Á síðustu vikum hafa farið fram umræður á vettvangi ASÍ um hvort framlengja ætti í núverandi mynd fyrirvara gagnvart frjálsri för 8 nýrra aðildarríkja ESB eða fara einhverja millileið. Niðurstaðan var að leggja til að fara dönsku leiðina, en hún byggir á því að einstaklingar geta komið inn í landið og leitað sér að atvinnu en verða síðan að fá dvalar- og atvinnuleyfi þegar þeir hefja störf. Í þessari umræðu lagði Samiðn mikla áherslu á að samhliða slíkri breytingu þyrfti að nást samkomulag við stjórnvöld um ákveðnar hliðarráðstafanir til að tryggja réttindi launamanna og styrkja eftirlitshlutverk stéttarfélaganna. Þau atriði sem Samiðn lagði til var að fyrir lægi skýr yfirlýsing félagsmálaráðherra um að hann myndi beita sér fyrir að lögfest yrði notendaábyrgð fyrirtækja, að beint ráðningarsamband verði megin regla, tryggja að erlend fyrirtæki greiði laun og önnur starfskjör til samræmis við það sem viðgengst á Íslandi og settar verði skorður við gerviverktöku. Því miður treysti ráðherrann sér ekki til að gefa slíka yfirlýsingu. Þegar það lá fyrir var það skoðun Samiðnar að ASÍ ætti ekki að koma frekar að frumvarpsgerðinni og ekki síst með tilliti til þess með hvaða hætti var staðið að setningu laga um starfsmannaleigur. Því miður náðist ekki samstaða um það innan ASÍ.
Það voru mikil vonbrigði að ekki skyldi takast samstaða um að knýja á um yfirlýsinguna, því eitt af megin markmiðum fyrirvarans í núgildandi lögum, var að skapa tíma til að aðlaga íslenskan vinnumarkað að þeim breytingum sem fylgdu stækkuninni. Sá tími hefur verið illa nýttur og óljósar yfirlýsingar stjórnvalda í dag um aðgerðir gefa ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin verði með öðrum hætti nú.