„Fundur starfsmanna á aðalverkstæði Ísal / Alcan í Straumsvík haldinn 30. desember lýsir megnri andstyggð á þeirri starfsmannastefnu fyrirtækisins sem kemur fram í tilefnislausum uppsögnum starfsmanna sem unnið hafa farsælt starf í fjölda ára fyrir fyrirtækið og ógeðfelldum aðferðum við brottrekstur.
Í gær var enn einum vinnufélaga okkar sagt upp störfum fyrirvaralaust og án þess að hann fengi nokkra skýringu á ástæðu uppsagnar þó eftir því væri leitað.
Aðferðin sem Ísal / Alcan hefur beitt frá því að samningar voru gerðir við uppsagnir gagnvart þeim sem ekki eru þóknanlegir yfirmönnum er þessi:
- Starfsmaður er boðaður fyrirvaralaust á fund yfirmanns og starfsmannastjóra og tilkynnt um brottrekstur sem komi tafarlaust til framkvæmda.
- Starfsmaður fær enga skýringu á uppsögn þó eftir því sé leitað.
- Starfsmanni er bannað að fara á vinnustað sinn til að sækja persónulega muni og kveðja vinnufélaga.
- Starfsmanni er skipað að yfirgefa umráðasvæði fyrirtækisins þegar í stað og það er framkvæmt undir eftirliti fulltrúa þess.
Þessi framkoma stjórnenda fyrirtækisins hefur valdið miklum ugg meðal starfsmanna um atvinnuöryggi og að þeir verði einnig meðhöndlaðir sem brotamenn ef skoðanir þeirra falla ekki í geð yfirmanna.
Fundurinn bendir á að með þessari uppsagnaraðferð er fyrirtækið að ganga þvert á skrifaða stefnu fyrirtækisins og þar að auki að brjóta gerðan kjarasamning.
Með gerðum sínum hefur fyrirtækið brotið gegn eftirfarandi yfirlýsingu sem er hluti af kjarasamningi milli aðila.
“Stefna Ísal er að við uppsögn starfsmanns skal fylgt þeirri starfsreglu að gefa viðkomandi kost á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar.”
Með þessari yfirlýsingu tekur fyrirtækið á sig skyldu til að greina starfsmanni frá ástæðum uppsagnar sem jafnframt leiðir til þess að um málefnanlegar uppsagnarástæður þarf að vera.
Fundurinn skorar á fyrirtækið að hætta þegar í stað ógeðfelldum uppsagnaraðferðum og fylgja eigin starfsreglum í samskiptum við starfsmenn í samræmi við gefnar yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga.“