Það á enginn að verða veikur af vinnunni sinni!

Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina er nýkomin af norrænni ráðstefnu þar sem skaðsemi hárlita var til umfjöllunar. Hún segir mikla þörf á að taka til í þeim efnum.

Það er staðreynd að margir hársnyrtar glíma við vanlíðan í vinnunni.

Stoðkerfisvandamál eru til dæmis útbreidd meðal þeirra þar sem vinnustellingar hársnyrta eru ekki beinlínis heilsusamlegar. Við þessu er lítið að gera annað en að hvetja þá til að breyta vinnustellingum sínum, nota stóla og standa til skiptis.

– Hitt er öllu verra að hársnyrtar þurfa í störfum sínum að meðhöndla ýmis hættuleg efni í þeim fjölmörgu hársnyrtivörum sem nú eru notuð. Það að fólki skuli vera boðið upp á að vinna með efni sem geta valdið þeim varanlegum skaða er nokkuð sem við eigum ekki að líða, segir Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina, en hún er nýkomin af norrænni ráðstefnu hársnyrtisveina þar sem umhverfisvæn stefna í háriðnaði var efst á baugi.

Hársnyrtiiðnaðurinn í Evrópu veltir árlega um 10 milljörðum evra

Þátttakendur á ráðstefnunni voru að sögn Súsönnu sammála um að það væri löngu orðið nauðsynlegt að taka þessi mál til alvarlegar umræðu og grípa til aðgerða til þess að knýja á um að á markaðinn verði settar hættuminni og umhverfisvænni hársnyrtivörur.

Á ráðstefnuna kom meðal annars Johann Galster efnafræðingur frá umhverfiseftirlitinu í Kaupmannahöfn. Í máli hans kom fram að hársnyrtiiðnaðurinn í Evrópu velti árlega um 10 milljörðum evra sem hann sagði að samsvaraði um 10% af þjóðarframleiðslu Dana. Nú starfa um 40 þúsund manns við framleiðslu á þessum vörum en í allt starfa um 160 þúsund manns við framleiðslu á snyrtivörum í Evrópusambandinu. Johann sagði að erfitt væri við þennan iðnað að eiga þar sem að baki honum stæðu sterk öfl sem ættu mikið undir sér og þau nýttu sér allan sinn styrk þegar kæmi að því að koma framleiðslunni á markað. Þó velktust menn ekki lengur í vafa um að notkun margra þessara efna hefur valdið alvarlegu heilsutjóni hjá fólki sem starfar við hársnyrtingu, sagði Johann, og jafnframt sæti samfélagið uppi með mikinn kostnað af þessum völdum. Því væri brýnt að taka á vandanum.

Johann Galster sýndi ráðstefnugestum nokkra liti á markaði sem innihalda þekkt eiturefni og kom fram í máli hans að snyrtivöruiðnaðurinn væri undanþeginn þeim skyldum að merkja þessa vöru, til dæmis með hauskúpu, eins og framleiðendur ýmissar annarrar efnavöru þurfa að gera.

Efni sem valda ofnæmi

Þá fjallaði Johann nokkuð um vörur með efnum sem valda ofnæmi og nefndi hann sérstaklega efnið PPD sem getur valdið ofnæmi þótt það sé aðeins 0,01% af innihaldi snyrtivöru. Þrátt fyrir þessa staðreynd er leyfilegt magn efnisins 6% af innihaldi, en þetta efni er notað við að festa hárlit. Notkun efnisins var um árabil bönnuð í Svíþjóð en það bann stangaðist á við reglur ESB og var tekið aftur.

– Það er athyglisvert, segir Súsanna, að PPD-efnið hefur verið tekið úr þeim hárlitum sem seldir er í verslunum til almennings. Væntanlega vegna þess að fjölmiðlar hafa verið duglegir við að benda á hættuna samfara notkun þessa efnis. En enn þann dag í dag er efnið þó sett í þónokkra liti sem fagfólk notar. Afleiðingar af langvarandi umgengni við þetta efni geta verið margvíslegt heilsutjón, svo sem hormónatruflanir, frjósemisvandamál, krabbamein í eitlum og brjóstkrabbi, auk þess sem PPD veldur ofnæmi eins og áður sagði.

