Hársnyrtingar eiga við mig

Nonni Quest kallar hann sig. Um tíma snyrti hann hár rússneskra auðmanna sem höfðu með sér vopnaða lífverði. Núna eru helstu viðskiptamenn Nonna gestir Kringlunnar. Hann er nú á leið til Los Angeles til að taka þátt í sýningu. Rétt nafn Nonna Quest er Jón Aðalsteinn Sveinsson

– Ég ætlaði mér nú aldrei í hársnyrtingu. Móðir mín starfaði við þetta fag og sem krakki og unglingur fast mér þetta ekkert spennandi. En eftir að hafa reynt fyrir mér í bóklegu námi komst ég að því að það átti ekki við mig og niðurstaðan varð hársnyrting, segir Jón Aðalsteinn Sveinsson, betur þekktur í faginu sem Nonni Quest.
– Þetta nafn festist við mig eftir að ég setti á stofn stofu sem ég kallaði Quest. Ég kann ágætlega við þessa nafngift, nota hana óspart bæði hér heima og ekki síður í störfum mínum erlendis. Ég hef skroppið til útlanda öðru hverju og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem tengjast hársnyrtingu, segir Nonni sem nú sér ásamt fjölskyldu sinni) um rekstur hársnyrtistofunnar Kristu í Kringlunni auk þess sem þau eiga hárgreiðslustofunni Quest. Hún er líka til húsa í Kringlunni.
– Hér er alltaf nóg að gera og við erum 15 starfsmenn sem komum að þessari stofu. Auk fastakúnnanna er mikið um að fólk sem á erindi í Kringluna nýti ferðina og bregði sér í hársnyrtingu. Það er nokkuð algengt að eiginmennirnir skelli sér í klippingu meðan eiginkonurnar skoða vöruúrvalið hér í búðunum. Á góðum degi getum við afgreitt vel yfir 100 manns. Mest er að gera fyrir helgar og á laugardögum, segir Nonni en bætir við að í lok slíks vinnudags sé mannskapurinn alveg úrvinda enda er hársnyrtistarfið erfitt starf sem reynir mikið á líkamlegan styrk þess sem það stundar.
– Álagið er ekki bara líkamlegt heldur ekki síður andlegt. Hársnyrtifólk situr oft uppi með allslags vandamál sem viðskiptavinirnir trúa þeim fyrir á meðan þeir sitja í stólnum. Það er til fólk sem lítur hársnyrtistólinn svipuðum augum og bekkinn hjá sálfræðingnum. Hér fær það tækifæri til að tjá sig um alla skapa hluti, hvort sem talið snýst um þeirra eigin vandamál eða annarra. Við verðum að sýna því áhuga, það er okkar hlutverk, þó það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að innbyrða af áhyggjum annarra á einum degi, segir Nonni brosandi en bætir við að það lærist með tímanum að brynja sig gagnvart þessu. – Létt spjall er hluti af starfinu og er oftast vel þegið, og hársnyrtifólk er yfirleitt vel með á nótunum þar sem það tekur mikinn þátt í þjóðfélagsumræðunni með kúnnunum sínum.
Nonni hefur eins og fyrr segir kynnst því að starfa erlendis sem hárgreiðslusveinn, bæði í lengri og skemmri tíma.
– Ég hef í nokkur ár átt samstarf við hársnyrtivörufyrirtækið sem hefur beðið mig að taka þátt í ýmsum uppákomum á sínum vegum. Þeir báðu mig einu sinni að fara til Moskvu til að hjálpa þar til við að koma á fót hársnyrtistofu. Mitt hlutverk var að þjálfa upp mannskapinn og aðstoða á annan hátt við að koma þessari stofu á legg. Þetta var stór stofa í miðborginni með tugi starfsmanna. Það fór svo að ég dvaldist í Moskvu í tvö ár! Á þessum slóðum eru hársnyrtistofurnar stærri í sniðum en hér á landi. Innan veggja þeirra er gjarnan veitingahús, líkamsræktarstöð og snyrtistofa, og starfsmannafjöldi getur slagað upp í 50 manns. Það var mikil stéttaskipting á stofunni. Við sem vorum í hársnyrtingunni þurftum engar áhyggjur að hafa af því að sópa gólfið eða standa í móttöku, hvað þá að sinna símsvörun. Sérvalið starfsfólk sá um slíka hluti. Sætir strákar í móttökunni, alþýðlegar kerlingar sátu í kallaranum og svöruðu í símann meðan þeir sem minnst máttu sín sáu um að ekki lægju hárflygsur á gólfinu.
Á þessari stofu voru sérstök herbergi fyrir þá sem borguðu mest. Þangað mættu mektarmenn og -konur og gátu tekið með sér gesti sem sátu í fínum sófum eða stólum og nutu veitinga með hár kúnnans var snyrt. Í þessum herbergjum var líka sjónvarp í borðinu fyrir fram stólinn sem kúnnarnir gátu horft á meðan dúllað var við hárið á þeim, segir Nonni sem fer allur fer á flug þegar hann lýsir stemmingunni í Moskvu.
– Þótt stofan hafi upphaflega verið sett á laggirnar fyrir millistéttina í Moskvu fór það svo að vellauðugt fólk fór að venja komur sínar þangað. Oft kom fyrir að menn mættu þarna með hópi lífvarða og þá gættu vel vopnaðir verðir þess sem verið var að klippa. Ástandið í Moskvu kallaði líka á að við dyrnar hjá okkur væri alltaf vopnaður vörður, segir Nonni sem sagðist hafa vanist þessu með tímanum þótt þetta hafi verið hálf-óþægilegt í byrjun. Nonni segist reyndar oft hafa spurt sjálfan sig að því hvað hann væri eiginlega að gera þarna en hann sér ekki eftir því nú að hafa aflað sér þessarar reynslu.
– Fyrst ég hélt út í tvö ár í Moskvu get ég farið hvert sem er í heiminum, segir hann, og segist ekki bara hafa öðlast mikla reynslu í Moskvu, þar sem hann starfaði fyrir ýmsa þekkta fatahönnuði og tímarit meðfram starfi sínu á stofunni, heldur hafi hann eignast marga góða vini á þessum tíma.
– Það tók mig vissulega nokkurn tíma að kynnast Rússunum. Tungumálið var helsta ljónið á veginum. Rússneskan er svo gerólík okkar máli. En þegar maður hefur náð aðeins tökum á tungumálinu er björninn unninn. Rússar eru einstaklega gestrisið fólk og heimili þeirra standa vinum þeirra opin. Auk þeirra Rússa sem ég kynntist á þessum tíma blandaði ég geði við góðan hóp Íslendinga sem dvaldist í borginni, flestir við rússneskunám. Við áttum margar skemmtilegar stundir saman.

