Norræn samtök iðnaðarmanna styðja við bakið á stéttarfélögum við Eystrasalt þar sem einungis sjötti hver launamaður tekur laun samkvæmt almennum kjarasamningi
Hér í blaðinu hefur mikið verið fjallað um áhrif stækkunar Evrópusambandsins á vinnumarkaðinn. Mestu púðri hefur að sjálfsögðu verið eytt í innflutning á vinnuafli frá nýju aðildarríkjunum í austanverðri álfunni. En þessi peningur á sér aðra hlið og hún snýr að flutningi íslenskra fyrirtækja á starfsemi sinni til hinna nýju aðildarríkja. Sú hlið hefur minna verið rædd en hér verður reynt að bæta úr því. Tilefnið er átak á vegum fernra norrænna samtaka iðnaðarmanna sem beinist að því að styrkja verkalýðshreyfinguna í Eystrasaltslöndunum.
Flestir hafa eflaust eitthvert hugboð um að íslensk fyrirtæki séu að hasla sér völl í Eystrasaltsríkjunum. Einhverjir hafa beinlínis misst vinnuna af þeim sökum og öðrum jafnvel verið hótað að hafi þeir sig ekki hæga í kaupkröfum og því um líku megi þeir búast við því að fyrirtækið hugsi sér til hreyfings.
Það er óneitanlega eftir nokkru að slægjast hjá fyrirtækjum sem eiga í alþjóðlegri samkeppni og vilja lækka launakostnaðinn hjá sér. Í Eystrasaltslöndunum eru algeng mánaðarlaun iðnaðarmanna á bilinu 25–35 þúsund krónur á mánuði, auk þess sem ýmis félagsleg réttindi eru lakari þar en hér. Það þýðir að eystra er hægt að ráða 8–10 manns í stað hvers eins hér á landi. Og það sem yljar mörgum stjórnandanum enn meira um hjartaræturnar er sú staðreynd að einungis 15% launamanna í löndunum þremur eru félagar í stéttarfélögum og aðeins 17% iðnaðarmanna taka laun eftir almennum kjarasamningum.
12 íslensk fyrirtæki
Einn þátturinn í átaki norrænu stéttarfélaganna var að ráða finnskan háskólamann til þess að kanna hversu mörg norræn fyrirtæki hafa komið sér fyrir í Eystrasaltslöndunum. Það er ekki heiglum hent því eignarhaldið á fyrirtækjum er oft hulið innan í keðju dótturfyrirtækja sem eiga hvert í öðru þvers og kruss. En niðurstaða Markku Sippola var sú að um 400 fyrirtæki á Norðurlöndum hafa stofnað dótturfyrirtæki í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og flutt þangað starfsemi sína að hluta til eða öllu leyti.
Af þessum fyrirtækjum eru 12 íslensk með hátt í 2.000 starfsmenn, þar af fimm sem í starfa byggingar- eða málmiðnaðarmenn.
Í Eistlandi er starfrækt eitt íslenskt dótturfyrirtæki í byggingariðnaði sem hefur í þjónustu sinni 110 starfsmenn.
Í Lettlandi eru starfrækt tvö byggingarfyrirtæki í eigu sömu íslensku aðilanna með samtals 560 starfsmenn. Auk þess er þar til lítið íslenskt fyrirtæki í málmiðnaði með 16 starfsmenn.
Í Litháen er starfrækt íslensk verksmiðja með 100 starfsmenn, þar af einhverja málmiðnaðarmenn (starfsmennirnir verða orðnir 250 um næstu áramót ef áætlanir stjórnendanna ganga eftir).
Samtals starfa í þessum fyrirtækjum hátt í 800 starfsmenn sem samkvæmt sömu heimild standa allir utan stéttarfélaga. Enginn þeirra tekur laun samkvæmt almennum kjarasamningum.
Til viðbótar er að finna í skýrslu Sippola sjö önnur fyrirtæki í eigu Íslendinga, eitt í Litháen og sex í Lettlandi, samtals með rúmlega þúsund starfsmenn. Þessi fyrirtæki eru flest í matvælaiðnaði (þar á meðal fiskvinnslu) en eitt framleiðir fatnað og annað er í efnaiðnaði. Í þremur þeirra er hluti starfsmanna í stéttarfélögum og tvö fyrirtæki hafa gert kjarasamning við stéttarfélög.
