstaðar á Norðurlöndum. Konur í iðnaðarmannastörfum vinna að meðaltali rúmlega 2,5 klst. lengur á viku og konur í verkamannastörfum 4 klst. lengur á viku en konur í sambærilegum störfum í hinum löndunum. Þegar tekið er tillit til þessa langa vinnutíma, og heildarlaunin leiðrétt fyrir mismunandi verðlagi í löndunum þannig að þau endurspegli kaupmátt, verða heildarlaun á Íslandi að jafnaði þau lægstu.
Þessar niðurstöður má sjá á mynd 1 sem sýnir meðallaun á unna klukkustund hjá nokkrum starfsstéttum. Séu þessar tölur brotnar niður á kyn kemur í ljós að þó meðallaun á klukkustund séu að jafnaði þau lægstu hér á landi bæði hjá konum og körlum er staða kvenna hlutfallslega enn verri en karlanna.
Þetta endurspeglar þó ekki nema hluta raunveruleikans. Til þess að bera saman lífskjör milli landa er nauðsynlegt að taka einnig tillit til skatta- og tilfærslukerfisins í því augnamiði að ná fram samanburði á þeim tekjum sem fólk hefur til ráðstöfunar. Til þess að gera þetta mögulegt eru í skýrslunni tekin dæmi af nokkrum fjölskyldugerðum og borin saman heildarlaun þeirra að teknu tilliti til skatta og tilfærslna auk þess sem leiðrétt er fyrir mismunandi verðlagi í löndunum til þess að endurspegla kaupmátt ráðstöfunartekna. Hér hefur hins vegar ekki verið leiðrétt fyrir vinnutímanum, þannig að mikilvægt er að hafa í huga að sá vinnutími sem liggur að baki ráðstöfunartekjum er eins og áður segir langlengstur hér á landi. Eins og sjá má á mynd 2 eru íslensku barnafjölskyldurnar með lægri ráðstöfunartekjur en hinar dönsku og norsku en svipar til hinna sænsku. Einhleypu einstaklingarnir hafa hins vegar að jafnaði hærri ráðstöfunartekjur á Íslandi en í samanburðarlöndunum. Auk þessa er mikilvægt að hafa í huga að ráðstöfunartekjum á Íslandi og Noregi er ætlað að bera hærri kostnað vegna þjónustu sem greidd er af opinberu fé en í Svíþjóð og Danmörku. Má þar nefna að á Íslandi bera fjölskyldur hærri kostnað af heilbrigðisþjónustu og lyfjum, sem og menntun og tómstundum barna sinna.
Niðurstaða samanburðarins er því í stuttu máli sú að efnahagsleg lífskjör á Íslandi séu sambærileg við hin löndin eða heldur lakari en vinnutími hér á landi mun lengri og opinber þjónusta dýrari.