Hæstiréttur túlkar þröngt – menn tefli aldrei í tvísýnu

Hinn 20. desember síðastliðinn sneri Hæstaréttur við dómi héraðsdóms í skaðabótamáli sem trésmiður höfðaði á hendur verktakafyrirtæki vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir þegar hann vann við að einangra loft verslunarrýmis í Smáralind. Dómur Hæstaréttar hefur vakið nokkra athygli, bæði meðal lögmanna og hjá Vinnueftirlitinu og verkalýðshreyfingunni. Samiðnarblaðið leitaði eftir áliti hjá lögmanni Vinnueftirlitsins og ræddi við lögmann Samiðnar.

Í áliti lögmanns vinnueftirlitsins segir að lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinustöðum (nr. 46/1980) geri ráð fyrir þeirri meginreglu að það sé atvinnurekandinn sem ber ábyrgð á fyrirmælum laganna og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Þó leggi lögin jafnframt þá skyldu á starfsmenn að stuðla að öruggu og tryggu vinnuumhverfi. Verði starfsmaður Vinnueftirlitsins var við eitthvað óeðlilegt í vinnuumhverfinu er það talið vera á ábyrgð atvinnurekanda að gera úrbætur sem tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. En það útilokar ekki ábyrgð starfmanns því á honum hvílir skylda til að tilkynna til atvinnurekanda eða verkstjóra þegar hann verður var við eitthvað í vinnuumhverfinu sem leitt gæti til skerts öryggis (sbr. 2. málsgrein 26. greinar laganna). Ef starfsmaður lætur undir höfuð leggjast að gæta þessarar skyldu sinnar gæti hann eðli máls samkvæmt þurft að bera tjón sitt sjálfur að einhverju eða öllu leyti, fari málið til dómstóla.

Kemur á óvart

Með hliðsjón af þessu kemur dómur Hæstaréttar í máli trésmiðsins gegn verktakanum talsvert á óvart, segir lögmaður Vinnueftirlitsins. Í dómsniðurstöðu er vísað í 1. málsgrein 26. greinarinnar og starfsmaðurinn einn látinn bera ábyrgð á að tryggja öruggt vinnuumhverfi með þeim rökum að hann hafi búið yfir nokkurri reynslu (sem var þó alls ekki mikil) og sérhæfingu. Þetta er í andstöðu við meginreglu laganna um ábyrgð og skyldur atvinnurekanda sem áður var greint frá.
Málsatvik voru þau að trésmiður vann við að koma steinull fyrir í millilofti fyrir ofan verslunarrýmið. Til þess var ætlast af honum og samstarfsmönnum hans að þeir gengju eftir burðarbitum loftsins þangað sem þeir voru að leggja steinullina og klæðninguna sem koma átti ofan á hana. Ekki vildi betur til en að trésmiðnum skrikaði fótur þannig að hann steig ofan á gifsklæðningu loftsins, hún gaf sig síðan með þeim afleiðingum að hann féll alla leið niður á gólf. Trésmiðurinn slasaðist illa við fallið og var metinn með 15% varanlega örorku af þeim sökum.
Fljótlega hóf trésmiðurinn að leita réttar síns og vildi fá greiddar bætur vegna þessa frá vinnuveitanda sínum. Þessu neitaði tryggingafélag fyrirtækisins og taldi að hann bæri sjálfur fulla ábyrgð á falli sínu. Þessu vildi trésmiðurinn ekki una og stefndi verktakafyrirtækinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Niðurstaða dómsins var sú að skipta bæri sök, þannig að fyrirtækið bætti trésmiðnum helming tjónsins en sjálfur bæri hann tjón sitt að hálfu. Verktakafyrirtækið var dæmt til að greiða honum 2.286.552 krónur í bætur að viðbættum vöxtum, auk 200.000 króna í málskostnað.
Báðir aðilar málsins áfrýjuðu dómnum. Trésmiðurinn krafðist þess að honum yrðu dæmdar hærri bætur en verktakafyrirtækið vildi með sinni áfrýjun freista þess að fá sýknudóm.
Niðurstaða Hæstaréttar var að sýkna fyrirtækið af öllum kröfum trésmiðsins. Dómarar Hæstaréttar mátu það svo að trésmiðurinn hefði þekkti vel til aðstæðna, væri lærður húsasmíðameistari og hefði allnokkra reynslu af störfum á vettvangi. Með hliðsjón af því var talið að hann hefði mátt vita hvaða ráðstafana væri þörf við þessar aðstæður og að honum hafi átt að vera ljós sú hætta sem stafaði af því að fara um svæðið með þeim hætti sem hann gerði. Ekki var talið að verktakafyrirtækið hefði átt að gefa honum sérstök fyrirmæli eða leiðbeiningar þar að lútandi og var í ljósi atvika fremur talið að það hefði verið í verkahring trésmiðsins að bregðast við þessu. Málið dæmdu þeir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
– Þessi dómur er nokkuð sérstakur. Sérstaklega þegar litið er til þess að það liggur fyrir að reglum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum var ekki fullnægt. Öryggi starfsmanna var ábótavant í þessu tilfelli, segir Björn L. Bergsson, lögmaður Samiðnar, eftir að hafa kynnt sér dóm Hæstaréttar.
– Það sem fyrst og fremst kemur á óvart er hversu mikla ábyrgð Hæstiréttur leggur á starfsmanninn í þessu tilfelli. Dómurinn metur það svo að það sé nánast á ábyrgð starfsmanna sjálfra að tryggja eigið öryggi og það jafnvel þótt atvinnurekandinn fullnægi ekki þeirri lagaskyldu sem á herðar honum er lögð um að tryggja öryggi á vinnustað.