Ný vinnubrögð nauðsynleg
Það virðist því engin vanþörf á að styrkja stöðu stéttarfélaga í þessum þremur löndum. Norræna verkalýðshreyfingin hefur tekið þátt í því ásamt öðrum stéttarfélögum í gömlu ESB-löndunum að styðja við bakið á samtökum launamanna í nýju aðildarlöndunum. Verkalýðshreyfing ESB-landanna hefur skipt nýju aðildarlöndunum á milli sín og samkvæmt þeirri skiptingu komu Eystrasaltslöndin í hlut norrænu félaganna.
Uppbyggingarstarfið hófst snemma á tíunda áratug síðustu aldar eftir að löndin höfðu losnað af klafa Sovétríkjanna sálugu. Hluti af sögulegum arfi þeirra úr því dánarbúi var tortryggni og fjandskapur alþýðu manna í garð stéttarfélaga sem á tímum Sovétvaldsins voru hluti af flokksmaskínunni og næsti bær við leyniþjónustuna.
Á tíunda áratugnum voru haldnir fjölmargir fræðslufundir, skipulögð námskeið og félögunum sendur stuðningur í formi tölvubúnaðar og annarra tækja og tóla. En ekkert gekk. Félagsmönnum hélt áfram að fækka. Ástæðan var helst sú að félögin lutu forystu sömu manna og á Sovéttímanum. Þeir reyndust með öllu ófærir um að breyta félögunum og gera þau fær um að verja hagsmuni félagsmanna sinna gegn uppgangi markaðshyggjunnar.
Þarna þurfti greinilega að taka upp ný vinnubrögð og í fyrra lögðu fjögur norræn sambönd iðnaðarmanna – Nordiska Metall (málmiðnaður), NBTF (byggingar- og trjávöruiðnaður), NIF (efna- og vefjariðnaður) og NU (matvælaiðnaður) – fram nýja stefnu og vinnuáætlun til nokkurra ára. Þar eru talin upp fjögur meginverkefni:
1. Átak við fjölgun félaga í stéttarfélög um.
2. Stuðla að gerð og útbreiðslu almennra kjarasamninga.
3. Tryggja aðild verkalýðshreyfingar Eystrasaltsríkjanna að Alþýðusam bandi Evrópusambandsríkja (e. European Workers Council).
4. Aðstoða við sameiningu stéttarfélaga og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra í því skyni að skapa stærri og öflugri sambönd.
Framkvæmdastjórn ESB styður þetta verkefni með 9 milljónum króna sem eiga að stuðla að því að gerðir verði almennir kjarasamningar í löndunum.
Að koma á sambandi
Eftir að þetta hafði verið samþykkt var fyrsta verkefnið að ráða áðurnefndan Markku Sippola til að gera úttekt á umsvifum norrænna fyrirtækja í Eystrasaltslöndunum. Síðan setjast fulltrúar félaganna í Eystrasaltslöndunum og á Norðurlöndum niður og taka ákvarðanir um hvernig best sé að skipuleggja starfsfólkið í norrænu fyrirtækjunum og koma á viðræðum þess við stjórnendur um gerð kjarasamninga.
Talsmaður þessa verkefnis heitir Jyrki Raina og er framkvæmdastjóri Nordiska Metall í Stokkhólmi. Samiðnarblaðið ræddi við hann á dögunum og innti eftir gangi verkefnisins.
– Það gengur vel. Við tökum þetta skref fyrir skref en verkefnið á eftir að standa yfir í allmörg ár. Við erum að beita nýjum vinnuaðferðum vegna þess að þær gömlu dugðu ekki gegn því tregðulögmáli sem ríkir í Eystrasaltslöndunum. Hluti af vandamálinu er að forystan er sú sama og á Sovéttímanum og þar er hætta á að lítið breytist fyrr en ný kynslóð tekur við stjórnartaumunum. Annað vandamál er að á Sovéttímanum voru stærstu fyrirtækin í höndum Rússa en þau eru flest farin úr landi eða komin á hausinn núna. Eftir standa smærri og meðalstór fyrirtæki og í þeim er alltaf erfiðara að koma á eðlilegum samskiptum eigenda og starfsmanna.
