Mikill fjöldi starfsmannaleigna starfar hér nú en enginn hefur heildaryfirsýn yfir fjölda þeirra eða hvað margir starfsmenn eru á þeirra vegum
Með tilkomu Impregilo og þeirra starfshátta sem því fylgdi varð öllum ljóst sem vildu vita að ef ekki yrði brugðist við með lagasetningu á starfsmannaleigur mundi skapast upplausnarástand á íslenskum vinnumarkaði.
Verkalýðshreyfingin kallaði eftir samræmdum viðbrögðum félagsmálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins strax árið 2003. Félagsmálaráðherra neitaði að horfa framan í veruleikann og Samtök atvinnulífsins neituðu að gera kjarasamninga við Samiðn um rétt starfsmanna á vegum starfsmannaleigna. Skort hefur ramma utan um starfsemi starfsmannaleigna á sama tíma og starfsmönnunum á þeirra vegum hefur fjölgað gríðarlega.
Mikill fjöldi starfsmannaleigna starfar hér nú en enginn hefur heildaryfirsýn yfir fjölda þeirra eða hvað margir starfsmenn eru á þeirra vegum. Fyrir liggur að starfskjör þessara starfsmanna eru mjög misjöfn, allt frá því að vera í samræmi við íslenskan vinnumarkað til þess að vera verulega undir lágmarkskjörum.
Deilan við 2b hefur verið mikið til umfjöllunar síðustu vikurnar. 2b er íslensk starfsmannaleiga sem hefur eingöngu leigt starfsfólk frá Póllandi.
Samkvæmt upplýsingum sem starfsmenn leigunnar hafa látið Samiðn í té eru starfsmennirnir með laun verulega undir lágmarkskjörum. Í íslenskum ráðningarsamningi sem starfsmennirnir hafa undirritað eiga þeir að hafa 700 krónur í dagvinnulaun en samkvæmt munnlegum upplýsingum starfsmannanna var gerður baksamningur úti í Póllandi og samkvæmt honum eiga þeir að fá 6,60 dollara sem eru rúmar 400 krónur. Í baksamningnum er gert ráð fyrir að greidd séu sömu laun fyrir alla tíma en í þeim íslenska er gert ráð fyrir að greiddar séu 1260 kr. í yfirvinnu. Allt bendir til að íslenski ráðningarsamningurinn sé fyrst og fremst tilraun til að blekkja.
Í samningum milli fyrirtækjanna og starfsmannaleigunnar ber fyrirtækjunum að greiða 1700 kr. auk virðisaukaskatts fyrir unna stund og að lágmarki 8 stundir á dag. Ef við gerum ráð fyrir að starfsmannaleigan standi skil á gjöldum – sem þær gera ekki í öllum tilfellum – svo sem greiðslum í lífeyrissjóð og sjúkrasjóð, tryggingagjaldi, orlofi og launþegatryggingu má bæta ofan á grunnlaunin 25%. Rétt er að taka fram að hér er ekki gert ráð fyrir veikindagreiðslum eða rauðum dögum. Ef við gefum okkur þessar forsendur þá gæti dæmið litið svo út: 400 kr. + 25 % gera 500 kr.
Starfsmannaleigan heldur eftir 1200 kr. Það er rétt að taka fram að þetta er ekki algilt en heldur ekki einsdæmi.
Hvað er hægt að kalla þessa starfsemi annað en nútíma þrælahald þegar hún birtist í þessari mynd? Baráttan síðustu vikur við 2b hefur snúist um að fletta ofan af þessari starfsemi en ljóst er að enginn fullnaðarsigur hefur unnist. Ýmsar aðrar starfsmannaleigur starfa hér á svipuðum forsendum og 2b..
Mikilvægt er að hvergi verði slegið af. Við verðum að gera þá kröfu til verkkaupa, sveitarfélaga, ríkisins og annarra ábyrgra aðila að þeir tryggi að verktakar á þeirra vegum virði íslenska kjarasamninga. Við skulum hafa í huga að starfsmannaleigurnar hafa viðskipti við íslenska aðila og það verða ekki til samningar nema tveir komi til. Þessir aðilar eiga samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra að greiða skatta af starfsmönnum sem koma í gegnum starfsmannaleigur.
Ef fyrirtækin stæðu skil á sköttum mundi sannleikurinn um laun starfsmannanna koma í ljós og þau gætu ekki skýlt sér á bak við þekkingarleysi hvað varðar launakjörin. Samiðn kallar alla til liðs við að koma þessu svínaríi upp á borðið. Tökum höndum saman um að útrýma þeim fyrirtækjum sem ekki eru tilbúin að virða kjarasamninga og lög.
Finnbjörn A. Hermannsson