Í tilefni af umræðum síðustu daga um málefni starfsmannaleigunnar 2 B ehf hafa Vinnumálastofnun og Samtök atvinnulífsins tekið af öll tvímæli þess efnis að fyrirtækinu 2 B ehf ber að sækja um atvinnu- og dvalarelyfi fyrir starfsmenn á þess vegum, auk þess sem því ber að fylgja lögum og ákvæðum íslenskra kjarasamninga hvað kjör mannanna varðar.
Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnuna hefur sent frá sér yfirlýsingu í þessa veru: „Með vísan til fyrirspurnar Alþýðusambands Íslands skal það upplýst að Vinnumálastofnun túlkar og framkvæmir lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 á þann veg að fyrirtæki með staðfestu á Íslandi, sem óskar eftir erlendu vinnuafli frá hinum nýju ríkum Evrópusambandins eða ríkjum sem standa utan EES verður að sækja um atvinnuleyfi sbr. lög 97/2002 og dvalarleyfi sbr. lög um útlendinga nr. 96/2002. Breytir þá engu hvort fyrirtækið er starfsmannaleiga eða stundar annars konar starfsemi. Virðingarfyllst, Gissur Pétursson forstjóri.“
Í Blaðinu fimmtudaginn 27. október er eftirfarandi haft eftir Hrafnhildi Stefánsdóttur, yfirlögfræðingi SA: „Afstaða okkar er algerlega klár, en hún er að fyrirtæki verða að greiða hér laun í samræmi við íslenska kjarasamninga og fylgja almennt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmannaleigur verða að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki.“