1.maí. Baráttudagur verkalýðsins – „Ísland allra!“

Ástæða er til að vekja athygli á því að kröfuganga dagsins í Reykjavík fer að þessu sinni frá Hlemmi, en safnast verður saman kl. 13 og hefst gangan kl. 13:30.  Gengið verður sem leið liggur niður Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti inn á Ingólfstorg þar sem haldinn verður útifundur.  Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngu.  Að loknum útifundi bjóða félög til kaffisamsætis og munu Félag iðn- og tæknigreina, Félag járniðnaðarmanna og Trésmiðafélag Reykjavíkur bjóða félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra til 1.maí kaffis í Akógessalnum, Sóltúni 3.

——————–
1.maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands.

Ísland allra –  Velferð alla ævi

Þegar sagan er skoðuð sjá samtímamenn oftast ekki þá stóru strauma sem móta farveg framtíðarinnar. Stundum sjáum við þá ekki fyrr en löngu síðar. Okkur hættir til að fangast af dægurmálum sem skipta engu eða litlu máli fyrir landið okkar og þjóðina sem þar býr þegar fram líða stundir. Á baráttudegi verkalýðsins 1. maí er rétti tíminn til að lyfta okkur upp úr dægurþrasinu. Í dag er stund til að skoða þá mikilvægu atburði sem leggja drög að framtíð okkar og barna okkar.

Með baráttu sinni í gegnum tíðina hefur launafólk á Íslandi byggt upp velferðarkerfi sem ætlað er að þjóna öllum óháð kyni, uppruna, aldri og trú. Um þetta kerfi höfum við þurft að standa stöðugan vörð og þróa áfram því að því er veist úr mörgum áttum. Stundum hallar á ákveðna hópa í samfélaginu og þá ber hreyfingunni skylda til að berjast gegn slíku misrétti. Málefni aldraðra og öryrkja hafa verið í brennidepli að undanförnu og er nauðsynlegt að rétta hlut þessara hópa.

Opnun vinnumarkaðar

Verkalýðssamtökin og atvinnurekendur hafa deilt hart um hvort við erum að keyra hjól atvinnulífsins of hratt með erlendu vinnuafli með ófyrirséðum afleiðingum. Mörg rök hníga að því að ekki hafi verið farið nógu varlega. Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að nýta ekki aukinn aðlögunarfrest gagnvart nýjum löndum Evrópusambandsins orkar mjög tvímælis. Hún ein og sér getur þýtt það að mun erfiðara verði að fylgjast með launakjörum útlendinga hér á landi. Að stjórnvöld skuli ekki hafa fyrirvara gagnvart eftirliti með notendafyrirtækjum og þjónustusamningum býður hættunni heim. Opinn vinnumarkaður veldur því að erfiðara er að standa vörð um réttindi og kjör launafólks. Það er staðreynd að nokkur hópur atvinnurekenda notar tækifærið til að brjóta á réttindum launafólks. Í skjóli leyndar þrífast mannréttindabrotin. Áhrifin eru þegar farin að segja til sín með lækkandi launum í vissum atvinnugreinum. Gegn því verður barist með oddi og egg.

Brottför hersins ber að fagna

Um leið og verkalýðshreyfingin fagnar brottför Bandaríkjahers frá landinu krefst hún þess að myndarlega verði staðið að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum eftir brottför hans. Það er þjóðarinnar allrar að taka á með Suðurnesjamönnum þegar 600 störf hverfa með öllu á nokkrum mánuðum.

Verkalýðshreyfingin lýsir áhyggjum sínum af sívaxandi ófriði í heiminum og getuleysi ráðamanna til að koma á friði.  Það er sorglegt að horfa upp á þjóðir búa árum saman við ófrið og kúgun án þess að þeim sé rétt hjálparhönd. Þjónkun íslenskra ráðamanna við þau öfl í heiminum sem telja sig hafa lögregluvald yfir öðrum þjóðum en kynda eingöngu undir ófriðarbálinu er ekki hægt að sætta sig við.


Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð


Verkalýðshreyfingin varar við áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Íbúðalánasjóð í núverandi mynd og breyta honum í heildsölubanka. Sjóðurinn er eina lánastofnunin sem tryggir félagslegt jafnrétti og öllum landsmönnum  aðgang að lánsfé til húsnæðiskaupa, án tillits til búsetu.

