Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir meðal félaga í Félagi járniðnaðarmanna um hvort rétt sé að sameina félagið Vélstjórafélagi Íslands. Viðræður um þetta hafa staðið yfir um nokkra hríð og liggur fyrir skýrsla viðræðunefndar um málið.
Öllum greiðandi félagsmönnum Félags járniðnaðarmanna hafa verið send kjörgögn og munu niðurstöður liggja fyrir 31. mars.
Örn Friðriksson formaður Félags járniðnaðarmanna segir að það hafi verið sameiginleg niðurstaða þeirra sem tóku þátt í viðræðunum, og reyndar ein af forsendum þess að félögin sameinuðust, að Félag járniðnaðarmanna segði sig úr Samiðn. Vélstjórafélagið hefur verið utan slíkra sambanda, bætti hann við, og það var krafa frá þeim að svo yrði áfram. Ætlunin er að ef af verður sæki sameinaða félagið um beina aðild að ASÍ.
2.100 vélstjórar – 1.800 járniðnaðarmenn
Í skýrslu viðræðunefndarinnar kemur fram að Vélstjórafélagið er landsfélag með um 2.100 félagsmenn og þar af starfar um helmingur til sjós. Í Félagi járniðnaðarmanna eru um 1.800 félagsmenn þannig að félögin eru álíka stór. Fjárhagslega standa félögin svipað. Með sameiningunni yrði talsverð fjárhagsleg hagræðing, bæði hvað varðar rekstur húsnæðis og í starfsmannahaldi. Í skýrslunni segir jafnframt að sjúkra- og orlofssjóðir verði reknir á sérstökum kennitölum og með stjórnir sem verða kosnar á aðalfundi félagsins. Öflugur sjúkrasjóður í sameinuðu félagi hafi betri áhættudreifingu en tveir sjóðir. Orlofsaðstaða félagsmanna verði fjölbreyttari, eða samtals um 30 sumarhús auk 5 íbúða í Reykjavík og á Akureyri.
Eitt af áhersluatriðum í nýju félagi er að byggja upp jákvæða og öfluga ímynd fyrir félagið sem geri það sýnilegt. Jafnframt því verði lögð áhersla á jákvæða ímynd starfsgreinanna ásamt þekkingu og hæfni félagsmanna með markvissu kynningar- og markaðsstarfi, segir meðal annars í skýrslu viðræðunefndar.
Fræðslusjóður í nýju félagi á að starfa líkt og verið hefur, þ.e. annars vegar með beinum styrkjum til félagsmanna og hins vegar með framlagi til Fræðslumiðstöðvar málmiðnaðarins sem er m.a. ætlað að byggja upp öflugri símenntun á véltæknisviði með áherslu á að þjóna vélstjórnargeiranum.
Kjarasamningar
Fjöldi kjarasamninga sem félögin gera nú er 25 talsins, segir í skýrslunni. Þeim mun eflaust fækka í framtíðinni en jafnframt rúma fleiri launaflokka með tilliti til fjölbreyttrar menntunar félagsmanna. Við gerð hvers samnings skipa þeir sem búa við kjarasamninginn sérstaka samninganefnd en félagsstjórn skipar formann samninganefndar. Þannig yrðu samningar t.d. vélstjóra á sjó í höndum kjaranefndar sem þeir kjósa sjálfir. Tveir starfsmenn félagsins eiga að sinna kjaramálum og hafa sérþekkingu á annars vegar kjörum sjóvélstjóra og hins vegar landmanna. Þeirra hlutverk verður m.a. að vakta kjör viðkomandi starfshópa, aðstoða samninganefndir við samningagerð og annast túlkun samninga.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að fjárhagsleg hagræðing af sameiningu geti numið allt að 22 milljónum króna. Þar segir jafnframt að talið sé að sameinað félag verði af hentugri stærð þegar horft er til persónulegrar þjónustu og hagkvæms reksturs.