Lög um ábyrgð verkkaupa/notendafyrirtækja í Finnlandi

Atvinnumálaráðuneytið og aðilar vinnumarkaðarins í Finnlandi náðu nýlega samkomulagi um innihald nýrra laga sem skilgreina ábyrgð verkkaupa / notendafyrirtækja sem nýta sér t.d. erlent vinnuafl.  Í frumvarpinu kemur fram hvaða þætti fyrirtæki ber að kanna áður en það nýtir sér utanaðkomandi vinnuafl. Ætlunin er að tryggja að þeir undirverktakar og starfsmannaleigur sem fyrirtækið notar, uppfylli sínar skyldur og virði vinnureglur.

Samkvæmt frumvarpinu ber verkkaupa að kanna hvort undirverktakinn eða starfsmannaleigan sem þeir nota sé skráð í staðgreiðsluskrá skatta og fyrirtækjaskrá, eins hvort þeir séu með VSK númer. Að auki ber fyrirtækinu m.a. að krefjast skýrslu úr viðskiptaskrá og staðfestingu þess að skattar og lífeyrissjóðsiðgjöld hafi verið greidd. Einnig skulu liggja fyrir upplýsingar um eftir hvaða kjarasamningum starfsmenn viðkomandi fyrirtækis vinna.

Samsvarandi upplýsingar skulu einnig liggja fyrir þegar erlend fyrirtæki eiga í hlut. Aftur á móti þarf verkkaupinn ekki að óska eftir slíkum upplýsingum ef undirverktakarnir eða starfsmannaleigan er gróið fyrirtæki, eða ef samningsaðilar eru t.d. ríkið, sveitarfélag, opinbert hlutafélag eða ríkisfyrirtæki. Gróið fyrirtæki þýðir í þessu samhengi að fyrirtækið hafi starfað í u.þ.b. 3 ár.

Í væntanlegum lögum um ábyrgð verkkaupa / notendafyrirtækja mun einnig verða ákvæði um að verkkaupa sé skylt að upplýsa trúnaðarmann og öryggistrúnaðarmann um samninga sem gilda fyrir utanaðkomandi starfsmenn. Í tilkynningunni skal m.a. koma fram fjöldi starfsmanna, gildistími samningsins og hvaða samningum og vinnureglu er fylgt.

Þessum nýju lögum skal fylgt ef viðkomandi er utanaðkomandi / erlent vinnuafl og notað í minnst 10 vinnudaga eða ef andvirði undirverktakasamningsins er hærra en 7.500 evrur. Ef verkkaupinn hunsar könnunarskyldu sína getur hann átt á hættu að greiða sekt að andvirði 1.500-15.000 evrur.  Það er í verkahring vinnueftirlitsins að taka ákvörðun um sektirnar.

Stefnt er að því að lögin taki gildi á þessu ári.