– Johann Galster sýndi okkur framleiðsluvöru sem framleiðandanum þykir rétt að prófuð sé á neytendum með 48 stunda fyrirvara áður en efnið er notað til að lita hár viðkomandi, og jafnframt hárlit sem getur valdið blindu ef hann berst í augu. Þessi dæmi sanna vel hversu alvarlegt þetta mál er. Þessir hárlitir eru á markaði og okkar kollegar eru að meðhöndla þessi efni, segir Súsanna og bætir við að fundarmenn hafi almennt verið undrandi yfir því að það skuli vera liðið að á markaði séu svo hættulegar snyrtivörur.

Þá var á ráðstefnunni nokkuð fjallað um merkingar á umbúðum og kom fram í máli efnafræðings að mikið vantaði á að framleiðendur stæðu við skuldbindingar sínar í þeim efnum.

Að sögn Súsönnu hefur nokkur árangur orðið af baráttu norrænu hársnyrtifélaganna fyrir bættum hárlitarefnum. Fyrir skömmu settu félögin upp bannlista á netinu yfir þær vörur sem innihéldu hættuleg efni. Þessum lista mótmæltu framleiðendur en eftir að þeim varð ljóst að ekkert mark yrði tekið á mótmælunum sýndu þeir vilja til að bæta framleiðsluna, segir Súsanna og leggur áherslu á að niðurstaða ráðstefnugesta hafi verið að eftirlitsstofnanir á borð við Vinnueftirlitið verði að halda vöku sinni og taka höndum saman við fagfélögin við að knýja á um úrbætur.

Danir í farabroddi

Súsanna segir að hársnyrtar séu nú að gera sér grein fyrir að á þessum vanda þarf að taka, og sérstaklega í Danmörku séu þeir í fararbroddi þeirra sem vilja umbætur í þessum efnum.

– Í könnun sem danska hársnyrtifélagið gerði fyrir skömmu kom í ljós að 67% aðspurðra upplifðu ertingu á húð í sínu starfi og að 33% ættu við óþægindi í öndunarfærum að stríða. Það var niðurstaða danska félagsins að þessa vanlíðan félagsmanna mætti rekja til þeirra efna sem þeir eru að vinna með.

Félagið hvetur félagsmenn sína til varkárni og biður þá að nota alltaf einnota hanska við vinnu sína.

– Barátta danskra hársnyrta fyrir bættu vinnuumhverfi hefur orðið til þess að skólarnir þar í landi leggja nú sífellt aukna áherslu á að kenna meðferð vistvænna efna. Þar í landi hefur einnig verið komið á fót vistvænum hársnyrtistofum, segir Súsanna. – Á ráðstefnuna mætti kona sem um árabil hefur rekið græna stofu í Kaupmannahöfn og fræddi okkur um þær áherslur sem hún leggur í sínum stofurekstri. Hún sagði meðal annars að allir þeir sem hjá henni starfa hafi lent í ofnæmi á öðrum stofum og dottið út úr faginu.

Hún sagðist ekki vinna með neina ákveðna vörutegund heldur velja vörurnar eftir innihaldi, og lagði áherslu á að þótt vörur væru merktar vistvænar væri ekki víst að þær hentuðu öllum. Eitt vörumerki nefndi hún þó sem dæmi um góðar vistvænar vörur og var það vörumerkið „New generation“, segir Súsanna og bætir við að það eina sem ekki er framkvæmt á grænu stofunni í Kaupmannahöfn væri permanent, þar sem vistvænt permanent er ekki til.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt umhverfisstefna fyrir hársnyrtigreinarnar og stefnt er að því að sameina krafta allra þeirra sem þetta mál varðar, sérstaklega launþega, atvinnurekendur og vinnueftirlit, í baráttunni fyrir því að framleiðendur hefji nú þegar framleiðslu á skaðlausum hársnyrtivörum..

– Allir ráðstefnugestirnir voru sammála um eitt: Það á enginn að verða veikur af vinnu sinni! segir Súsanna Vilhjálmsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina og vonar að félagsmenn sínir sýni varkárni við meðhöndlun hárlita og noti alltaf einnota hanska við þá vinnu.