Þjónustuviðskiptin komin út í algerar öfgar, segir Halldór Jónasson starfsmaður TR
Halldór Jónasson starfsmaður Trésmiðafélags Reykjavíkur hefur farið á marga vinnustaði til þess að athuga kjör og stöðu erlendra starfsmanna. – Við höfum verið að skoða hvort þeir sem gegna störfum iðnaðarmanna séu til þess menntaðir og hæfir, hvort þeir eru á sömu launum og íslenskir iðnaðarmenn og hvort þeir hafa gild dvalar- og atvinnuleyfi, segir hann.
Í þessu skyni hafa Halldór og fleiri starfsmenn stéttarfélaga farið á tugi vinnustaða frá því í fyrravetur og rætt við hundruð erlendra starfsmanna.
Stór hluti iðnaðarmannanna er frá Póllandi og þeir pluma sig yfirleitt vel.
– Þeir eru flestir góðir iðnaðarmenn með ágæta menntun, hafa fengið dvalar- og atvinnuleyfi og aðlagast vel íslenskum vinnumarkaði.
– Öðru máli gegnir um marga þeirra sem koma frá Eystrasaltslöndunum enda eru þeir hér á öðrum forsendum. Þeir koma hingað í krafti einhvers konar þjónustusamninga sem komnir eru út í algerar öfgar. Fyrirtækin segjast vera að kaupa pakka sem inniheldur efni og vinnu en oft er þetta lítið annað en nokkrir menn og spónaplata. Þessir menn segjast oft vera sérfræðingar en óljóst er í hverju sérfræðiþekkingin er fólgin. Oft eiga þeir erfitt með að sanna starfsréttindi sín og upplýsingar um kjörin sem þeir njóta liggja ekki á lausu. Fyrirtækin segja oft að kjör starfsmanna komi þeim ekki við, þau borgi bara fyrir pakkann, segir Halldór.
Innfluttir „sérfræðingar“
Hann bætir því við að oft hafi þeir orðið vitni að vinnubrögðum sem ekki séu iðnaðarmönnum sæmandi. Það sé hins vegar erfitt að meta þá pappíra sem menn sýna.
– Iðnnám og iðnréttindi eru mjög misjöfn eftir löndum í Evrópu. Sums staðar, til dæmis í Portúgal, fá menn réttindi eftir að hafa aflað sér starfsreynslu. Þessi óvissa er því alls ekki einskorðuð við Austur-Evrópu.
Hann segir að sum fyrirtæki geri út á þessi þjónustuviðskipti til þess að ná sér í ódýrt vinnuafl. – Þau nota þensluna til að raka inn peningum og svíkja fólk um réttmæt laun í stórum stíl. Staðan er sú að það vantar alls staðar menn til vinnu og þá spretta upp ný fyrirtæki sem taka að sér staka verkþætti og flytja inn „sérfræðinga“ til að sinna þeim. Í sumum tilvikum eru þetta ferðamenn sem staldra við í þrjá mánuði. Það er að sjálfsögðu svört atvinnustarfsemi þótt margir telji sig vera réttum megin við lögin.
Stundum hefur það gerst að fyrirtækin neita að kannast við mennina sem þau eru með í vinnu og þeir finnast hvergi á launaskrá.
– Útlendingarnir eru yfirleitt fúsir að veita okkur upplýsingar, enda eru þeir í góðri trú um að allt sé í lagi. Þeir verða oft skelfingu lostnir þegar við gerum þeim grein fyrir að þeir séu ólöglegir í landinu. Þess eru dæmi að menn hafi flúið, jafnvel stokkið fram af svölum, þegar við segjum þeim að því miður þurfum við að kalla til lögreglu. En þannig eru reglurnar að ef menn eru komnir inn í landið á ólöglegan átt þá verða þeir að fara úr landi til að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi, jafnvel þótt atvinnurekandinn sé reiðubúinn að ráða þá til vinnu.
Hann segir töluvert vera um svarta atvinnustarfsemi og að hún þrífist á ótrúlegustu stöðum. – Þess eru dæmi að heilu blokkirnar hafi verið byggðar að mestu í svartri vinnu. Hún er þó algengari í smærri verkum eins og sumarhúsum og þess háttar. En það er furðulegt að þetta skuli þrífast í almennum byggingariðnaði.
Ævintýralegur gróði
Halldór er bjartsýnn á að þessar vísvitandi tilraunir til svartrar atvinnustarfsemi hætti þegar dregur úr þenslunni. Öðru máli gegni hins vegar um þjónustuviðskiptin. – Þau geta haldið áfram og aukist ef ekki verða settar nýjar reglur um þau. Og þá er ekkert sérstaklega bjart framundan. Halldór segir að þetta ástand sé farið að hafa áhrif á kjör íslenskra iðnaðarmanna. – Við höfum heyrt að mönnum sé hótað að ef þeir verði ekki til friðs og sætti sig við þau kjör sem þeim standa til boða verði bara ráðnir Pólverjar í þeirra stað. Þrátt fyrir þensluna hefur nær ekkert launaskrið orðið í byggingariðnaði. Hækkun fasteignaverðs hefur heldur ekki skilað sér til iðnaðarmanna, verktakar og fasteignasalar sitja einir að því. Gróði þeirra sumra hverra er ævintýralegur um þessar mundir, segir Halldór Jónasson.
– ÞH