Sameiningarviðræður í biðstöðu

Matvís og Félag bókagerðarmanna hafa tekið vel í hugmyndir Samiðnar um að efla samstarf sem gæti leitt til sameiningar í framtíðinni. Málið hefur verið sett á ís meðan beðið er niðurstöðu í atkvæðagreiðslu Félags járniðnaðarmanna um hvort félagið sameinast Vélstjórafélagi Íslands. Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar segir að slagkrafturinn aukist til muna takist að sameina iðnaðarmannahópinn innan ASÍ í nýtt samband.


,,Nýir tímar kalla á breytingar“ var fyrirsögn í síðasta tölublaði Samiðnar. Þar sagði frá því að Samiðn hefur óskað eftir viðræðum um samstarf við Rafiðnaðarsambandið, Matvís, Félag bókagerðarmanna og Vélstjórafélag Íslands. Í bréfi sem Samiðn sendi með ósk um viðræður kemur fram sú skoðun miðstjórnar Samiðnar að íslenskt samfélag hafi breyst gífurlega á undanförnum árum og þar á meðal skipulagsforsendur iðnaðarmanna innan verkalýðshreyfingarinnar.
Samiðnarblaðinu lék forvitni á að vita hvernig mál hafa þróast frá því þessari hugmynd var komið á framfæri.
– Málið er í biðstöðu. Rafiðnaðarsambandið hefur þegar svarað og hefur ekki áhuga á neins konar samruna. Hins vegar hafa bæði Matvís og Félag bókagerðarmanna lýst yfir vilja til að ræða málið af alvöru.
– Það sem setur þetta mál nú í uppnám er að stjórnir Félags járniðnaðarmanna og Vélstjórafélags Íslands eru að undirbúa atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um sameiningu félaganna. Eins og stjórnirnar leggja málið fyrir félagsmenn sína er gert ráð fyrir að Félag járniðnaðarmanna gangi úr Samiðn verði af sameiningunni. Í ljósi þessa samþykkti miðstjórn Samiðnar að leggja viðræðurnar við hin samböndin á ís á meðan beðið er eftir niðurstöðum hjá Félagi járniðnaðarmanna, segir Finnbjörn A. Hermannson formaður Samiðnar. Hann bætti við að það hafi verið eindreginn vilji sambandsstjórnar Samiðnar sem fjallaði um málið á síðasta fundi sínum að halda viðræðunum áfram.