Misréttið í landinu

Það er verkalýðshreyfingunni sífellt áleitnari spurning hve lengi misréttið í landinu getur vaxið. Er það eðlilegt að forstjórar í stórum fyrirtækjum hafi tuttugu- eða þrjátíuföld laun undirmanna sinna? Dæmi eru um forstjóra sem taka margföld ævilaun starfsmanna sinna á einu ári. Er ekki eitthvað mikið að þegar ríkið, sem nú undirbýr byggingu dýrasta sjúkrahúss sögunnar á Íslandi tregðast við að greiða þeim starfsmönnum mannsæmandi laun sem eiga að halda uppi starfinu á þessu sama sjúkrahúsi og öðrum umönnunarstofnunum landsmanna? Er ekki eitthvað mikið að þegar stjórnvöld í einu ríkasta landi heims stæra sig af skattalækkunum undanfarinna ára, en láta síðan lágtekjufólk, millitekjufólk, ellilífeyrisþega og öryrkja bera skarðan hlut frá borði þegar dæmið er gert upp?

Einkavæðingin

Verkalýðshreyfingin getur aldrei sætt sig við misrétti og ranglæti. Það er ljóst að við einkavæðingu undanfarinna ára og sölu ríkiseigna, hefur almannahagsmuna ekki verið gætt. Nú leggja stjórnvöld allt kapp á að breyta þeim stofnunum ríkisins sem ekki hafa verið seldar í hlutafélög. Ljóst er  að endanlegur tilgangur slíkra breytinga er að koma þessum stofnunum á markað. Öllum frekari áformum í þessum efnum er harðlega mótmælt.  Gildir þar einu hvort um er að ræða Ríkisútvarpið, Áfengisverslun ríkisins, Flugmálastjórn eða Keflavíkurflugvöll. Næst verður það líklega nýja hátæknisjúkrahúsið þegar landsmenn hafa reist það með fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Markaðslausnir er töfraformúla stjórnarherranna. Þær eiga við sumstaðar en ekki alls staðar. Innra stoðkerfi samfélagsins, heilbrigðisþjónusta og menntun eiga að vera í eigu þjóðarinnar og rekin á grundvelli almannaþjónustu. 

Hátækni og nýsköpun flýja land

Ein afleiðing þenslu í efnahagsmálum er veiking hefðbundinna atvinnugreina,  frumgreina og nýrra atvinnugreina í ferðaþjónustu, hátækni- og þekkingariðnaði. Þar horfum við nú á hvert fyrirtækið af öðru hverfa úr landi. 

Verkalýðshreyfingin varar við þeirri miklu þenslu sem stjórnvöld hafa skapað með atvinnustefnu sinni og hvetur til endurmats á framtíðaráformum þar sem hægar verði farið í umbreytingu atvinnulífsins. Nýsköpunarfyrirtækjum og fyrirtækjum í hefðbundnum atvinnugreinum verði gert kleift að starfa hér á landi en ekki öllu fórnað fyrir eina framleiðslugrein.

Bregðast þarf við vegna aukinnar verðbólgu

Stjórnvöld hafa setið aðgerðalaus hjá og kynt undir verðbólgubálið með ýmsum aðgerðum sínum, stóriðjustefnu og skattalækkunum á fyrirtæki og hátekjufólk. Kaupmáttaraukning launafólks undanfarin misseri er farin fyrir lítið og við blasir kaupmáttarrýrnun ef ekkert er að gert. Stjórnvöld geta ekki setið með hendur í skauti þegar svo er komið og beðið eftir að vandinn leysist af sjálfu sér. Ný álver eru ekki lausnin.  Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurfa að leita sameiginlega að úrræðum til að bregðast við þessari þróun, það verður ekki gert þannig að launafólk eitt axli ábyrgð. Hér þurfa allir að koma að.

Menntunin er framtíðin

Enn vantar verulega upp á raunverulegt jafnrétti til náms. Það bitnar ekki síst á barnmörgum fjölskyldum, tekjulágu fólki og þeim sem búsetu sinnar vegna hafa skertan aðgang að menntun. Gjöld fyrir leikskólavist barna, námskostnaður ungmenna í framhaldsskólum og skólagjöld í háskólum leggjast misþungt á borgarana þar sem ekki er nægilegt tillit tekið til tekna við ákvörðun þessara gjalda.

Samfélagið á mikið undir því að menntunarstig í landinu hækki og jafnt sé unnið að því  að fjölga þeim sem afla sér starfsmenntunar og háskólamenntunar. Nauðsynlegt er að bjóða ungmennum á framhaldsskólaaldri fjölbreytilegt nám í starfsmenntagreinum, bóknámi, tæknigreinum og listgreinum. Öflug og afar fjölbreytt símenntun er í boði á vegum margra aðila en mikilvægt er að huga frekar að því að jafna rétt og aðstöðu fólks til að mennta sig frekar og viðhalda þekkingu. Menntun er grundvallaratriði til að þjóðin geti verið samkeppnishæf í síbreytilegum heimi.