– Okkur hefur hins vegar tekist að fá svo til öll stéttarfélög iðnaðarmanna í löndunum þremur til þess að taka þátt í átaksverkefninu. Nú liggur úttektin á norrænu fyrirtækjunum fyrir og þá þurfa aðildarfélögin í löndunum fimm að fara yfir hana, hvert í sínu landi, og ákveða hvernig best sé að nálgast fyrirtækin. Það þarf að setja þrýsting á móðurfyrirtækin og hvetja þau til þess að taka upp viðræður við stéttarfélögin ytra. Samtímis þarf að tryggja að félögin í Eystrasaltslöndunum viti hvað er að gerast. Þau eiga oftar en ekki við þann vanda að etja að fulltrúum þeirra er ekki hleypt inn í fyrirtækin til að ræða við starfsmenn. Þarna er lykilatriði að koma á góðu sambandi milli stéttarfélaga í báðum löndum, segir Jyrki Raina.
Viljum styrkja lýðræðið
Hann segir að vissulega geri það mönnum erfitt fyrir að löggjöf sem sett var eftir fall Sovétríkjanna hafi verið fjandsamleg stéttarfélögunum en það sé þó að breytast til batnaðar.
– Eystrasaltslöndin eru öll gengin í Evrópusambandið og hafa tekið upp þá löggjöf sem þar ríkir um samskipti á vinnumarkaði. Vissulega er frjálshyggjan öflug í þessum löndum og margir stjórnendur í atvinnulífinu reyna hvað þeir geta til að fara á svig við stéttarfélögin. En ef við hér á Norðurlöndum meinum eitthvað með yfirlýsingum okkar um að styrkja lýðræðisþróunina í nýju aðildarríkjunum verða fyrirtækin að sýna ábyrgð í samskiptum við launafólk þessara landa, segir hann.
Hann segir að það hafi komið norrænu samböndunum á óvart hversu stór íslensku fyrirtækin í Eystrasaltslöndunum eru. Nú sé það verkefni íslensku stéttarfélaganna að ákveða hvernig menn vilja nálgast þau. – Við ætlum ekki að nefna nein nöfn til að byrja með því við viljum heyja þessa baráttu með jákvæðum formerkjum, enda eru það sameiginlegir hagsmunir okkar og íbúa Eystrasaltslandanna að lífskjörin í nýju aðildarríkjunum nálgist þau sem við búum við eins hratt og hægt er, segir Jyrki Raina.
Upplýsing og áróður
Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar sagði að næsta verkefni samtakanna væri að afla nánari upplýsinga um fyrirtækin sem eru með starfsemi ytra, hvort þau séu með samninga við stéttarfélögin og hvort þau virði almennar leikreglur á vinnumarkaði.
– Ef svo er ekki höfum við samband við móðurfyrirtækin hér heima og óskum eftir lagfæringum. Vonandi taka menn okkur vel og ganga í að leysa þau mál sem út af standa. En ef ekki semst hljótum við að vekja athygli landsmanna á starfseminni ytra og hvernig að henni er staðið. Norrænu samböndin beita sér síðan fyrir samræmdum aðgerðum ef annað ber ekki árangur.
– Starfsaðferðir okkar í þessu máli verða fyrst og fremst fólgnar í upplýsingu. Hingað kemur margt fólk frá þessum löndum til að vinna og norrænu félögin bjóða starfssystkinum sínum frá Eystrasaltslöndunum til sín..
Þetta fólk kynnist þeim kjörum sem hér ríkja og hvaða réttinda launafólk nýtur. Smám saman hefur það áhrif þegar fólk í Eystrasaltslöndunum gerir sér ljóst að reginmunur er á kjörum þeirra sem starfa hjá sama fyrirtækinu eftir því í hvaða landi starfsemin er. Þannig getum við lagt okkar af mörkum til að bæta lífskjörin og styrkja stoðir lýðræðis og velferðar í Eystrasaltslöndunum, segir Þorbjörn.
