Áhorfendagreiðsla

Endurskoðunarnefnd Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hefur lokið endurskoðun á forsendum kjarasamninga aðildarsambanda ASÍ við viðsemjendur sína. Eins og lesendur muna voru tvær forsendur til skoðunar. Annars vegar hvort aðrir samningar sem á eftir komu væru marktækt hærri en þeir sem ASÍ-félögin gerðu í mars til maí 2004. Hins vegar hvort verðbólga væri innan þeirra markmiða sem nefndin gaf sér. Niðurstaða nefndarinnar var sú, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að frá atvinnurekendum kemur eingreiðsla uppá 26 þúsund krónur. Er hún hugsuð sem 14 þúsund fyrir liðinn tíma og síðan 12 þúsund krónur fyrir næsta ár, fram að næstu endurskoðun. Að auki hækka laun um 0,65% eftir rúmt ár. Sú hækkun kemur til viðbótar umsaminni hækkun 1. janúar 2007, og verður hækkunin þá 2,9% í stað 2,25%. Fleira var ekki í boði frá atvinnurekendum.

Þessar hækkanir eru ekki uppá marga fiska en verst er þó að kyngja því óréttlæti sem samið var um við framkvæmd eingreiðslunnar. Ef starfsmaður hefur skipt um vinnu á árinu, eins og þriðjungur félagsmanna Samiðnar hefur gert, missir hann hluta launabótarinnar. Reglan er sú að starfsmaðurinn fær þá eingöngu hluta eingreiðslunnar í hlutfalli við ráðningartíma hjá nýjum atvinnurekanda. Ég held að við höfum aldrei áður náð þeirri lægð í vitleysunni að semja vísvitandi af okkur launaleiðréttingu næsta árs.

Eins og ævinlega fundu atvinnurekendur þann sem bágast á og skýldu sér á bak við hann. Að þessu sinni var það sjávarútvegurinn sem sannarlega hefur það skítt. En hvers vegna? Það eru ekki launin sem eru að sliga sjávarútveginn heldur hátt gengi krónunnar. Flestar aðrar atvinnugreinar eru að mala gull.

Við búum við eitt mesta hagvaxtarskeið sem um getur á byggðu bóli um þessar mundir. Því má segja að þessi eingreiðsla sem kemur 15. desember sé eins konar áhorfendagreiðsla. Okkur er greitt fyrir að horfa á góðærið líða hjá og sjá aðra raka til sín ágóðanum af því. Íbúðarverð hefur hækkað um 40% á endurskoðunartímanum. Við fáum greiddar 14 þúsund kr. fyrir sama tímabil.

Mikil er ábyrgð okkar!

Ég var og er þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin hafi gert mikið glappaskot með því að framlengja samningana við núverandi aðstæður. Við stöndum alltaf frammi fyrir því að þegar allir eru búnir að ná sér í sinn skerf af góðærinu þá er því miður ekkert eftir fyrir launafólk. Ef minnst er á hækkun fyrir almennt launafólk setur það stöðugleika íslensks efnahagslífs í voða, verðbólgan verður óviðráðanleg, hátæknifyrirtæki flytja úr landi, fiskvinnslan líður undir lok á Íslandi og byggð leggst af víðast á landsbyggðinni. Kunnuglegir frasar og mikið notaðir við endurskoðunina.

Ég met stöðuna í ljósi þessa á þann veg að langtímasamningar hafi liðið undir lok. Allir aðilar á vinnumarkaði munu reyna að gera skammtímasamninga..

Hefði verkalýðshreyfingin sýnt styrk sinn að þessu sinni og náð að rétta hlut verkafólks hefði fólk fengið meiri tiltrú á að við sætum við sama borð og aðrir landsmenn. Við þurfum að semja við ríkisvaldið um löggjöf um starfsmannaleigur. Við þurfum að kaupa með framlengingu samninga að lífeyrissjóðir okkar fái brot af því fé sem setja þarf í örorkuhluta almennu lífeyrissjóðanna til að ná fram samræmingu lífeyrisréttinda landsmanna. Ég er að sjálfsögðu ánægður með að við þessum málum sé hreyft en á meðan aðrir hópar, svo sem ríkisstarfsmenn og bændur, fá þessar leiðréttingar við það eitt að eiga leið framhjá viðkomandi ráðuneytum þurfum við að kaupa þessa réttlætingu dýrum dómum.

Ákvörðunin hefur verið tekin um framlengingu og við hana þurfum við að búa.

Við skulum því horfa á jákvæðu hlutina og það eru þeir sem um samdist við ríkisstjórnina. Við skulum setja annað í reynslubanka okkar og nýta síðar.

Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður Samiðnar