Horft fram hjá hlýðnisskyldu

– Svo reynt sé að rýna í ástæður þess að svona mikil áhersla er lögð á aðgæsluskyldu starfsmannsins en lítil á ábyrgð atvinnurekandans á að fullnægja settum reglum þá þarf að hafa það í huga að í svona málum ráða aðilar málsins miklu um það hvernig málið er fram sett fyrir dómstólum. Þetta mál er eðli sínu samkvæmt rekið sem skaðabótamál vegna líkamstjóns en það að um vinnuslys hafi verið að ræða virðist ekki fá mikið rúm í umfjölluninni um slysið. Til dæmis kemur dálítið á óvart að ekki skuli hafa verið fjallað um hlýðnisskyldu í þessu máli, en hún er eitt grundvallaratriðanna í vinnurétti.
– Sú staðreynd að trésmiðurinn var sendur til þessa verks án þess að öryggi væri tryggt á staðnum vekur upp spurningar um hvort hann hafi verið í stöðu til þess að mótmæla eða gera athugasemdir við þær aðstæður sem honum var boðið að vinna við. Hæstiréttur gengur út frá því að svo hafi verið. Menn verða þá að spyrja sig hvort starfsmenn séu almennt í þeirri stöðu að getað neitað að ganga til verka sem fyrir þá eru lögð ef þeir telja öryggi sínu ógnað. Formlega séð er starfsmönnum slíkt heimilt en spyrja má sig að því hversu langlífir í starfi starfsmenn verða sem setja svona atriði fyrir sig og tefja með því framgang verkanna.
– Niðurstaða dómsins, að sýkna atvinnurekandann, er hins vegar ekki þannig niðurstaða að hún marki tímamót. Dómar hafa áður fallið á svipaðan veg og nýr dómur bættist svo við um daginn. Það er enda svo að niðurstaða dómsmála ræðst af málsatvikum hverju sinni og framgöngu manna. Það sem kannski er óvanalegt við dóminn er hvað starfsmaðurinn og verk hans eru í miklum brennidepli á meðan atvinnurekandinn og athafnaleysi hans til að fullnægja lagaskyldu sinni stendur dálítið til hliðar án þess að fjallað sé um þá staðreynd að ef reglum hefði verið fylgt hefði smiðurinn aldrei staðið frammi fyrir ófullnægjandi vinnuaðstæðum og þeirri spurningu hvort hann ætlaði að reyna að leysa sín verk af hendi við þær aðstæður sem atvinnurekandinn skapaði honum eða neita að vinna verkið og krefjast úrbóta.
Sé lærdómur dreginn af dómnum þá staðfestir hann það að menn verða að vera á varðbergi og tefla aldrei í tvísýnu í sinni vinnu ef á öryggi skortir, hvernig svo sem það síðan virkar á framgang starfsmanns og frama í starfi, segir Björn.