Lóðir, útboð og ódýrt vinnuafl

Lóðaúthlutanir: Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tilfinnanlegur skortur á lóðum undir nýjar íbúðir undanfarin ár. Þessi lóðaskortur hefur verið annar tveggja meginþátta í að hækka íbúðaverð á Íslandi. Hinn þátturinn er breytingar á lánafyrirkomulagi vegna íbúðakaupa. Þetta háa íbúðaverð hefur gert það að verkum að ágóði af byggingarstarfsemi hefur stóraukist. Ekki gréti ég það ef hann skilaði sér til þeirra launamanna sem húsin byggja. Þvert á móti hafa sum fyrirtæki leitað allra leiða að ná kostnaði niður með því að ná í vinnuafl eins ódýrt og kostur er. Oftar en ekki hefur það verið á kostnað gæða þar sem verið er að ráða óvant og ómenntað fólk í byggingariðngreinum til iðnaðarmannastarfa, jafnvel ferðamenn sem hafa stoppað hér á landi í þrjá mánuði. Af þessu höfum við töluverðar áhyggjur og höfum verið að vinna í að rétta þessa vitleysu. En annað stendur eftir.
Með þessari gífurlegu hækkun og það heimatilbúinni er verið að leggja miklar byrðar á fólk sem þarf að kaupa sér íbúðarhúsnæði eða stækka við sig. Byrðar sem fólk þarf að bera út starfsævina. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk borgar- eða bæjaryfirvalda að leggja auknar byrðar á íbúana umfram það sem fer í samneysluna og fyrir þá skattbyrði höfum við ákveðið kerfi. Hér eru yfirvöld á algerum villigötum. Hvort sem verið er að þétta byggð eða þenja út eiga yfirvöld að hafa nóg framboð af lóðum. Þörf fyrir byggingarlóðir á ekki að koma ráðamönnum á óvart. Eina afsökunin sem yfirvöld hafa í þessu sambandi er að land sé ekki til. Verðlagningin verður síðan að vera eftir kostnaði sem yfirvöld verða fyrir en ekki uppboð í lóðaskorti.
Síðasta vitleysan í þessum efnum er uppboðið á Úlfarsfellslandi. Þar er um hreina árás á laun byggingarmanna að ræða. Þanþol kaupgetunnar er á þrotum  þannig að þessari hækkun verður ekki velt alfarið út í verðlagninguna til hækkunar. Þá verður farið í að skoða verðmyndunina. Lóðaverðið er fasti, efnisverðið er fasti og sá gróði sem byggingaraðili telur sig þurfa er einnig fasti og mun ekki breytast fyrr en hann er búinn að djöflast á launalið byggingarkostnaðar. Ég tel einsýnt að nýjustu hækkun lóðaverðs verði mætt með því að notast í enn ríkara mæli við ófaglært vinnuafl með lakari vöruvöndun.

Útboðsstefna stjórnvalda: Samiðn gerði miklar athugasemdir við útboðsgögn Ríkiskaupa þegar viðgerð á íslensku varðskipunum var boðin út. Útboðsgögnin voru sérsniðin að erlendum skipasmíðastöðvum með því að setja inn skilyrði sem vitað var að íslenskar skipasmíðastöðvar gátu ekki uppfyllt. Verðin voru ekki þess eðlis að réttlætanlegt væri að senda verkin úr landi. Haft var samband við stjórnvöld vegna þessa og vel tekið í að laga útboðsgögn þannig að íslenskar skipasmíðastöðvar hefðu möguleika. Nýlega var boðin út breyting á Grímseyjarferju. Enn og aftur voru útboðsgögnin þess eðlis að þau voru sniðin að erlendum skipasmíðastöðvum. Það er með ólíkindum hvernig stjórnvöld geta hagað sér í þessum málum. Ef verið er að skrifa þessi útboð til útlanda þarf að finna ástæðuna og grípa í taumana. Engin haldbær rök eru fyrir því að verið sé að setja fram kröfur sem ekki eru gerðar til sambærilegra verka í einkageiranum eða víðast erlendis. Félag járniðnaðarmanna gerði alvarlega athugasemd við útboð Grímseyjarferjunnar og var útboðsgögnum að hluta breytt til móts við kröfur félagsins. En verkið fór á einhvern auramun úr landi. Hver er stefna stjórnvalda um að byggja upp íslenskan iðnað og íslensk fyrirtæki?

Héðinsfjarðargöng: Forval hefur farið fram um hverjir teljist hæfir til að bjóða í Héðinsfjarðargöng. Sex fyrirtækjahópar hafa verið valdir og hamast þeir þessa dagana við að reikna út kostnað sinn við framkvæmdina. Fimm fyrirtækjahópanna eru samsettir úr íslenskum fyrirtækjum og evrópskum fyrirtækjum. Sjötti aðilinn er kínverskt fyrirtæki sem er eitt og sér og fékk stimpil stjórnvalda sem hæft fyrirtæki til að bjóða í. Þetta vakti athygli og ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn að sagt er að kínverskt fyrirtæki býður í verk í Evrópu í eigin nafni. Ekki af því að þau hafi ekki áhuga heldur af því að stjórnvöld annars staðar í Evrópu vita að þau bjóða ekki í á samkeppnisgrundvelli við heimafyrirtæki og eru því ekki talin hæf. Þeir hafa með sér sitt vinnuafl sem þeir greiða kínversk laun. Ég tel nokkuð klárt að tilboð kínverska fyrirtækisins verði lægst. Það skiptir máli að í vinnuliðinn sem er líklega tæplega helmingur heildarkostnaðar geta þeir boðið í með vinnuafli sem tekur um það bil 10% laun miðað við hina hópana.
Í útboðsskilmálum er að sjálfsögðu sagt að fara skuli eftir íslenskum kjarasamningum og að innlent verkafólk sitji fyrir um störf og þess háttar. Við þekkjum það frá Kárahnjúkum að með því að bjóða einvörðungu lágmarkslaun fá þeir enga heimamenn og því koma þeir með kröfu á að gefa út atvinnuleyfi á sitt starfsfólk. Ég veit líka að þeir geta gefið út hvaða launaseðil sem íslensk verkalýðshreyfing vill sjá. Síðan er greitt allt annað kaup heima í Kína. Ef íslensk stjórnvöld geta ekki lært neitt af Kárahnjúkaverkefninu eigum við að gefa þeim frí. Hver er stefna íslenskra stjórnvalda í uppbyggingu íslenskrar verkþekkingar, lífskjara og styrks fyrirtækja?
Það er nefnilega þannig að það er hægt að bjóða út starf Ríkiskaupa og fá sprenglærða menn sem geta gert jafnvel eða betur en núverandi Ríkiskaup. Það er líka hægt að bjóða út starf vegamálastjóra og samgönguráðherra. Það er til fullt af fólki sem getur gert miklu betur fyrir minni pening en þeir. Við getum þess vegna fengið erlent starfsfólk til að vinna öll störf á Íslandi fyrir miklu minni pening en gert er í dag. Bara spurningin hvað við eigum að gera okkur til dundurs í framtíðinni.

Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður Samiðnar