Útlendingar eru velkomnir en ekki til að keyra niður kjörin

Rætt við Sigurð Magnússon um átaksverkefni ASÍ gegn félagslegum undirboðum

„Einn réttur – ekkert svindl“ er heitið á átaki sem Alþýðusamband Íslands hratt úr vör 2. maí í vor. Það beinist gegn félagslegum undirboðum og ólöglegri atvinnustarfsemi með erlendu jafnt sem innlendu verkafólki. Tveir starfsmenn hafa sinnt þessu verkefni í sumar, Sigurður Magnússon og Guðmundur Hilmarsson. Samiðnarblaðið hitti Sigurð að máli og spurði hvernig verkefnið hefði gengið.

– Verkefnið er í því fólgið að taka við ábendingum um fyrirtæki sem svína á erlendu verkafólki. Ábendingarnar koma frá ýmsum, vinnufélögum, viðskiptavinum fyrirtækja og öðrum. Við reynum að sannreyna þær og ef við teljum að þær hafi við rök að styðjast höfum við samband við viðkomandi stéttarfélag og könnum málið nánar. Við höfum látið setja saman bæklinga á tíu tungumálum um réttindi og skyldur manna á íslenskum vinnumarkaði og höfum þá með þegar við förum í heimsókn á vinnustað. Þar tökum við stjórnendur tali og spyrjumst fyrir um kjör útlendinga sem hjá þeim starfa.

– Reglurnar eru þannig að trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaga hafa rétt til að kanna kjör erlendra starfsmanna en við megum það ekki. Ef við komumst að því að launin sem útlendingum eru greidd eru undir gildandi taxta eða menn eru á röngum taxta, njóta ekki starfsaldurshækkana og þess háttar, þá reynum við að fá það leiðrétt.

– Við erum búnir að heimsækja 47 vinnustaði í kjölfar ábendinga, flesta í byggingariðnaði, og höfum líka gert stikkprufur annars staðar, til dæmis á gróðrarstöðvum, hótelum og veitingahúsum. Með okkur hafa verið fulltrúar allra þeirra stéttarfélaga sem eiga félagsmenn á staðnum og árangurinn hefur verið ágætur. Okkur hefur tekist að lagfæra kjörin hjá þó nokkrum hópi útlendinga.

Bein ráðning er best

Sigurður segir að málin séu yfirleitt einföld viðureignar þar sem um er að ræða starfsmenn sem hafa sótt um og fengið atvinnu– og dvalarleyfi. Þá geti stéttarfélögin fylgst með greiðslum og fengið að sjá launaseðla og annað.

Viðtökur fyrirtækja sem ráða starfsmenn frá útlöndum eftir þessari leið eru oftast góðar og þeir hafa jafnvel samband að fyrra bragði svo þeir geti haft allt í réttu horfi.

– Stærsta vandamálið eru svonefnd þjónustuviðskipti þar sem fyrirtæki flytja inn starfsmenn til tiltekinna verka, oft fyrir milligöngu erlendra starfsmannaleigna. Þessi viðskipti hafa verið að breiðast út en um þau gilda engar reglur. Að sjálfsögðu er til í dæminu að þessum starfsmönnum séu tryggð rétt kjör en oft er svar stjórnenda að þeir greiði hinu erlenda fyrirtæki einhverja summu sem þeir viti ekkert hvernig skiptist.

– Oft eru fyrirtækin í góðri trú og tæplega hægt að segja að þau séu beinlínis meðsek í því að svindla á útlendingum, menn loka bara augunum.

Viðbáran er oft sú að þetta sé fljótlegri aðferð til að fá erlenda starfsmenn til landsins en að sækja um atvinnuleyfi fyrir þá. Fyrirtækin hafa þar nokkuð til síns máls og þess vegna er það jákvætt að Útlendingastofnun og Vinnumálastofnunin ætla að stytta umsóknarferilinn.

Bein ráðning með atvinnuleyfi er æskilegasta formið því þá er allt uppi á borðinu.

– Hins vegar eru nokkur brögð að því að fyrirtæki, jafnvel þekkt og áberandi, noti allar leiðir til þess að sleppa eins ódýrt frá launagreiðslum og hægt er. Þau ganga jafnvel svo langt að stofna fyrirtæki ytra sem hafa milligöngu um innflutning á starfsfólki. Hér starfa líka verktakafyrirtæki, ekki síst í byggingariðnaði, sem hafa skotið upp kollinum eftir að þenslan hófst og virðast hafa það meginhlutverk að flytja inn erlenda starfsmenn sem þau framleigja til annarra verktaka. Við höfum haft nokkur afskipti af svona málum og í flestum tilvikum hafa notendafyrirtækin leiðrétt kjör útlendinganna. Þess eru nokkur dæmi að þau hafi ráðið mennina til sín á venjulegum kjörum eftir að samningur við milliliðinn rennur út.

Varað við okkur og löggunni

– Því miður eru þess dæmi að milliliðirnir séu vísvitandi að brjóta á rétti útlendinga. Þekktasta dæmið sem stéttarfélögin hafa haft afskipti af er af fyrirtækinu Geymi sem fékk atvinnuleyfi fyrir tólf Pólverja undir því yfirskyni að þeir ættu að vinna við nýbyggingu á Kjalarnesi. Þeir voru hins vegar leigðir áfram til fyrirtækja sem greiddu á bilinu 1400– 1700 krónur fyrir vinnustundina. Pólverjarnir fengu hins vegar ekki nema 480 krónur á tímann.