Á leið til LA

Nonni segist ennþá vinna tölvert fyrir hársnyrtivörufyrirtækið ICON products og er hann nú að undirbúa ferð til Los Angeles þar sem hann ætlar taka þátt í sýningu á vegum þeirra.
– Það eru forréttindi að fá tækifæri til að taka þátt í svona alþjóðlegu starfi. Maður fær stöðugt nýjar hugmyndir og sér hvað menn og konur í faginu eru að gera nýtt. Það er öllum nauðsynlegt að bregða sér út fyrir landsteinana öðru hverju til að fá nýja sýn á starfið, segir Nonni.
Aðspurður um þá umræðu sem staðið hefur meðal annars í Samiðnarblaðinu um skaðsemi hárlita segir hann að vissulega séu ákveðin efni hættuleg.
– En sem betur fer finnast einnig litir sem eru nánast alfarið búnir til úr náttúrlegum efnum. Við erum með einn slíkan hér sem nýtist til dæmis vel þeim sem hafa ofnæmi fyrir kemískum hárlitum. Þessi náttúrlegi litur er meðal annars notaður í grænu stofunni í Kaupmannahöfn – sem getið var í umfjölluninni um hárliti í síðasta Samiðnarblaði, segir Nonni og bætir við að þeim fjölgi stöðugt sem vilji nota þennan lit.
– Þessi náttúrlegi litur hefur alla eiginleika hefðbundins hárlitar, þekur vel og binst jafnvel og aðrir litir. Munurinn liggur í því hvernig hann festist við hárið, en það byggist meira á eðlisfræði en efnafræði. Ákveðin náttúrleg efni í honum virka eins og segull og læsa hann fastan við hárið, segir Nonni sem leggur áherslu á að hársnyrtivöruframleiðendur séu stöðugt að vinna í því að bæta sína framleiðslu, enda mikið í húfi.
– Hér kemur varla inn kvenkynskúnni sem ekki hefur látið lita á sér hárið. Stelpur byrja yfirleitt um fermingu að nota hárlit og eftir það er ekki aftur snúið, segir Nonni. Hann bendir á að karlmenn séu líka í auknum mæli farnir að láta lita á sér hárið.
Allt er þetta jákvætt fyrir stéttina. Þetta kallar á mikla vinnu hjá okkur og því ekki yfir neinu að kvarta, svo fremi sem við fáum umhverfisvæn efni til að vinna úr, segir Nonni Quest að lokum.