Skýr vilji Samiðnar

Samþykkt sambandstjórnarinnar hljóðar svo: „Sambandsstjórn lýsir yfir ánægju með störf starfsháttanefndar sem kosin var á síðasta þingi Samiðnar og samþykkir að hún haldi áfram störfum. Sambandsstjórn telur mikilvægt að kannað verði til hlítar hvort vilji sé til þess að iðnaðarmenn sameinist í eitt samband eða landsfélag. Sambandsstjórnin felur starfsháttanefnd að taka upp viðræður við önnur sambönd og/eða félög iðnaðarmanna með það að markmiði að búa til ein öflug samtök iðnaðarmanna. Að þeim viðræðum komi sambönd og landsfélög iðnaðarmanna innan ASÍ auk Vélstjórafélags Íslands. Starfsháttanefnd skal skila tillögum eða skýrslu til sambandsstjórnar eigi síðar en maí 2006.”
Eins og fram kemur í ályktuninni er það ótvíræður vilji sambandstjórnar að Samiðn hafi áfram forgöngu um að iðnaðarmenn sameinist í eitt stórt samband en nú er orðið ljóst að af því getur ekki orðið þar sem rafiðnaðarmenn kjósa að starfa einir.
– Það er ekki spurning að slagkraftur okkar mun aukast til muna takist að sameina iðnaðarmannahópinn innan ASÍ í nýtt samband. Mörg brýn mál brenna á verklýðshreyfingunni á komandi árum og það er nauðsynlegt að launafólk eigi sér sterka málsvara, segir Finnbjörn og bendir á breytingarnar á íslensku samfélagi á undanförnum árum. Sótt sé að áunnum réttindum og kjörum launafólks. – Alþjóðavæðingin hefur haft meiri áhrif á þróun vinnumarkaðarins á Íslandi síðastliðin fimm ár en marga áratugi þar á undan. Nú er íslenskur vinnumarkaður jarðarkringlan öll því að fyrirtæki eru mörg hver án landamæra. Íslensk fyrirtæki vinna nánast um allan heim og erlend fyrirtæki hasla sér í auknum mæli völl hér á landi. Fyrirtæki eru farin að spanna margar starfsgreinar og verksvið og menntun er í mörgum iðngreinum farin að skarast verulega við aðrar greinar. Því er nauðsynlegt að iðnaðarmannasamböndin og félög iðnaðarmanna ræði saman um samvinnu og skipulag.
Finnbjörn lýsir í ljósi þessar þróunar yfir undrun sinni á hugmyndum innan Félags járniðnaðarmanna um að yfirgefa Samiðn.
– Því er ekki að neita að það kom mér verulega á óvart að stjórn Félags járniðnaðarmanna skyldi fallast á að segja skilið við Samiðn verði af sameiningu við Vélstjórafélagið. Innan Samiðnar hafa menn lagt sig fram um að starfa að heilindum fyrir hina ólíku hópa sem mynda Samiðn og tekist bærilega. Það er ekki beinlínis í takt við þá þróun sem á sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar, ekki bara hér á landi heldur víðast hvar annars staðar þar sem frjáls verklýðshreyfing fær þrifist.
Stjórn Félags járniðnaðarmanna reiknar með að nýja sameinaða félagið, ef af verður, sæki um beina aðild að Alþýðusambandi Íslands og sjái þannig um aðgang málmiðnaðarmanna og vélstjóra að heildarsamtökum launafólks.
– Á meðan Samiðn fer með samningsumboð fyrir stóran hluta málmiðnaðarmanna í landinu er ekki sjálfgefið að nýja félagið fá aðild að ASÍ. Því verður skipulagsnefnd ASÍ að svara, segir Finnbjörn sem tekur fram að rétt sé að bíða með frekari yfirlýsingar um málið þar til atkvæðagreiðslan hefur farið fram. Hann leynir ekki þeirri skoðun sinni að honum finnist Félag járniðnaðarmanna vera að taka skref aftur á bak í stað þess að ganga fram veginn með félögum sínum innan Samiðnar. Það vissu allir sem að stofnun Samiðnar komu að litið var á sambandið sem fyrsta skrefið í áttina að einu iðnaðarmannasambandi.

Samvinna um fræðslumálin

– Að undanförnu hefur verið unnið að því að sameina fræðsluráðin sem séð hafa um endur- og símenntun iðnaðarmanna. Markmiðið með þessari vinnu er að búa til eitt öflugt tæki sem nýtist bæði félögum okkar og iðnfyrirtækjum til þess að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðinum.
– Hugmyndin er að sameina Fræðsluráð hótel- og matvælagreina, Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins, Menntafélag byggingariðnaðarins og Prenttæknistofnun undir nafni nýs fyrirtækis, og á það að heita Iðan ehf. Ætlunin er ekki bara að sameina starfsemi núverandi fræðslumiðstöðva heldur að stórefla það starf sem í boði verður. Vonandi náum við að ganga í takt í þessu máli þótt hluti málmiðnaðarmanna verði hugsanlega utan Samiðnar og hluti innan. Það gerir málið alltaf erfiðara og skapar togstreitu þegar menn eru bæði saman og sundur.
Finnbjörn segist binda vonir við að þótt sameiningarmálið við Bók og Mat sé nú í biðstöðu náist árangur í þeim viðræðum þegar þær fara af stað aftur eftir að niðurstaða liggur fyrir í atkvæðagreiðslu Félags járniðnaðarmanna.
– Þá eigum við á stuttum tíma að geta fundið út hvort við erum ekki að styrkja stöðu félagsmanna okkar með félagslegri sameiningu á svipaðan hátt og með sameiningunni í endurmenntunarmálum.