– Í þessu tilviki voru engir launasamningar til fyrr en eftir á. Við fréttum af þessu og hittum Pólverjana sem voru mjög hræddir af því það var búið að hóta að senda þá heim. Við höfðum samband við Útlendingastofnun og gátum stöðvað það. Síðan sömdum við beint við notendafyrirtækin um launagreiðslur og nú er þetta í góðu lagi.

Sigurður segir að yfirleitt taki útlendu starfsmennirnir þeim vel enda ekki við þá að sakast. Þeir komi yfirleitt í góðri trú.

– Í langflestum tilvikum er þarna á ferðinni fjölskyldufólk sem er að sjá sér og sínum farborða og tekur okkur fagnandi. Stundum er búið að hræða þá með okkur, annaðhvort hér heima eða í heimalandi þeirra. Í Eystrasaltslöndunum er okkur sagt að fólk sem fer vestur á bóginn til vinnu sé varað við tvennu: Lögreglunni og fulltrúum stéttarfélaganna. En þegar þeir átta sig á að við erum að reyna að hjálpa þeim að ná rétti sínum breytist viðhorfið til hins betra.

– Þess eru þó dæmi að menn komi hingað vísvitandi í þeim tilgangi að vinna ólöglega. Þau eru ekki mörg en þar hafa átt í hlut menn frá Lettlandi og Litháen og þeir eru oft í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi.

Glæpasamtök þessara landa stunda fjölbreytta starfsemi og á Norðurlöndum eru þess ófá dæmi að þangað séu send burðardýr með fíkniefni sem síðan eiga að koma sér í svarta vinnu. Þetta fólk ferðast sem almennir ferðamenn og er utan við lög og rétt.

Vantar reglur

Í þessu starfi þurfa þeir Sigurður og Guðmundur að hafa töluverð samskipti við stjórnvöld og stofnanir hins opinbera.

– Við höfum átt fundi með sýslumönnum, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, skattyfirvöldum, heilbrigðiseftirliti og fleiri stofnunum. Þegar við komumst að því að maðkur sé í mysunni látum við skattyfirvöld oft vita því í mörgum tilvikum er farið á svig við skattalög. Vandi okkar í þessum samskiptum er sá að við fáum ekki að fylgjast með því sem gerist fyrr en endanlegur úrskurður fellur. Það sama á við um afskipti lögreglu af málum en við fáum greinargóðar upplýsingar frá Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun um þeirra afskipti af málum sem við vísum til þeirra.

Sigurður segir að þess séu vissulega nokkur dæmi að menn láti sér ekki segjast við tiltal og haldi áfram að brjóta á fólki. – Þegar svo ber undir höfum við þann möguleika að vísa málum til samráðsnefndar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins en hún er með fjögur mál í gangi þessa stundina.

Hann segir að stærsta vandamálið sé að ekki skuli vera til neinar reglur um þjónustuviðskiptin en vonar að það standi til bóta. – Nú er að störfum nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem ætlað er að semja slíkar reglur. Málið var rætt á alþingi í vor og verður vonandi tekið upp aftur nú í haust. En meðan engar reglur eru til um þessi viðskipti þá er eina leiðin sem við höfum til að ná utan um kjör útlendinganna að kæra til ríkisskattstjóra. Fyrirtækin verða að standa skil á staðgreiðslu skatta og þá dugar ekki að hafa bara eina summu fyrir stóran hóp. Þau verða að halda launabókhald sem sýnir laun hvers og eins.

Framtíðin óljós

Átakið „Einn réttur – ekkert svindl“ var sett á til næstu áramóta og segir Sigurður að óvíst sé um framhaldið. Hugsanlega flytjist það til stéttarfélaganna en þar er aðstaðan misjöfn til þess að fylgjast með stöðu útlendinga. – Smærri félögin eiga erfitt með það en stærri samböndin ættu ekki að lenda í neinum vandræðum, segir hann.

Að lokum segist Sigurður sveiflast nokkuð á milli bjartsýni og svartsýni um kjör útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

– Það eykur mér bjartsýni þegar mál ganga vel hjá okkur en það er ljóst að í sumum greinum er vandinn meiri en í öðrum. Þetta á einkum við um byggingariðnaðinn því þar er þenslan mest. Stærri verktakafyrirtækin eru flest með sitt á þurru en það er töluvert um vandamál í smærri fyrirtækjum og eins þar sem einstaklingar eru sjálfir að byggja, til dæmis sumarhús. Í veitingabransanum er löng hefð fyrir svartri atvinnustarfsemi en hún nær ekki síður til Íslendinga en útlendinga.

– Það eykur mér líka bjartsýni að fólk virðist vera að vakna til vitundar um að það tapi allir á því að láta reka á reiðanum. Ef við látum það viðgangast að útlendingar búi við lakari kjör en Íslendingar lendum við í vandræðum þegar um hægist og draga tekur úr þenslunni. Nú er mikill skortur á vinnuafli vegna þeirra stórframkvæmda sem stjórnvöld hafa hrundið af stað en þegar þeim lýkur er hætt við að kjörin versni yfir línuna. Útlendingarnir sem hingað koma eru að sjálfsögðu velkomnir til að vinna en ekki til að keyra niður kjörin í landinu, segir Sigurður Magnússon starfsmaður átaksins..