Nýir tímar kalla á breytingar
Samiðn hefur óskað eftir viðræðum um samstarf við Rafiðnaðarsambandið, Matvís, Félag bókagerðarmanna og Vélstjórafélag Íslands. Í bréfi til þeirra um þetta segir að íslenskt samfélag hafi breyst gífurlega á undanförnum árum og þar á meðal skipulagsforsendur iðnaðarmanna innan verkalýðshreyfingarinnar.
Á fjórða þingi Samiðnar sem haldið var á Akureyri fyrir rúmu ári var ákveðið að setja á laggirnar fimm manna nefnd til að fara ofan í saumana á starfsemi Samiðnar, hlutverki samtakanna og stefnu. Nýlega lagði nefndi fram áfangaskýrslu um störf sín fyrir miðstjórn Samiðnar og er þar meðal annars lagt til að nú þegar verði hafnar viðræður við önnur samtök iðnaðarmanna um að endurskoða skipulagsmál iðnstéttanna í landinu.
Það er álit nefndarinnar að iðnaðarmenn á Íslandi þurfi að eiga sér sameiginlegt bakland og málsvara til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, vernda áunnin réttindi og vinna markvisst í þeirri hagsmunabaráttu sem framundan er.
Miðstjórn Samiðnar samþykkti að fara þess á leit við Rafiðnaðarsambandið, Matvís, Félag bókagerðarmanna og Vélstjórafélag Íslands að samtökin héldu sameiginlegan fund þar sem kannað yrði hvort vilji er til staðar hjá þessum aðilum að skoða samstarfsfleti og -fyrirkomulag.
Í bréfi miðstjórnar Samiðnar segir að íslenskt samfélag hafi breyst gífurlega á undanförnum árum. Aukin og fjölbreyttari menntun hafi breytt skipulagsforsendum iðnaðarmanna innan verkalýðshreyfingarinnar.
„Alþjóðavæðingin hefur haft meiri áhrif á þróun vinnumarkaðarins á Íslandi síðastliðin fimm ár en marga áratugi þar á undan. Nú er íslenskur vinnumarkaður jarðarkringlan öll því að fyrirtæki eru mörg hver án landamæra. Íslensk fyrirtæki vinna nánast um allan heim og erlend fyrirtæki hasla sér í auknum mæli völl hér á landi. Fyrirtæki eru farin að spanna margar starfsgreinar og verksvið og menntun er í mörgum iðngreinum farin að skarast verulega við aðrar greinar. Því er nauðsynlegt að iðnaðarmannasamböndin og félög iðnaðarmanna ræði saman um samvinnu og skipulag.“
Verkalýðshreyfingin verði gerandi
Miðstjórnin telur að það sé afar brýnt að framtíðarsýn þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í hreyfingunni taki mið af því að verkalýðshreyfingin verði gerandi við að móta framtíðarskipan félagsmanna sinna og tryggja hagsmuni þeirra til lengri framtíðar, segir í bréfinu.
Í starfsháttanefnd Samiðnar eiga sæti þeir Finnbjörn Hermannsson, Trésmiðafélagi Reykjavíkur, Örn Friðriksson, Félagi járniðnaðarmanna, Hilmar Harðarson, Félagi iðn- og tæknigreina, Hákon Hákonarson, Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, og Sigfús Eysteinsson, Iðnsveinafélagi Suðurnesja.
Í áfangaskýrslunni er ítarlega farið yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og þar er meðal annars komist að eftirfarandi niðurstöðu:
„Ef verkalýðshreyfingin gerir ekkert í sínum innri málum, markmiðasetningu, hlutverkaskilgreiningu og síðan skipulagi, mun vægi hennar minnka hratt á næstu árum og áratugum. Verkalýðshreyfingin er að endurskoða hlutverk sitt með það fyrir augum að nútímavæðast – en það er afar nauðsynlegt að það gerist hraðar en orðið er. Það þarf ekki að merkja að verkalýðshreyfingin glati sjónum á upphaflegum baráttumarkmiðum sínum fyrir réttlæti og jafnrétti í þjóðfélaginu. Hún þarf hinsvegar að breyta áherslum sínum og koma til móts við fagleg og pólitísk markmið sem allir innan hreyfingarinnar geta sætt sig við.“