Niðurfelling á fyrirvara gagnvart 8 nýjum aðildarlöndum ESB

Ef frumvarp Jóns Kristjánssonar félagsmálaráðherra um niðurfellingu á fyrirvara um frjálsa för launafólks gagnvart  8 nýjum aðildarríkjum ESB verður að lögum verða vatnaskil á íslenskum vinnumarkaði. Í breytingunni felst að allir íbúar aðildarríkja ESB geta komið til Íslands og leitað sér að atvinnu og gert ráðningarsamning við fyrirtæki án þess að fyrir liggi samþykkt um  atvinnuleyfi. Einstaklingurinn er ekki lengur háður einum atvinnurekanda til að öðlast  rétt til að starfa hér á landi. 

Á síðustu vikum hafa farið fram umræður á vettvangi ASÍ um hvort  framlengja ættifyrirvara gagnvart frjálsri för  eða hvort  ætti að fara einhverja millileið. Niðurstaðan var að leggja til að fara dönsku leiðina, en hún byggir á því að einstaklingar geta komið inn í landið og leitað sér að atvinnu en verða síðan að fá dvalar- og atvinnuleyfi þegar þeir hefja störf. Í þessari umræðu lagði Samiðn mikla áherslu á að samhliða slíkri breytingu  þyrfti að nást samkomulag við stjórnvöld um ákveðnar hliðarráðstafanir til að tryggja réttindi launamanna og styrkja eftirlitshlutverk stéttarfélaganna. Eitt af því sem Samiðn lagði til var að fyrir lægi skýr yfirlýsing ráðherra um að hann myndi beita sér fyrir að lögfest yrði notendaábyrgð íslenskra fyrirtækja sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Því miður náðist engin niðurstaða  og ráðherrann treysti sér ekki til að gefa slíka yfirlýsingu. Þegar það lá fyrir var það skoðun Samiðnar að ASÍ ætti ekki að koma frekar að málinu.  Því miður náðist ekki pólitísk samstaða innan ASÍ um að gera notendaábyrgðina að úrslitaatriði.  En hvers vegna taldi Samiðn svo mikilvægt að yfirlýsing ráðherra lægi fyrir áður en tekin væri afstaða til frumvarpsins?   Ástæðan er augljós. Það eru þrjú ár síðan samþykkt var að vera með fyrirvara gangvart 8 af 10 nýju aðildarlöndum ESB. Rökin fyrir frestinum voru að það þyrfti tíma til að undirbúa íslenska vinnumarkaðinn.

Stjórnvöld leituðu eftir samráði við verkalýðshreyfinguna nokkrum dögum áður en fresturinn til að leggja fram frumvarp á Alþingi rann út og nánast enginn tími var til  að vinna í málinu.  Þessi vinnubrögð stjórnvalda verða til þess að Samiðn getur ekki treyst óljósum  yfirlýsingum stjórnvalda um nauðsynlegar hliðar ráðstafanir samhliða opnun vinnumarkaðarins.  

1. maí frjáls för launafólks

Nú stefnir  í að 1. maí n.k  nái reglur um frjálsa för launafólks  til allra íbúa ESB. Hvaða breytingar   mun þetta hafa í för með sér fyrir  íslenskan  vinnumarkað? Erfitt er að fullyrða um slíkt en líklegt er að erlendum  starfsmönnum fjölgi að minnsta kosti tímabundið, en  það mun ráðast af atvinnuástandi og efnahagsþróun  hér á landi og hver þróunin verður í nýju aðildarlöndunum. Í síðustu viku kom fram hjá varaformanni Eflingar að um 100 atvinnuleyfi væru afgreidd á viku. Ekki er fráleitt að draga þá ályktun að önnur félög séu að afgreiða 50-60 leyfi til viðbótar og heildarfjöldinn sé því á milli 150 til 200  leyfi á viku. Ef þetta er rétt ályktun er nú þegar hafið stórflóð erlends vinnuafls  inn á íslenskan vinnumarkað.  Ein af grundvallarreglum  frjálsrar farar er að ekki má mismuna starfsfólki eftir þjóðerni. Fyrir liggur að íslensk fyrirtæki sem hafa verið að fá erlent starfsfólk í sína þjónustu hafa almennt verið að greiða lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum.  Í mörgum atvinnugreinum er mikill munur á umsömdum lágmarkslaunum og markaðslaunum.  Ef frjáls för launafólks nær til allra íbúa ESB eftir 1. maí n.k.  verður reglan um að ekki megi mismuna eftir þjóðerni einnig virk gagnvart öllum íbúum ESB. Atvinnurekandi sem mismunar   starfsfólki frá ESB er  að brjóta lög. Megin reglan verður því að allir íbúar ESB eiga rétt á markaðslaunum. Þetta einfaldar og skýrir  eftirlit með því að ekki sé gengið á rétt erlendu stafsmannanna því nú leikur enginn vafi á að þeir eiga að njóta sömu starfskjara og  Íslendingar.  Það voru vissulega mikil vonbrigði fyrir Samiðn að ekki skyldi nást  samstaða  innan ASÍ um að knýja á  um notendaábyrgðina,  ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem menn hafa af lögunum um starfsmannaleigur. Það var sannfæring Samiðnar að þau lög næðu ekki tilgangi sínum án skýrra ákvæða um að fyrirtæki sem væru með erlenda starfsmenn í þjónustu sinni bæru ábyrgð á  að farið væri eftir íslenskum kjarasamningum og lögum. 

Er ekki ljósið að kvikna?

Málið er að sífellt fleiri eru að átta sig á  að þetta er algjört lykilatriði og margt  sem er að gerast út í Evrópu styrkir þessa áherslu Samiðnar. Í því sambandi er hægt að nefna drög að  þjónustutilskipun ESB og samkomulag finnsku verkalýðshreyfingarinnar um upplýsingaskyldu notendafyrirtækja. Drögin að tilskipuninni ganga m.a. út á að  styrkja aðildarlöndin í eftirliti með að ekki sé gengið á  grundvallarrétt íbúanna þ.m.t.. kjarasamninga. Það er því í takt við það sem er að gerast víða í Evrópu  að styrkja ber verkalýðshreyfinguna til að verja réttindi sinna félagsmanna m.a. með skýrri ábyrgð notendafyrirtækja, að þau beri ábyrgð á að starfsmenn í þjónustu  þeirra njóti starfskjara sem eru á íslenskum vinnumarkaði .