segir Sam Hägglund framkvæmdastjóri Norræna byggingarsambandsins um Vaxholms-málið sem nú er fyrir Evrópudómstólnum
Nú er rekið fyrir Evrópudómstólnum mál sem gæti haft verulega þýðingu fyrir kjör launafólks og starfsemi stéttarfélaga á Norðurlöndum. Það snýst um starfsemi lettneska verktakafyrirtækisins Laval un Partneri í Svíþjóð og viðbrögð samtaka sænskra byggingarmanna og rafvirkja við undanbrögðum þess frá því að greiða laun sem samrýmast sænskum kjarasamningum. Í húfi er hvorki meira né minna en réttur verkalýðshreyfingarinnar til þess að semja um laun í sínu heimalandi og hvort sá réttur stangast á við tilskipanir Evrópusambandsins.
Málavextir í svonefndu Vaxholm-máli eru raktir hér í opnunni en sænska verkalýðshreyfingin hefur skiljanlega mikinn áhuga á að dómur í þessu máli falli norrænni verkalýðshreyfingu í vil og freistar þess að hafa áhrif á ríkisstjórnir sem flestra aðildarríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins til að þær sendi dómnum álit sitt á málinu. Í því skyni kom hingað til lands Sam Hägglund framkvæmdastjóri Norræna byggingarmannasambandsins til viðræðna við íslenska ráðamenn og forystumenn í samtökum byggingarmanna.
Þrýst á ríkisstjórnirnar
Blaðamaður Samiðnarblaðsins hitti Sam Hägglund að máli og spurði fyrst hvað væri svona mikilvægt við þetta mál fyrir verkalýðshreyfinguna.
– Mikilvægi þessa máls ræðst af því að þarna er deilt um sjálfan grundvöll samskipta á vinnumarkaði eins og þau hafa þróast á Norðurlöndum. Þessi samskipti byggjast á því að sjálfstæð samtök semji um kaup og kjör án afskipta ríkisvaldsins. Spurningin í þessu máli er sú hvort stéttarfélög hafi rétt til að knýja fyrirtæki úr öðum ESB-ríkjum til þess að gera kjarasamning og hvort sænsk löggjöf um vinnumarkaðinn þurfi að víkja fyrir tilskipunum ESB um frjálst flæði þjónustu milli landa.
Sam segir að málið taki sinn tíma og vart sé að búast við niðurstöðu frá Evrópudómstólnum fyrr en eftir hálft annað ár. – Ástæðan fyrir því að ég kem hingað núna er sú að ríkisstjórnir EES-ríkjanna hafa rétt til að senda dómstólnum álitsgerð þar sem þær taka afstöðu til þeirra álitamála sem fyrir dómstólnum liggja. Þess vegna ræddi ég við fulltrúa félagsmálaráðuneytisins og bað hann að beita sér í málinu.
Og hvernig voru undirtektir í ráðuneytinu?
– Þær voru mjög jákvæðar og viðhorfin þar virtust vera mjög á sömu línu og í Danmörku þar sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir stuðningi við stefnu Svíþjóðar og Byggnads í þessu máli. Ég veit hins vegar ekki hvernig málinu verður tekið í ríkisstjórninni en þetta er skref í rétta átt.
– Fyrir okkur Svía er þetta sérstaklega mikilvægt vegna þess að hjá okkur eru ekki í gildi nein lögbundin lágmarkslaun heldur er mönnum skylt að gera kjarasamninga við stéttarfélög um öll laun. Ef við missum völdin yfir því hvaða laun eru greidd þegar þjónustusamningar eru annars vegar dettur botninn úr þessu kerfi og þá getum við ekki haft nein áhrif á það hvað fólki er greitt fyrir vinnu sína.
– Þetta snertir einnig önnur norræn ríki vegna þess að meginreglur á vinnumarkaði eru þær sömu alls staðar á Norðurlöndum. Við gerum almenna kjarasamninga sem ná til alls vinnumarkaðarins og yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem eru virkir á vinnumarkaði tilheyra stéttarfélögum sem sjá um þessa kjarasamninga. Þetta kerfi hefur reynst vel og á sinn þátt í því að Norðurlönd eru efst á lista þegar þjóðum er raðað eftir samkeppnishæfni. Þetta kerfi er því líka gott út frá sjónarhóli markaðarins og okkur ber að varðveita það.
Eftir að hafa fundað með fulltrúum stjórnvalda átti Sam Hägglund viðræður við íslenska stéttarbræður úr forystu verkalýðshreyfingarinnar. Þar bar meðal annars á góma þau áhrif sem alþjóðavæðingin hefur haft og á eftir að hafa á misskiptinguna, ekki bara í heiminum heldur hér á Norðurlöndum þar sem launajöfnuður hefur verið meiri en víðast hvar. Er ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun?
– Það er í sjálfu sér ekki hægt að gera mikið við því annað en að reyna að sjá til þess að launin lækki ekki. Þau munu vissulega hækka mismikið eftir löndum og stéttum en við verðum að sporna gegn því að jöfnun milli landa felist í því að launin lækki og botninn sé fjarlægður úr launakerfinu. Vissulega verðum við að vera sveigjanleg því það verða alltaf sveiflur og þeim þarf að mæta með innflutningi á vinnuafli.
– Það á hins vegar ekki að vera munur eftir stéttum hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru um launakjör. Í Svíþjóð hefur verið skortur á læknum og talsverð brögð að því að ráðnir séu læknar frá Austur-Evrópu til starfa. Þeir eru allir ráðnir á sömu kjörum og sænskir læknar njóta, það dettur engum annað í hug. Af hverju skyldi ekki það sama gilda um byggingarmenn? Af hverju eiga þeir að starfa eftir lettneskum eða rúmenskum kjarasamningum?
Tekist á innan Evrópusambandsins
Hvað getur verkalýðshreyfingin gert til að andæfa þessum skuggahliðum hnattvæðingarinnar?
– Við þurfum að standa vörð um þau réttindi sem norrænu stéttarfélögin hafa barist fyrir og náð. Það hefur sýnt sig að þau skapa velferð og gera lönd okkar samkeppnisfær. Til þess að standa vörð um þetta kerfi þarf verkalýðshreyfingin að vera öflug og þá er mikilvægt að halda í félagsmenn því það eru þeir sem gera félögin öflug. Svo verður verkalýðshreyfingin að beita sér pólitískt við hlið þeirra flokka sem vilja standa með henni. Síðast en ekki síst þarf hreyfingin að horfa út á við og vera virk á vettvangi Evrópusamstarfsins því þar eru í æ ríkari mæli teknar þær ákvarðanir sem skipta sköpum fyrir kjör almennings og störf stéttarfélaganna. Í því starfi verðum við að fylkja okkur með hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu, það hefur aldrei verið mikilvægara en nú og verður enn mikilvægara í framtíðinni.
– Nýju aðildarlöndin hafa skapað vissa spennu innan Evrópusambandsins, ekki síst vegna þess að þau aðhyllast mörg hver frjálshyggju og krefjast þess að sambandið sýni sveigjanleika, einnig á þann hátt að launin hjá okkur verði lækkuð. Fulltrúar þessara ríkja aðhyllast þá kenningu að ef við fjarlægjum allar takmarkanir á launakjörum fólks þá muni það starfa fyrir hrein markaðslaun og í kjölfarið fylgi velferð. Þessu trúum við ekki og þarna takast á grundvallarlífsviðhorf. Þess vegna þurfum við að halda vöku okkar og vera virk innan Evrópusambandsins, sagði Sam Hägglund framkvæmdastjóri Norræna byggingarmannasambandsins. –ÞH