Tímamótadómur í Félagsdómi

Með dómi sínum þann 7.júlí s.l. í máli Trésmiðafélags Reykjavíkur gegn Sóleyjarbyggð ehf., dæmir Félagsdómur að hið íslenska fyrirtæki beri ábyrgð á því að tryggja erlendum starfsmönnum sem koma hingað til lands til að vinna í þess þágu, séu greidd laun í samræmi við lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein.

Félagsdómur tekur efnislega afstöðu til þess sem kallað hefur verið notendaábyrgð. Í því felst að fyrirtæki sem hagnýtir starfskrafta erlendra starfsmanna ber ábyrgðina á því að þeir njóti lágmarkskjara samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Fyrirtækið getur ekki þvegið hendur sínar og vísað ábyrgðinni á erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn hingað til lands. 

Í málinu var upplýst að litháískir starfsmenn sem komu hingað til lands á vegum tveggja litháískra fyrirtækja til að vinna fyrir Sóleyjarbyggð ehf. við húsbyggingar fengu greiddar rúmar 20 þúsund krónur í laun á mánuði. Dómurinn tekur fram að ekki beri að líta á dagpeninga eða aðrar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar sem laun.

Félagsdómur tekur fram að markmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og  SA, um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá 7. mars 2004, sé að stuðla að því að fyrirtæki sem hagnýta sér slíkt vinnuafl greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi. Í því ljósi hafi Sóleyjarbyggð ehf. borið að gæta þess í samningum við litháísku fyrirtækin og við framkvæmd þeirra samninga að starfsmenn þeirra fengju greidd laun og nytu kjara sem samrýmdust lögbundnum lágmarkskjörum á meðan þeir væru við störf hérlendis.

Í samningum Sóleyjarbyggðar ehf. við litháísku fyrirtækin væru engin ákvæði sem tryggðu slík lágmarkskjör og engin gögn lágu fyrir sem renndu stoðum undir að Sóleyjarbyggð ehf. hefði gert neitt til að tryggja hinum litháísku starfsmönnum launakjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Í niðurstöðu dómsins segir:
„Með því hefur stefndi brotið alvarlega gegn þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt nefndu samkomulagi um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Því ber að fallast á kröfu stefnanda um að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga.“

Það er ljóst að með dómi Félagsdóms er stigið mikilvægt skref í að skýra ábyrgð fyrirtækja sem nýta erlenda starfsmenn í sína þágu. Samiðn og Trésmiðafélag Reykjavíkur hafa barist hart fyrir því að staðfest verði  ábyrgð  notendafyrirtækja sem nýta erlenda starfsmenn í sína þágu. Með dómi Félagsdóms 7. júlí og dómi Héraðsdóms   Reykjavíkur 3. mars 2006 gegn Impregilo er það staðfest að notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að erlendir starfsmenn njóti starfskjara samkvæmt íslensku  kjarasamningum.